13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

115. mál, bankavaxtabréf

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það er misskilningur hjá háttv. 1. landsk., að þegar sje búið að biðja um öll þau fasteignaveðlán, sem till. hans fjallar um. Af 6. flokki eru enn þá eftir 3 milj. króna, sem öllum standa til boða, og 7. flokkur er allur ólofaður. Hv. 1. landsk. getur því boðið allmörgum enn upp á að fá sjer gjöf úr vösum gjaldenda. Hann kallaði það bíræfni af mjer að minnast á umbætur þær, sem nú á síðustu árum hafa orðið á fasteignalánum hjer á landi, en það getur þó varla verið meining hans að halda því fram í alvöru, að þær hafi engar verið.

Um það leyti, sem núverandi stjórn tók við, seldust vaxtabrjef veðdeildarinnar á 70% af nafnverði og þar fyrir neðan. En nú síðastliðið haust hafa veðdeildarbrjefin selst fyrir 92 kr. Afföllin voru því ekki nema 8% í haust, í stað 30%, þegar núverandi stjórn kom til valda. Talsvert hefir því áunnist, enda þótt afföllin sjeu nú sem stendur 11%. Auk þessa hefir ræktunarsjóðurinn tekið til starfa á þessum tíma og veitt affallalaus lán.

Að mönnum, sem fasteignaveðlán taka, sje gert að greiða 20% í viðbót, ef krónan hækkar, er hreinasti misskilningur. Lánin hækka ekki um einn eyri að krónutali við það. (JJ: Krónan stækkar þó). Jú, það er öldungis rjett, en þær krónur stækka líka, sem menn afla, svo alt kemur í sama stað niður.

Allar þessar till. háttv. 1. landsk. eru því bygðar á tómum misskilningi, sem sprottinn er af einsýni hans á gengismálum yfirleitt.

Þetta er síðasta umræðan um þetta frumvarp, og þó að deilt hafi verið um brtt. háttv. þm. Str. og háttv. 1. landsk., þá er mjer þó ánægja í því, að í öllum þessum umræðum hafa ekki komið fram andmæli gegn þeim lántökum, sem hjer er farið fram á. Verð jeg því að taka það svo, að allir telji rjett að halda áfram með þessa viðleitni til að halda uppi veðlánastarfseminni.