25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3380 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Jónsson:

* Jeg er lítið gefinn fyrir að vilja grenslast eftir því, hvernig menn ætla að greiða atkvæði. Mig furðar nokkuð á því, ef svo skyldi fara, að ekki kæmust fram þær brtt., sem mestu varða og sjálfsagðastar eru og mest er óskað eftir. Því að það er kunnugt, að það, sem brtt. mínar fara fram á, er áhugamál þjóðarinnar. Mig grunaði nú reyndar, að ýmislegt væri haft á móti þeim, en hitt þótti mjer lakara, að hæstv. forsrh. sagði, að brtt. mínar ættu ekki heima í stjórnarskránni, heldur ættu þannig lagaðar breytingar betur við í sjerstökum lögum. Það getur vel verið, en jeg get ómögulega látið sannfærast um, að þær geti ekki átt heima í stjórnarskránni. Og þótt sú leið væri tekin að hafa þetta í sjerstökum lögum, þá væri það ekki eins einhlítt og ef það væri í sjálfri stjórnarskránni. Að hana megi skilja svo, að ráðherrar skuli tveir, það fæ jeg ekki skilið, því að í stjórnarskránni er gert ráð fyrir fleirum en tveimur, t. d. í 12. gr., þar sem talað er um, að konungur geti haldið ríkisráðsfund með einum ráðherra utan Íslands, og í 13. gr., þar sem talað er um, að ráðherrafund skuli halda, er einhver ráðherranna óskar að bera þar upp mál. Einnig í 14. gr., þar sem talað er um það, að forsætisráðherra beri upp mál fyrir hönd hinna ráðherranna. Þannig er þetta á fleiri stöðum í henni. Jeg álít því, að þetta eigi að ákveðast í stjórnarskránni sjálfri. Það gæti nægt að hafa það í sjerstökum lögum, en öllu tryggara væri að hafa það í stjórnarskránni. Það er ekki eingöngu af sparnaði út af fyrir sig, sem jeg hefi komið fram með þessa till., heldur af því, að mjer hefir reynst svo, að þjóðinni sje það mikið áhugamál, að embættum sje fækkað, og þá sjerstaklega þeim, sem dýrust eru. Áhugi þjóðarinnar beinist mjög að því að hafa ekki nema einn ráðherra. En þeir, sem vilja það, álíta, að þá þyrfti að setja á stofn landritaraembættið aftur. En þá væri betra að hafa ráðherrana heldur tvo, því að landritaraembættið var ábyrgðarlaust með öllu, sem sjá má af því, að einu sinni, er landritari mætti f. h. ráðherra í þinginu, sagði hann, er úrlausnar hans var leitað, að embætti sitt væri hvorki fugl nje fiskur. Það er því ekkert undarlegt, þótt menn fýsi ekki að setja það á stofn aftur, enda þótt það gæti verið ráðherranum sjálfum mikill styrkur, ef í því sæti góður og gegn maður. Þótt jeg gangi út frá sparnaði með þessari till. minni, þá herðir einmitt þetta, er jeg nú hefi nefnt, mikið á mjer með því að framfylgja þessari till., og sparnaður er það að afnema heilt ráðherraembætti og koma þannig í veg fyrir, að helmingur ráðherralauna gangi til hvors ráðherra, þegar þeir eru tveir, en það er eðlileg afleiðing þess, að ekki er ákveðið, að þeir skuli aðeins vera tveir. Og þar sem við nú erum svo hepnir að hafa þá 2 menn í þessum embættum, sem geta afkastað þeim vel, þá eigum við að láta það nægja framvegis og vona, að við höfum altaf þá menn í þeim, sem geti afkastað störfum sínum með heiðri og sóma. Og það er mín skoðun, að embættin eigi að vera vel launuð, en starfið svo mikið, að það taki allan manninn. Og þótt menn álitu störf ráðherranna mikil, ef þeir væru aðeins tveir, þá er þess að gæta, að laun þeirra eru mjög há, svo að þetta fer saman við það álit mitt.

Jeg tók það fram í dag, að jeg áliti, að svo framarlega, sem stjórnarskrárbreyting er gerð, þá á sjerstaklega að íhuga, hverjar breytingar eru þjóðinni kærastar, og reyna að koma þeim í gegn eitt skifti fyrir öll, en vera ekki að smákrota í stjórnarskrána, eða hafa hana sem eitthvert leikfang, sem hægt er að kasta á milli sín.

Jeg vil leiðrjetta þann misskilning hv. 5. landsk. (JBald), að það sje snoppungur á stjórnina, að jeg kem með þessa till. Hann áleit, að það ætti að vera stjórnarinnar verk að koma með slíka till. sem þessa. Jeg hjelt, að það gæti alveg eins verið þingmannsverk, og mjer þætti í rauninni eðlilegt, að stjórnin, sem hlaðin er störfum og frekar mætti óska eftir fleiri mönnum sjer til hjálpar, hikaði við að koma með svona lagaða brtt., enda þótt hún væri slíkri tillögu samþykk, er fram kæmi frá öðrum. Þess vegna er það fremur þingmannsverk en ráðherra að koma fram með slíka till.

Jeg vil auk þess leiðrjetta það, sem hv. þm. A.-Húnv. misskildi mig. Hann er nú altaf svo gáskafullur og skemtilegur, og mjer fanst hann ætla að auka á það bros, sem var um hann, með því að segja, að jeg væri svo undarlegur, að jeg lýsti yfir því, að mjer væri sama, hvað um brtt. mínar yrði. Þetta hefir hv. þm. misskilið. Það vill nú svo vel til, að jeg hefi skrifað þau orð, er að þessu lúta. Jeg sagði ekki að mjer stæði á sama, heldur sagðist jeg verða að láta mjer nægja þau úrslit, sem málið fengi, því að jeg byggist ekki við, að langar umr. breyttu afstöðu neins þdm. Nei, vissulega stendur mjer ekki á sama, hvað um brtt. mínar verður, því jeg álít þær ekki lítils virði, og þær eru í meira samræmi við það, sem svo margoft hefir verið látið uppi, svo að jeg hjelt, að þeir menn yrðu þeim hlyntir, sem áður hafa talið nauðsyn á slíkum aðgerðum. Og í þeirri von hefi jeg komið með þær, og mjer stendur því ekki á sama um þær.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.