01.04.1927
Efri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Allshn. hefir haft þetta frv. til athugunar, og eins og nál. á þskj. 265 ber með sjer, felst nefndin í öllum aðalatriðum á það eins og hæstv. stjórn hefir gengið frá því. — Að mestu leyti nægir að vísa til greinargerðar þeirrar, er fylgir stjfrv. Nefndin felst á allar þær ástæður, sem þar eru færðar fram, enda virðist það svo sjálfsagt mál, að þeir, sem eru á varðskipunum, sjeu sýslunarmenn ríkisins. Jeg vil þó benda á eitt atriði, sem gerir það nauðsynlegt, að að minsta kosti skipherrar og stýrimenn sjeu opinberir embættismenn. Það er það, að þeir eiga að athuga stöðu skipa og segja til um það, hvort þau sjeu stödd innan landhelgislínunnar eða ekki. Og skýrslur þeirra um þetta eru þá, ef þeir eru opinberir sýslunarmenn, næg sönnun, án þess að unninn sje að þeim eiður, ef ekki er hægt fyrir sakborning að hnekkja þeim að öðru leyti. Hinsvegar hefir það hingað til verið svo, að þeir hafa orðið að staðfesta skýrslur sínar með eiði, ef nokkur ágreiningur hefir risið um það, hvort rjett væri frá skýrt. Ýmsar aðrar ástæður gera þetta einnig sjálfsagt.

Jeg vona, að öllum hv. þdm. sje það ljóst, að löggæslu af hendi ríkisins geta þeir einir leyst af hendi til langframa, sem eru opinberir sýslunarmenn. Hjá öðrum þjóðum er landhelgisgæslan framkvæmd annaðhvort af sjóliðinu eða af svonefndri sjólögreglu. Varðskipin hjá okkur hafa því sama starf á hendi eins og sjólögreglan hjá öðrum þjóðum.

Þær brtt., sem nefndin hefir leyft sjer að flytja, miða bæði að því að skýra ákvæði frv. og að tryggja rjett þeirra sjómanna, sem starfa á skipunum. Rjettarbót er það auk þess, sem frv. sjálft felur ótvírætt í sjer, t. d. ákvæðin um, að sjómennirnir skuli slysatrygðir og ákvæðið um frávikningu og um endurgreiðslu iðgjalda úr lífeyrissjóði. Nefndin álítur, að þessar brtt. sjeu til bóta og væntir þess, að hv. deild sjái sjer fært að ljá þeim lið.

Að öðru leyti eru ástæðurnar fyrir frv. þessu teknar fram í greinargerðinni, og sje jeg ekki ástæðu til að endurtaka þær hjer í þessari framsögu.