15.02.1927
Efri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3328 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það mun ekki hugsað til þrautar hjá hv. 1. landsk., að komist verði hjá kosningum með því að færa árin til í kosningalögunum. Það hefir ekki hingað til þótt gerlegt að hagga við kjörtímabili kosinna þingmanna nema með stjórnarskrárbreytingu. Og þó nú svo vilji til, að kosningar beri upp á sama ár, og mætti þá láta bæði landskjör og kjördæmakosningar fara fram sama dag, þá breytist þetta undir eins aftur í hvert skifti, sem þing er rofið, á meðan þingrof nær ekki til landskjörinna þingmanna. (JJ: Það má ákveða í stjórnarskránni, að aðalkjör fari fram fjórða hvert ár). Jeg veit, að hv. 1. landsk. áttar sig á þessari fásinnu, er hann hugsar sig betur um. (JJ: Nei, þetta er rjett hjá mjer).

Um færslu kjördags er það að segja, að það mál var fyrir fáum árum til umr. í hv. Nd., þar sem jeg átti þá sæti. Jeg var því fylgjandi að hafa kjördag snemma sumars, í byrjun júlí, en ekki fyrsta vetrardag. En það náði ekki fram að ganga. Það þýðir því ekki að ámæla stjórninni fyrir það, þó hún komi ekki fram með slíka uppástungu. En á hitt ber að líta, að ef þetta frv. stjórnarinnar verður samþ., þá koma kosningalögin öll til endurskoðunar. Það var ekki ástæða til þess að koma fram með brtt. við kosningalögin nú, úr því stjórnin lagði fram frv. þetta, sem gerir endurskoðun kosningalaganna óhjákvæmilega.