18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Ingvar Pálmason:

Mjer skildist vera töluverður ágreiningur um þetta mál, og eftir því, sem jeg hefi kynst því af umr., þá get jeg ekki fallist á, að það nái fram að ganga. Það hefir komið fram í ræðum þeirra, sem fylgjandi eru sölu á landi þessu, að það sje lítils virði. En jeg held hið gagnstæða, eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið.

Því hefir verið haldið fram, að andvirði lands þessa eigi að ganga til þess að bæta heimajörðina og á þann hátt hafi hún meira gagn af því en að eiga það uppi á heiði. Þetta fæ jeg ekki skilið, því að jeg sje ekki betur en að auka megi notkun heimajarðarinnar með afgjaldinu eftir land þetta, sje það leigt. Jeg held því, hvernig sem málið veltist, að það eigi ekki fram að ganga á þessu þingi. Fæ jeg ekki sjeð, að hundrað sje í hættunni, þótt það dragist 1–2 ár, eða að Mosfellshreppi sje með því sá ógreiði ger eða tjón, er nokkru nemi, en hitt er varhugavert, að afgreiða málið án þess að fyrir liggi betri eða fleiri gögn en nú.

Mun jeg greiða atkvæði gegn því, að frv. nái fram að ganga.