07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

* Jeg get verið stuttorður um mál þetta. Eins og getið er um í nál. á þskj. 503, hefir nefndin ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Hefir hún klofnað í þrent. Milli 1. og 2. minni hl. ber ekki svo mikið um frv. það, sem til allshn. var vísað, um varðskip ríkisins og sýslunarmenn á þeim.

Brtt. þær, sem við í 1. minni hl., jeg og hv. þm. Dal. (JG), berum fram við frv., eru ekki svo stórvægilegar, að þörf sje að fjölyrða um þær. Hv. þm. hafa sjálfsagt borið þær saman við frv., og sje jeg því ekki ástæðu til að rekja þær lið fyrir lið. Sá orðamunur, sem við leggjum til, að gerður verði, er aðeins breyting á orðalagi frv., en snertir ekki verulega efni þess.

Aðalbreytingin er í því fólgin, að við viljum, að í frv. sjeu ákvæði um það, hve margir embættismenn eigi að vera á skipunum og hvaða kjör þeir eigi að hafa. Við teljum betra að hafa ein lög um þetta en að hafa sjerstök lög fyrir varðskipin og sýslunarmenn á þeim, en önnur um launakjör þeirra. Við höfum heldur ekki getað fallist á efni þess frv., er vísað var til fjhn. og ræddi um embættaskipun og launakjör þessara manna. Við teljum betur fara að hafa þetta í einum lögum, og því höfum við komið fram með þessar brtt., meðal annars af því að þessi embættiskostnaður og laun eiga ekki að greiðast nema að nokkru leyti úr ríkissjóði. Það er landhelgissjóður, sem á að annast úthald þessara skipa og greiða laun þeirra manna, sem á þeim eru. Þess vegna er rjettara að láta lög um þetta efni innibinda í sjer ákvæði, sem starfinu viðkemur. Auk þess get jeg getið þess, að þó að sjálfsögðu þurfi að hafa þá mannatölu, sem nú er, þá gerum við mun á því, hvort menn eru ráðnir á þann hátt, sem við leggjum til, eða hafa föst embætti. Má vera, að það skifti ekki miklu máli upp á launakjörin og tilkostnaðinn við útgerð skipanna, en þó er það sitthvað að hafa þessar sýslanir lausar og hafa menn ekki bundna um ótiltekinn tíma við starfið, eða geta gert með fyrirvara breytingu á ráðningunni á skipunum. Við höfum gert þá breytingu, að menn geti sagt upp þessu starfi með fyrirvara, og eins eiga stjórnarvöldin, sem með þessi mál fara, að geta sagt mönnum upp á sama hátt. Jeg hygg, að með till. okkar sje á engan hátt sjeð verr fyrir þessu máli en í frv. Það er ekki tilgangur okkar, að skipverjar, er á skipum þessum starfa, sjeu látnir hafa nokkuð verri kjör en tíðkast á öðrum skipum. Til þessa starfa þarf nýta og góða menn, ekki aðeins yfirmennina, heldur og skipverja alla. En jeg get ekki betur sjeð en það auki meira kostnaðinn fyrir landið að fara að gera þá alla að föstum embættismönnum heldur en að hafa það eins og við leggjum til. Eftir því sem tilkostnaðurinn við embættismannahaldið í landinu verður meiri, borið saman við efnahag landsins og fólksfjölda, því varlegar verðum við ætíð að fara í það á hverjum tíma að stofna ný föst embætti. Jeg hefi ekki talið saman síðan dýrtíðaruppbótin var lækkuð, hvað mikið fer til embættismanna landsins, en jeg hygg, að það sje ekki fjarri 5 milj. kr. Er þó ekki alt reiknað. Þá eru á 2. milj. kr. fastákveðin gjöld í vexti og afborganir. Þarna eru þá komnar á 7. milj. kr. í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir 10 milj. kr. tekjum. En þó að það falli svo vel um atvinnurekstur landsins, að þessar tekjur komi allar inn á árinu 1928, þá er jeg því miður hræddur um, að að því reki áður en varir, að tekjur ríkissjóðs nái ekki þessari upphæð. Nálgist verðlagið, sem var fyrir stríð, eins og alt bendir til, og komist útflutningsvörur okkar svo langt niður, sem engan hefði órað fyrir, þá sje jeg fram á það, að ekki verði hjá því komist á næstu þingum að ljetta af sköttunum að verulegum mun. Er ólíklegt, að menn geti greitt á næstu árunum 20% af þjóðartekjunum, eða ef til vill meira, en það eru um tvöfalt hærri gjöld en erlendir sjerfræðingar hafa talið fært, að lagt væri á gjaldendur. Þegar á alt er litið, er teflt á tæpasta vaðið í skattamálunum og verður brátt að fara að draga eitthvað úr. Er þá bersýnilegt, hvar sá sparnaður á að koma niður. Jeg geri þó ráð fyrir, að þó að einhver sparnaður yrði á embættismannahaldinu við fækkun eða sameiningu embætta, þá verði sá útgjaldaliður altaf mjög hár. Að því er snertir vexti og afborganir af lánum, sem greiða þarf, getur um engan sparnað verið að ræða, ef við á annað borð getum staðið í skilum. Það verður því svo, að sparnaðurinn lendir aðallega á hinum verklegu framkvæmdum. Úr þeim verður að draga. En þegar þessu horfir þannig við, þá er okkur skylt að hafa gát á því að stofna ekki föst embætti nema brýnasta nauðsyn sje til. Jeg get nú búist við, að mjer verði svarað því, að það þurfi að annast landhelgisgæsluna og hafa menn á skipunum, hvort sem þeir eru þar í föstum embættum eða launaðir svipað því, sem við leggjum til. Jeg er þó ekki viss um nema það mundi draga úr mannahaldinu meira en gert er í frv. Það er eðlismunur á því, hvort hjer er um að ræða föst embætti eða hvort mennirnir eru aðeins ráðnir með þeim hætti, sem við leggjum til. Landið hefir ekki sömu skyldur gagnvart þeim, sem ráðnir eru, og þeim, sem eru í föstum embættum. Jeg gæti líka eins vel búist við því, að mennirnir væru eins vel settir með þeim ráðningarmáta og hinum.

Viðvíkjandi skyldum þessara manna vildum við, eins og felst að nokkru leyti í frv. stjórnarinnar, ganga svo frá, að þeir geti ekki lagt niður vinnu eða sagt upp starfinu nema þá með tilteknum uppsagnarfresti. Þetta er svo þýðingarmikið atriði, að ekki geti komið til mála að hafa þann ráðningarmáta og svo mikilsvert að okkar áliti, að það eigi ekki við að hafa þetta atriði grímuklætt í frv. Það er best að segja hreint til litar og mæla svo fyrir um, að menn megi ekki leggja niður vinnu. Það eru ákvæði í frv. eins og það er nú, sem benda til þessa, einnig tilvitnanir þær í lög, sem þar eru. En við viljum láta þetta koma skýrt fram, svo að menn viti, að hverju þeir ganga og að þeir verði að sæta ábyrgð, ef þeir víki frá þessu.

Að því er snertir ákvæðin um launin, þá höfum við lagt til, að laun skipherranna verði lækkuð um 300 kr. Annars geri jeg lítið úr því. Við höfum aftur lagt til, að launakjör hinna yfirmannanna hækkuðu ofurlítið, og mega þau eiginlega ekki minni vera en við höfum sett þau. Það má búast við því, að þessir menn verði helst til langframa á skipunum og að á herðum þeirra komi starfræksla skipanna til að hvíla ef til vill meira en hinna. Það er því þýðingarmikið, að allir leysi starf sitt vel af hendi og sjeu við bærileg kjör. Aftur á móti eru undirmennirnir kannske á skipunum um stundarsakir, ef til vill aðeins til náms, og því ekki til frambúðar. Þó ætti að vera frjálst að ráða þar góða menn til frambúðar, ef nauðsyn þykir, og þá með þeim kjörum eða skilmálum, sem gerir vist þeirra á skipunum mögulega.

Jeg held, að jeg þurfi svo ekki að fjölyrða meira um þetta mál. Jeg mun ekki gera mitt til að lengja umr., enda vona jeg, að jeg hafi ekki með ummælum mínum nú gefið tilefni til þess.

Jeg vil þá í lok máls míns minnast stuttlega á nefndarálit háttv. 3. minni hl. Hann segir þar, að samkvæmt tillögum okkar eigi launakjörin á varðskipunum að vera verri en á verslunarskipunum. Atriði það, sem hann drepur á, hefir ekki við neitt að styðjast, nema ef hann meinar yfirmennina, en laun þeirra viljum við lækka ofurlítið. Því að um aðra skipverja segjum við ekki neitt. Jeg get ekki sagt, hver sje munurinn á launum þessara manna og yfirmanna á verslunarskipunum, en þó hygg jeg, að hann sje ekki eins mikill og háttv. 3. minni hl. (HjV) vill vera láta. Þá sagði hann líka, að þetta frv. væri til ills eins og ekki hættulaust, þar sem hætta gæti verið á því, að skipverjum varðskipanna væri ætlað svipað verk og ríkislögreglan, sem hjer átti að koma á fót, skyldi hafa. Jeg held þó, að þetta sje misskilningur hjá hv. þm. (HjV). Jeg vona að minsta kosti, að svo sje. Jeg held, að það komi ekki til mála, að þessir menn verði látnir inna af hendi annað en löggæslu á sjó. Ef gripið væri til þeirra við löggæslu á landi, þá álít jeg, að það væri brot á þeirri starfsemi, sem þeim er ætluð. Jeg held því, að það sje alveg óþarfi hjá hv. þm. (HjV) að óttast þetta.

Tel jeg svo óþarft að ræða meira um þetta að sinni og læt því hjer staðar numið.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.