07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Jón Kjartansson):

Það eru aðeins örfá orð. Jeg þarf engum að svara, því aðeins og jeg tók fram áður, þá er eiginlega enginn ágreiningur milli 1. og 2. minni hl. Það, sem kom mjer aðallega til þess að standa upp, var, að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) hefir altaf í allan dag verið að endurtaka þá fullyrðingu, að það væri ekki nema til ills eins fyrir skipverja á varðskipunum að verða sýslunarmenn ríkisins. Jeg vil mótmæla þessu og jeg skil ekki einu sinni, hvers vegna hv. þm. er að bera þessa fjarstæðu fram. Hann heldur, að rjettur skipverja væri betur trygður, ef þeir væru lögskráðir á skipin samkv. siglingalögunum. Þetta er mesta blekking, og er undarlegt, að hv. þm. skuli halda þessu fram, þar sem hann telur sig vera málsvara þessara manna. Hæstv. atvrh. benti í dag á mikilvægt atriði í þessu efni. Hæstv. ráðherra benti á það atriði, að ef sýslunarmaður skyldi veikjast og verða frá verki, og jafnvel þó að það verði upp undir eitt ár, þá heldur hann samt fullum launum. (HjV: Þetta er enginn rjettur). Þetta er enginn rjettur, segir hv. þm. Ef hann telur það ekki rjett, að maður, sem er veikur, skuli geta haldið fullum launum, jafnvel þó að hann geti ekki gegnt starfi sínu, þá veit jeg ekki, hvað rjettur er. (HjV: Hvaða rjett hefir hann til launa?). Hjer er viðurkend sú rjettarvenja, að sýslunarmenn haldi launum, þó þeir forfallist sakir veikinda. En viðurkend rjettarvenja er sama og skráð lög. Hjer er aftur alt öðru máli að gegna um þá menn, sem lögskráðir eru á skip samkv. siglingalögunum. Þeir fá kaup einungis þangað til þeir eru skráðir úr skiprúmi. En ávalt er heimilt að skrá þá úr skiprúmi, þegar þeir einhverra orsaka vegna geta ekki gegnt starfi á skipinu.

Við skulum líta á annað atriði, og það er frávikning úr skiprúmi. Jeg hefi starfað töluvert við að skrá menn á skip, þegar jeg var hjá lögreglustjóra. Hjer er það nærri undantekningarlaus regla, að menn eru ráðnir til óákveðins tíma. En hvað vill það segja? Að það má altaf reka þá af skipi, hvenær sem er, og það án nokkurs fyrirvara. Þeir hafa engan rjett, þó að þeir sjeu reknir. En hvernig er þetta að því er snertir sýslunarmenn ríkisins? Samkvæmt 3. málsgr. 3. gr. fer um frávikning þessara manna eins og annara sýslunarmanna ríkisins. Vill nú ekki hv. þm. (HjV) spyrja um rjettarvenjuna? Hún er sú, að ef ekki er um sök að ræða, þá má ekki víkja sýslunarmanni frá nema hann fái full laun í 6 mánuði. Ef um sök er að ræða, þá fer þetta eftir 6. gr., enda er þá líka öðru máli að gegna. Ætlar nú hv. 4. þm. Reykv. að standa upp aftur og segja, að það sje ekkert í það varið að vera sýslunarmaður ríkisins? Sennilega gerir hann það. En verður honum trúað? Ólíklegt er það, því að það er of áberandi blekking, sem háttv. þm. hefir haldið fram í þessu máli, til þess honum verði trúað. Það getur ekki verið vegna skjólstæðinga hv. þm., sjómannanna, að hann kemur með þessar rakalausu fullyrðingar um sýslunarmenn ríkisins. Nei, það er annað, sem hjer liggur á bak við og sem hv. þm. hefir ekki mótmælt, heldur fyllilega gefið í skyn, og það er, að hann vill með engu móti, að ríkið geti varnað hásetum varðskipanna að gera verkfall. Hann vill til þess vinna að gera þessum mönnum ilt, láta þá missa stórkostleg rjettindi, ef þeir geti orðið verkfæri í höndum forkólfanna í landi, sem vilja ráða yfir orðum og athöfnum sjómannanna sem annara verkamanna.