28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Halldór Steinsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd út af ummælum hv. þm. Vestm. (JJós). Hann hefir misskilið mig. Í gær, þegar jeg talaði um landhelgisgæsluna á vestanverðum Faxaflóa og á Breiðafirði. Hann hefir skilið mig á þá leið, að jeg væri ánægður með landhelgisgæsluna þar vestur frá eins og hún hefir verið framkvæmd, nema aðeins yfir janúarmánuð. En jeg sagði í gær, að hún hefði verið verst í janúar, því að þá var hún sama sem engin. Varðskip sást ekki nema tvisvar eða þrisvar allan þann tíma. Jeg gat þess jafnframt, að þetta væri ekki með öllu óafsakanlegt að því er janúarmánuð snerti, af því að skipið var forfallað. En því fremur hefði mátt búast við fullkominni gæslu eftir að skipið kom heim. En það er síður en svo, að þessu hafi verið kipt í lag. Eins og jeg gat um í gær, hefir verið heill floti af íslenskum togurum á þessum slóðum. Og þar sem hvergi mun vera önnur eins aðsókn af togurum í landhelgi, nema ef til vill við Vestmannaeyjar, þá gegnir furðu, að ekki skuli vera haft varðskip að staðaldri á þessum slóðum, þegar ágangurinn er sem mestur. Það mætti gera kröfu til, að það kæmi þarna daglega, en það er nú eitthvað annað en svo sje. Það hefir aðeins skroppið vestur án þess að hafa hendur í hári nokkurs togara. Mjer dettur ekki í hug að kenna um vanrækslu skipstjóra, þegar hann fór á vettvang, en gæslan hefir bara verið algerlega ónóg.

Jeg get svo endað með sömu orðum og áður, með því að beina þeirri kröfu til stjórnarinnar, að hún sjái um, að landhelgisgæslunni á þessum slóðum verði komið í betra horf framvegis en hún hingað til hefir verið.