23.04.1927
Efri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

20. mál, Landsbanki Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg vil leyfa mjer að gera 2 stuttar aths. við ræðu hv. 1. landsk. (JJ), þá hina fyrri til þess að staðfesta ummæli hæstv. forsrh. (JÞ), að það er enginn flugufótur til fyrir því, að ráðherrann hafi haft áhrif á fjárveitinganefndarmenn í þá átt, að þeir dragi störf sín í nefndinni. En hinsvegar gerir hin þrotlausa mælgi hv. 1. landsk. það að verkum, að halda verður fundi hjer í deildinni allan daginn, svo að ekki vinst tími til nefndarfunda fyrir fjvn. þessarar deildar. En þetta lengir stórum þingtímann, til sárra leiðinda fyrir alla þingmenn, nema kannske háttv. þm. sjálfan.

Þá gat hv. 1. landsk. um tvo hæstarjettardóma, sem honum fanst ekki vera í samræmi hvor við annan. En þetta stafar af því, að hv. þm. skilur ekki, að í fyrra málinu, sem hann nefndi, var um að ræða almenna gagnrýni á opinberri stofnun, en í hinu málinu var atvinnurógur gegn einstökum manni. Þessi tvö mál eru því ekki sambærileg. Þetta hefir og flestöllum mönnum í landinu skilist, svo að hv. 1. landsk. stendur einn uppi með sína skoðun.

Jeg vil gera þá aths. út af þeirri fjarstæðu hv. 4. landsk. (MK), er hann sagði, að enginn húsbóndi mætti banna hjúi sínu þingsetu, að hún nær vitanlega engri átt. Heldur hv. þm., að t. d. Halldóri á Hvanneyri væri skylt að þola það, að fjósamaður hans væri allan veturinn fjarri störfum sínum á þingi suður í Reykjavík?