30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 1. landsk. (JJ) vildi, að jeg gæfi upplýsingar um efnahag hlutafjelagsins Titans, hvers virði hlutabrjef þess væru, hve miklar eignir það ætti hjer og hve hátt þær væru þá veðsettar. Mjer væri nú ekki heimilt að skýra frá þessu, þó að jeg vissi, en sumt af því veit jeg ekki. Jeg skil heldur ekki í því, að það hefði nokkra þýðingu fyrir þetta mál. Aðalatriði þessa máls er það, hve miklar líkur eru til þess, að fjelagið geti útvegað sjer fje. Annars er það ekkert leyndarmál, hverjir eru í stjórn fjelagsins, og býst jeg við, að hv. þm. viti það. Jeg get nefnt honum einn mann, sem jeg býst við, að hann trúi, en það er flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Rang. (KIJ). Annar maður í stjórninni er Eyjólfur í Hvammi. Honum býst jeg líka við, að hv. þm. geti trúað, en það er ef til vill ekki víst, að hann trúi þriðja manninum eins vel, en það er Eggert Claessen bankastjóri. Jeg man ekki nöfnin á hinum norsku stjórnendum, en hv. þm. getur vafalaust fengið upplýsingar um það hjá hv. 1. þm. Rang. Þá spurði hv. þm., hvort jeg hefði lofað hlutafjelaginu Titan því, að það þyrfti ekki að setja neina tryggingu. Jeg get sagt honum það, að jeg hefi engu um það lofað, enda hafði jeg ekki heimild til þess. En fjelagið vissi ósköp vel um meðferð Dynjandamálsins hjer í fyrra og dró sínar ályktanir af því. Jeg hefi engu lofað fjelaginu öðru en því, að jeg mundi vera fylgjandi frumvarpinu, eins og það lá fyrir. Þá sagði háttv. þm., að það væru tvö atriði í frv. athugaverð. Það gleður mig, að það skuli ekki vera nema tvö atriði, sem hann finnur athugaverð. Annað atriðið taldi hann þessa stóru og miklu virkjun, en hitt atriðið, hvort fjelagið væri þess megnugt að koma þessu fyrirtæki í framkvæmd. Jeg skal nú ekki fara neitt út í stórvirkjunina; það hefir ekki verið gefið tilefni til þess. Að því er fjelagið sjálft snertir, þá veit jeg, að það er þannig skipað, að miklar líkur eru fyrir því, að það geti útvegað sjer fje. Í því eru velmetnir og mikils megnugir menn. Hitt er vitanlegt, að fjelagið sjálft hefir ekki stórfje milli handa, enda hefir ekki verið farið dult með það, að fjelagið ætlar sjer að fá fje annarsstaðar að. Þá sagði hv. þm., að jeg hefði gert málinu ógreiða með því að lofa fjelaginu því, að það þyrfti ekki að setja tryggingu. Þetta hefi jeg nú ekki gert, eins og jeg gat um áðan. En jeg vil benda á það, að þeir menn gera málinu ekki greiða, sem eru með vafningum og vífilengjum að reyna að gera fjelagið tortryggilegt. Það má hv. þm. vita, að það spyrst, sem hjer er sagt, og ef tortryggni gagnvart fjelaginu kemur hjer fram, þá getur það haft áhrif á aðstöðu þess til þess að útvega fje erlendis.

Þá gerði hv. 1. landsk. mikið úr kostnaðinum við að samþykkja þessi lög hjer. En þá er nú lítið gert úr þessu máli, ef farið er að telja þann kostnað eftir. Jeg álít, að hjer sje um svo mikla samgöngubót að ræða, að jeg vildi glaður leggja þann kostnað í sölurnar, þótt ekki væri nema lítil von um framkvæmdir.

Þá spurði hv. þm., hvort mjer fyndist ekki minkun fyrir þingið að afgreiða þetta frv., ef ekkert yrði úr framkvæmdum. Þetta þykir mjer undarlega spurt. Hvernig getur honum dottið í hug, að mjer þyki minkun að samþykkja frumvarp, sem jeg flyt og mæli með. Viðvíkjandi skaðabótum, ef ekkert verður úr framkvæmdum, þá vil jeg geta þess, að jeg álít það rangt, að hv. Alþingi fari að hafa sjerleyfi sem skattstofn, eða selji þau eins og aflátsbrjefin í gamla daga. Alþingi á ekki að taka neina borgun fyrir sjerleyfi þau, er það veitir, aðra en þá, sem kemur frá verkinu sjálfu í framkvæmdinni.

Annars forðaðist hv. þm. að láta uppi álit sitt í þessu máli. Hann virtist vilja vera mjög „diplomatiskur“, kom með fyrirspurnir og kvaðst ekkert vita um þetta mál, þótt hann hafi dag eftir dag hlustað á umræður um það í hv. Nd. Jeg veit nú ekki vel, hvernig á að leggja þetta út. Að vísu hefi jeg mína meiningu um það, en skal þó ekki slá því fram hjer, af því að jeg er ekki viss um, hvort það sje rjett.

Háttv. þm. tók undir það, sem jeg sagði, að samgöngubætur væru lyftistöng allra framfara, og vænti jeg því, að hann verði mjer sammála í þessu máli. Út af því, sem hv. þm. sagði í þessu sambandi um strandferðaskipið, þá vil jeg taka það fram, að jeg hefi aldrei neitað því, að það væri samgöngubót. En jeg hefi sagt, að við hefðum ekki ráð á því að leggja fram fje til þess í bili; aðrar samgöngubætur kölluðu frekar að. Þegar hv. þm. segir, að Austur-Skaftafellssýsla, Barðastrandarsýsla og Dalasýsla sjeu samgöngulausar, þá er slíkt ekki rjett. Á síðastliðnu ári voru veittar 8000 kr. til þess að halda uppi bátsferðum í Austur-Skaftafellssýslu einni, og auk þess hafa Barðastrandarsýsla og Dalasýsla fengið mikinn styrk og Esja oft komið við þar. Það verður að skifta samgöngubótunum sem jafnast niður á milli landshlutanna. Sá jöfnuður gerði það að verkum, að jeg gat ekki verið með strandferðaskipinu í fyrra.

Hv. þm. segir, að þessu máli hafi verið tekið betur en jeg hafi átt skilið vegna afstöðu minnar til strandferðaskipsins. Mjer þykir það undarlegt, ef um þetta mál á að fara eftir afstöðu minni til annars máls. Hv. þm. má ekki blanda mjer og málunum saman. Þess ætla jeg að biðja hann í öllum hamingjubænum að láta ekki kala sinn til mín koma niður á þessu máli, því að þá geldur saklaus fyrir sekan. Það gagn, sem jeg get gert mjer von um að hafa af járnbrautinni, er ekki nema örlítið brot samanborið við það gagn, sem landsmenn yfirleitt hafa af henni.