16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki tefja umræður um þetta mál í svipinn. Mjer þykir fullsnemt að skera upp úr um það, hvernig jeg muni haga mjer í þessu máli. En mjer hefir skilist af máli manna í dág, að ýmsir háttv. þm. sjeu farnir að renna grun í, að nokkuð óvarlega hafi verið að farið á síðasta þingi, er sjerleyfi var veitt til virkjunar Dynjandisár, án þess að trygging væri fengin fyrir því, að nokkuð yrði úr framkvæmdum þar. Mjer er ánægja að því að verða var við þennan grun, því að hann gefur von um, ef nú verður snúið að því að veita slík virkjunarleyfi, að þá verði hv. þdm. fúsari til þess að heimta trygðar framkvæmdirnar en þeir voru á síðasta þingi. Að öðru leyti skal jeg ekki blanda mjer inn í umræður þær, sem hjer hafa orðið, en vildi aðeins benda á, að í fyrra var alt of óvandlega um hnútana búið að því er snerti framkvæmdir af hálfu leyfisbeiðanda. Að vísu er ekki ennþá tími til þess kominn að sakast um þetta, er svo skamt er frá liðið, en samt mun vera uggur og ótti hjá ýmsum um það, að lítið verði úr framkvæmdum þar vestra, og líkurnar benda flestar í þá átt.