30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

37. mál, fjáraukalög 1926

Þorleifur Jónsson:

Aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. forsrh. (JÞ) sagði um brtt. fjvn., að bætt yrði við álagið á Kálfafellsstaðarkirkju 1000 kr.

Jeg get ekki skilið, að hæstv. ráðherra sje ekki unt að borga þetta út nú, enda þótt það sje í fjáraukalögum fyrir árið 1926. Að minsta kosti man jeg ekki betur en að brtt. við fjáraukalög, hliðstæðar þessari, hafi komið fram áður og ekkert verið til fyrirstöðu að greiða þær upphæðir. En ef þetta í raun og veru skyldi standa í vegi fyrir þessari greiðslu, þá má bjarga því við, eins og hœstv. ráðh. benti á, með því að taka till. aftur nú og láta hana koma fram við fjárlögin fyrir 1928.

Máli þessu til skýringar skal jeg taka það fram, að eins og kunnugt er, hefir kirkjustjórnin unnið að því að koma sem flestum kirkjum yfir á söfnuðina. Um það er í sjálfu sjer ekkert að segja, en hinsvegar verður það ekki að teljast sanngjarnt eða rjett, að svo gott sem narra fátæka söfnuði til þess að taka við kirkjuskriflum með litlu ofanálagi. Er það söfnuðunum venjulega langt ofvaxið að byggja slíkar kirkjur upp svo að sómasamlegt sje, nema þeir fái álitlega upphæð með kirkjunum. Jeg vil nú til skýringar og með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr brjefi frá sóknarnefnd og safnaðarfulltrúa Kálfafellsstaðarkirkju til Alþingis:

„Þegar Jón Helgason biskup var hjer á vísitasíuferð árið 1918, fór hann þess á leit við söfnuðinn, að hann tæki að sjer Kálfafellsstaðarkirkju með því meðlagi frá ríkinu, sem um semdi. Var þessari málaleitun biskups fremur fálega tekið og honum ekki gefið neitt ákveðið svar frá safnaðarins hendi? lá því málið niðri án þess því væri hreyft, hvorki af biskupi nje sóknarnefnd, um sjö ára bil“.

Svo er máli þessu hreyft aftur 1925, og þá samþykti söfnuðurinn að taka að sjer kirkjuna, með þeim skilyrðum, að hann fengi kirkjuhúsið sjálft eins og það stóð, og jafnframt sjóðeign þá, sem kirkjan átti, sem var að upphæð 1600 kr. Í öðru lagi að ríkið ljeti í meðlag með henni þá jarðarparta, sem óseldir voru úr jörðinni Borgarhöfn, er metnir voru samkvæmt jarðamati á 4500 kr., og ennfremur það, sem óborgað var af þeim jarðarpörtum. úr þeirri sömu jörð, sem seldir höfðu verið af eign kirkjunnar. Þetta voru því kröfur safnaðarins 1925, En kirkjustjórnin. úrskurðaði, að söfnuðurinn fengi aðeins 2500 kr. með kirkjunni, fyrir utan sjóðeignina, en jarðarpartana gæti hann ekki fengið nema með sjerstökum lögum frá Alþingi.

„Þegar hjer var komið,“ segir sóknarnefndin, „var sóknarprestur okkar, sjera Pjetur Jónsson, svo bilaður að heilsu, að fyrirsjáanlegt var, að hann yrði að hætta við prestsskap og nýr prestur að taka við brauðinu. Ýttu þessi umskifti því mjög undir söfnuðinn að taka kirkjuna að sjer, til þess að gera brauðið aðgengilegra fyrir viðtakandi prest, því að söfnuðurinn bjóst við, að erfiðara yrði að fá prest á svona afskekt brauð, ef kirkjan hvíldi á því óuppbygð“.

Gekk því söfnuðurinn inn á þetta tilboð kirkjustjórnarinnar, því að hann gerði sjer von um, að hægt yrði að koma upp kirkjunni fyrir þetta fje, ásamt sjóði kirkjunnar og álagi því á kirkjuna, sem fráfarandi prestur greiddi, sem urðu 600 kr. Á síðastliðnu vori rjeðst söfnuðurinn í það að byggja kirkjuna upp úr steinsteypu, eftir teikningu frá húsameistara. En nú er það orðið augljóst, að fje það, sem söfnuðurinn hafði til byggingarinnar, nægir hvergi nœrri.

Í áðurnefndu brjefi segir svo:

„Nú er kirkjan komin það áleiðis, að fyrirsjeð er, hvað hún kostar, og verða það fullar 14000 kr. Er hjer um svo gífurlegan mismun að ræða frá því, sem söfnuðurinn gerði sjer í hugarlund, að hún mundi kosta, þegar hann tók hana að sjer“.

Það er mikill munur á allri þessari upphæð og þeim 8000 kr., sem söfnuðurinn bjóst við, að hún kostaði í mesta lagi.

Það er aðgætandi, að söfnuðinn vantar um 8000 kr. og getur ekki fengið að láni nema um 3000 kr. úr kirkjujarðasjóði; og þar sem þetta er fámennur söfnuður, verður hann að taka á sig 5000 kr. aukna byrði, fyrir utan þetta 3000 kr. lán, til þess að koma kirkjunni upp. — Af þessari ástæðu finst mjer það sanngjarnt, að hlaupið sje undir bagga með söfnuðinum, þar sem hann á mjög erfitt aðstöðu. Sóknarnefndin fór fram á það, að þingið bætti 2000 kr. við ofanálagið. Fjvn. hefir nú lagt til, að öllum málavöxtum athuguðum, að sanngjarnt sje að bæta söfnuðinum upp með 1000 kr. Jeg vildi nú gjarnan heyra, hvort hæstv. forsrh. aftekur með öllu að greiða þessar 1000 kr., þótt þær sjeu í fjáraukalögum. Sje það ófáanlegt, er ekki annað fyrir hendi en að taka tillöguna aftur að sinni og koma því inn í fjárlagafrv.