17.05.1927
Efri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg hefi átt tal um þetta mál bæði við hlutaðeigandi prest og oddvita, en það vanst þó ekki tími til þess að kalla þá á fund allshn. Jeg hefi af því viðtali sannfærst um það, að það er ekkert verulegt því til fyrirstöðu, að mál þetta gangi fram. Mosfell getur vel án lands þessa verið, enda hefir ábúandinn tiltölulega lítil not af því, og ekki önnur en þau, að hann hefir í einstaka árum getað leigt Reykvíkingum þar slægjur og fengið ofurlitla þóknun fyrir. Annars hafa hreppsbúar notað þetta land fyrir afrjett og annast þar fjallskil öll. En ef presturinn ætti sjálfur að annast þau, þá mundi ekki borga sig fyrir hann að nytja land þetta. Eina mótbáran gegn frv. er sú, að landið geti hækkað í verði, er hinn nýi vegur til Þingvalla, sem á að leggja þar um, væri lagður, og mundi þannig presturinn fara á mis við einhvern hagnað. En þegar þess er gætt, að hagnaðurinn fellur í raun og veru hinu opinbera eða hreppnum, þá ættu menn ekki að setja það fyrir sig, enda yrði það aldrei mikið, því að landið liggur hátt og er snjóþungt og því ekki vel fallið til ræktunar.

Jeg get játað það með hv. þm. A.- Húnv. (GÓ), að nefndin hefir ekki getað athugað frv. þetta eins vel og æskilegt hefði verið, en því veldur bæði það, hvað málið kom hingað seint og svo annríki deildarinnar. En jeg get þó ekki annað en mælt með því, að frv. verði samþ.