04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 5. landsk. (JBald) hefir nú við 3. umr. þessa máls verið að klifa á því sama og við 1. umr. Hann fullyrðir, að undirmennirnir á skipunum verði með öllu rjettlausir. En um leið fullyrðir hann, að embættis- og sýslunarmenn landsins sjeu rjettlausir, því að það er skýrt tekið fram í frv., að allir starfsmenn varðskipanna verði sýslunarmenn ríkisins. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. fær marga af sýslunarmönnum landsins og þingmönnum til þess að taka undir það með sjer, að þeir sjeu rjettlausir menn. Það er fyrst núna, sem jeg hefi heyrt þeirri kenningu haldið fram.

Hv. þm. mintist á yfirforingjana, sem hann taldi vera harla viðkvæma fyrir yfirsjónum. Hann nefndi engin dæmi um íslensku foringjana máli sínu til sönnunar, svo að þetta hlýtur að vera alment sagt um foringjana einhversstaðar annarsstaðar og viðkvæmni þeirra. En það er ekki hægt að hugsa sjer meiri viðkvæmni en þessi hv. þm. hefir gagnvart því, að aðrar reglur skuli vera settar um varðskipin og skipshöfnina á þeim heldur en þær, er settar væru, ef ríkið t. d. gerði út togara eða flutningaskip. Hv. þm. ætti að skilja það, ef hann vildi skilja það, að útgerð löggæsluskips, sem er undir umsjón stjórnarráðsins, hlýtur að verða hagað öðruvísi og aðrar reglur settar um hana en um útgerð fiskiskips eða flutningaskips.

Jeg hefi lítið heyrt getið um það, að skipstjórar varðskipanna misvirtu það við stýrimennina, að þeir væru áfjáðir í það að framkvæma skylduverk sín. Ef skáldskapurinn til þess að vekja andúð gegn þessu frv. gengur svo langt að kalla það yfirsjón að vera áfjáður í að framkvæma skylduverk sín, þá fer aðstaða og umtal þessa hv. þm. um þetta mál að verða harla einkennileg.

Þótt reglum siglingalaganna alment sje ekki ætlað að gilda um þessa menn á varðskipunum, þá ber þess að gæta, að frv. gefur þeim þá aðstöðu að öðru leyti, að þau rjettindi, sem þeir missa við það að komast undir þau lög, sem hjer er verið að ræða um, vinna þeir upp við það að vera skoðaðir opinberir sýslunarmenn ríkisins.

Hv. 5. landsk. mintist á það, að ef sjómenn veiktust, þá hefðu siglingalögin ákvæði þar að lútandi. En hv. þm. veit þó líklega, að hægt er að benda á dæmi um það, að ríkið hefir ekki látið sýslunarmenn sína afskiftalausa í veikindum. Það er líka augljóst, að þótt nauðsynlegt sje, að settar sjeu ítarlegar reglur til tryggingar þeim mönnum, sem sigla fyrir útgerð einstaklinga, þá er ekki eins nauðsynlegt að setja jafnítarlegar reglur þar sem ríkisvaldið á í hlut. Hv. þm. hefir oft haldið því fram, að ríkið ætti að gera þetta eða hitt, þar eð það væri best trygt í höndum þess. En hjer kemur hann í bága við sjálfan sig, er hann lítur svo á, að ríkið sje ekki ótortryggilegra en jeg eða aðrir útgerðarmenn gagnvart sjómönnunum. Jeg álít, að stjórn og þing láti sjer með þessu frv. farast þannig við þessa sjómenn, að það, sem þeir missa við að vera ekki háðir siglingalögunum, vinni þeir með því að verða sýslunarmenn ríkisins.

Hinsvegar er mjer það ljóst, að á varðskipunum þarf að vera agi og regla í svo góðu lagi sem nauðsynlegt er. Það má ekkert draga úr því valdi, sem ríkisstjórnin og skipstjórarnir eiga að hafa. Þess vegna er nauðsynlegt, að settar sjeu reglur, sem tryggi það, að hægt sje að halda uppi góðum aga á þessum skipum. Jeg vil meira að segja halda því fram, að öll regla og tilhögun á varðskipunum eigi að vera í svo góðu lagi, að það sje til fyrirmyndar fyrir önnur skip, sem einstakir menn eða fjelög eiga. Það er ekki nema með röksemdafærslu hv. 5. landsk., að hægt er að draga ranglæti út úr þessu. Því það er öllum vitanlegt, að það er alveg nauðsynlegt, ekki hvað síst á þessum skipum, að vel sje haldið uppi aga og reglum. En hv. 5. landsk. hefir einhverja fyrirfram ákveðna afstöðu til þessa máls. Og jeg hygg, að honum sje enginn órjettur ger, þó að jeg segi það, að hann líti á málið velvildarlaust. Í síðustu ræðu sinni kom hv. þm. að því, sem jeg álít vera höfuðástæðuna fyrir mótstöðu hans gegn frv. — en það var, er hann sagði, að með frv. væru tekin öll fjelagsrjettindi af hásetunum á skipunum. Jeg skal játa það, að mjer er ekki allskostar ljóst, við hvað hv. þm. á með þessum orðum sínum, nema ef hann skyldi eiga við það, að með frv. þessu komast hásetarnir undir þau ákvæði laga, er gilda.um opinbera sýslunarmenn að því er verkföll snertir. Jeg fæ ekki sjeð annað en að þeim sje heimilt eftir sem áður, þó að frv. þetta verði að lögum, að taka þátt í öllum þeim löglegum fjelagsskap, sem þeir vilja. En hitt er satt, að lögin um verkföll ná einnig til þeirra eins og annara sýslunarmanna ríkisins. En þessir menn eru ekki svo margir, þar sem að minsta kosti ennþá er ekki nema um 2 skip að ræða. og það virðast hafa stafað og stafa nægileg vandræði af verkföllum á öðrum sviðum atvinnulífsins, þó að þessir fáu menn á varðskipunum bættust ekki við í hóp þeirra manna, er því vopni beita. Slíkt gæti orðið til þess um langan eða skamman tíma að stöðva alla landhelgisgæslu, til stórtjóns fyrir þjóðina. Jeg hygg, að fáir háttv. þingdeildarmenn, aðrir en hv. þm. (JBald), muni harma þá ráðstöfun.