04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

19. mál, varðskip ríkisins

Einar Jónsson:

Jeg veit, að það á að vera fyrsta skylda hvers manns, sem biður sjer hljóðs, að tala um það frv., sem liggur fyrir. En satt að segja kvaddi jeg mjer hljóðs vegna þeirra áhrifa, sem jeg hefi orðið fyrir við að sitja undir löngum og leiðinlegum ræðum; jeg veit, að margir fleiri hv. þdm. hafa tekið eftir hinu sama, og þá er ekki nema rjett, að einhver verði svo hreinskilinn að segja það.

Hjer hafa tveir hv. þm. látist vera á móti frv., en mótstaða þeirra er svo loðin og óljós, að jeg skil hana ekki, og því síður að jeg sjái, hver þörf er á henni. Jeg hefi ekki haft nokkra stöðvun í mjer til þess að hlusta á þá frá upphafi til enda, og býst heldur ekki við að geta það.

Þessir hv. þm. hafa verið að tala um 500 manna embættisflokk, sem væri nýr og á nýjum launum. (JJ: Háttv. þm. er eitthvað í öðrum heimi; það er verið að tala um 50 menn). Mjer finst það miklu betra fyrir báða málsparta, að það sje fastákveðið, hver laun þessir menn skuli hafa, svo að stjórnin þurfi ekki, þegar minst varir, að fara að gera samninga við þá. Það er áreiðanlegt, að þessir tveir háttv. þm., hv. 1. og 5. landsk., þeir sjá, að það þýðir ekkert að vera að tefja tímann með öllum þessum ræðum; frv. verður samþykt, það er enginn vafi á því, og jeg veit, að það er til bóta og bygt á því, sem gott er og gilt. Mig furðaði t. d. stórlega á því, þegar þessir hv. þm. voru að snúa út úr orðum hv. þm. Snæf. Er það nokkur furða, þótt einhver hv. þm., sem við sjóinn býr, geti vitnað í hluti, sem ekki fara sem best? Það hygg jeg, að hv. þm. Snæf. geti með sanni sagt, eða ætlast nú nokkur til, að hægt sje að vera svo á verði, að ekkert fari öðruvísi en á að vera með strandgæsluna? Jeg get yfir höfuð alveg sparað mjer að tala um gildi þessa frv. með þeirri einu setningu, að jeg þykist gera rjett, þegar jeg greiði atkvæði með því, og slík mótmæli, sem hjer hafa komið í dag, eru alveg þýðingarlaus.

Eitt þykir mjer undarlegt; það er, að í síðasta tölublaði Tímans, sem jeg hefi lesið, er gerður samanburður á þeim ræðum manna, er haldnar hafa verið hjer í þinginu. En sá samanburður er hlutdrægur, vegna þess að báðir okkar ráðherrar eru í Íhaldsflokknum, og verður það þess vegna til þess að hleypa mjög mikið fram ræðufjölda íhaldsmanna, en ef rjett væri, ættu ráðherrarnir helst aldrei að vera teknir með í reikninginn, þegar gerður er samanburður á þessu. En nú get jeg tekið eitt fram, sem er hv. 1. landsk. til þóknunar. Það var fyrir einu eða tveimur árum gerður samanburður á ræðuhöldum þessara tveggja flokka, og þá voru það Framsóknarmenn, sem hjeldu 141 ræðu, þegar þm. Íhaldsflokksins hjeldu eitthvað 60 ræður. Jeg sje, að hv. þm. Str. (TrÞ) er hjer viðstaddur. Það minnir mig á, að sá hv. þm. heyrði mig segja frá þessu austur á Ægissíðu, og vitnaði jeg þá til hans. Jeg man það líka, að þá komst hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) af með 10 ræður við allar umr. fjárlaganna, þegar hv. þm. Str. þurfti að halda 21 ræðu. Það voru þá ekki íhaldsmenn, sem töfðu tímann með því að tala afskaplega mikið. Það er nú tillaga mín og ráðlegging til þessara góðu manna, sem mest hafa talað hjer, að þeir fari hjer eftir að dæmi tveggja elstu manna þessarar deildar, þeirra hv. 1. þm. G.-K. (BK) og hv. 4. landsk. (MK), og verði nú hjer eftir hógværir og stuttorðir og tali ekki nema þegar þeir þurfa, því að ef þeir halda áfram að tefja þingið dag eftir dag, þá get jeg ekki orðið vinur þeirra. (JJ: Jeg óska heldur ekki eftir því).