07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

19. mál, varðskip ríkisins

Hákon Kristófersson:

* Jeg á litla brtt. á þskj. 553. Hv. frsm. 1. minni hl. mintist á hana nokkrum orðum og taldi miður farið, ef hún yrði samþykt.

Ekki færði hann þó nein rök fyrir því. Það má altaf segja, að þetta og þetta liggi í augum uppi, en jeg lít svo á, að orðin: „Mönnum þessum getur skipherra hvenær sem er vikið frá sýslan, um stundarsakir eða fyrir fult og alt, en skýra skal þá tafarlaust ráðuneytinu frá málavöxtum“, sjeu alveg óþörf, eða með öðrum orðum: skipherra er gefið þarna einveldi yfir þessum mönnum. (JörB: Þetta er misskilningur!). Þetta er ekki misskilningur. Það, sem kemur fram í 8. gr., er nægileg trygging og þetta ákvæði í 1. málsgr. 4. gr. er alveg óþarft, enda seinni málsgr. sömu greinar nægileg. Mjer er óskiljanlegt, hvernig hægt er að líta svo á, að þessir menn sjeu ekki lögum háðir, heldur áliti eins manns, en samkv. 8. gr. getur ráðuneytið vikið þeim frá, að fengnum upplýsingum frá skipherra.

Ætla jeg svo ekki að fara frekar út í þetta mál; það liggur svo ljóst fyrir frá mínum bæjardyrum sjeð, að þess gerist ekki þörf. Jeg taldi mjer skylt að koma fram með brtt. og jeg vil slá því föstu, að hún sje að minsta kosti ekki skemd á frv. Læt jeg svo háttv. deild um það, hvað hún gerir við hana, en vona, að hún mæti meiri samhug og skilningi hjá ýmsum öðrum hv. deildarmönnum en hjá hv. frsm. 1. minni hl.