03.03.1927
Efri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

4. mál, iðnaðarnám

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Eins og þskj. 70 ber með sjer, hefir nefndin athugað það og leggur til, að það sje samþykt með nokkrum smábreytingum. 1. brtt. nefndarinnar er við 5. gr. og er fram komin til þess að gera það skýrara, hve langur tími verði að vera liðinn af námstímanum, til þess að lærimeistari eða nemandi geti heimtað, að samningi sje slitið. Nefndinni þótti frv. ekki kveða nógu skýrt á um þetta, en vildi hinsvegar, að á þessu atriði gæti enginn vafi leikið.

Þá er smábreyting á 6. gr. þar leggur nefndin til, að í stað orðanna: „en orðið að slíta námssamningi“ komi: en námssamningi verið slitið. Nefndinni þótti rjettara að orða þetta þannig, því það getur vel komið fyrir, að námssamningi sje slitið án þess að nemandi eigi sök á, þó að lærimeistari eigi upptökin. 3. brtt. er aðeins lagfæring á orðalagi.

4. brtt. er við 23. gr. Nefndinni þótti nauðsynlegt, að tekið væri fram um leið og ákveðið væri, að lög um iðnnám, frá 1893, gengju úr gildi, að um námssamninga, sem nú væru í gildi, færi eftir eldri lögum. Þetta þótti nefndinni ekki koma nægilega skýrt fram í frv.

Að öðru leyti felst nefndin á frv. eins og það liggur fyrir. Það er sniðið eftir lögunum frá 1893, og breytingar þær, sem gerðar hafa verið, fara yfirleitt í þá átt að gera námið aðgengilegra fyrir nemendur. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.