18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Jeg verð að segja það eins og það er, að jeg minnist þess ekki að hafa heyrt fyrri þá aðalástæðu stjórnarinnar fyrir þeirri breytingu á stjórnarskránni, er hjer liggur fyrir, sem hæstv. forsrh. gerði grein fyrir í síðustu ræðu sinni. Það kann að vera, að hann hafi tekið hana fram áður, en það hefir þá alveg farið framhjá mjer, og þykir mjer það merkilegt. Ástæða hæstv. forsrh. er ekki sparnaðurinn við þinghald annaðhvert ár, heldur sparnaðurinn, sem leiðir af því, að minna verður sett af útgjaldaaukandi löggjöf, ef þing eru aðeins háð annaðhvert ár. Mjer er, sem sagt, ekki kunnugt um, að hæstv. ráðh. hafi áður haldið fram þessari aðalástæðu. En jeg verð nú að segja það, að hvort sem hann hefir haldið þessu fram áður eða ekki, þá er þetta ekkert annað en tylliástæða, sem jeg hygg, að honum hafi dottið skyndilega í hug sem ástæða fyrir þessari ómögulegu breytingu. Breyting sú, sem hjer er farið fram á, mælir aðeins svo fyrir, að fjárlagaþing skuli háð annaðhvert ár. Aukaþing má þá ávalt halda hitt árið og setja svo mörg útgjaldaaukandi lög sem vera skal. Til þess þarf ekki að halda fjárlagaþing. Reynslan sýnir hinsvegar, að jafnvel þó að fjárlagaþing sje háð á hverju ári, þá verður ekki komist hjá verulegum fjárgreiðslum umfram fjárlög milli þinga.

Jeg vil minna hæstv. forsrh. á það, að fjáraukalögin fyrir síðasta ár voru hærri en þau hafa tíðkast um langan tíma, og er það þó ekki vegna útgjalda, sem þingið hefir samþ., heldur vegna framkvæmda, er stjórnin hefir látið gera, sama stjórnin og nú hefir verið að tala. Jeg er þó alls ekki að lasta hæstv. stjórn fyrir þessi útgjöld, því þau eru greidd til þarflegra framkvæmda. Jeg vil aðeins benda hæstv. stjórn og háttv. þm. á það, hvað af þessu megi ráða um framtíðina, þegar fjárlagaþingin eiga að vera aðeins annaðhvert ár. Auðvitað verður að gera ráð fyrir, að umframgreiðslurnar margfaldist og aukaframkvæmdir stjórnarinnar, sem þingið hefir ekki sjeð fyrir, að nauðsynlegar yrðu, sömuleiðis. En með þessu er stefnt að því að taka fjárveitingavaldið úr höndum þingsins og flytja það í hendur stjórnarinnar. Jeg get þó ekki sjeð, að þingið geti fallist á, að það sje rjettmæt ástæða fyrir þessari stjórnarskrárbreytingu. Er það tilgangurinn að taka löggjöfina úr höndum þingsins og fá hana í hendur stjórninni? Er það tilgangurinn að taka hana úr höndum þjóðarinnar og fá hana einstökum mönnum, sem hafa haft aðstöðu til þess að hrifsa til sín völdin? Það væri eftir öðru. Og þetta er einmitt hin rjetta íhaldshugsjón, hin rjetta afturhaldshugsjón, er kemur fram í þessari till. til breytingar á stjórnarskránni. Hæstv. forsrh. hefir upplýst, að það þurfi að leita hálfa öld aftur í tímann eða meira til þess að finna eins afturhaldssaman hugsunarhátt og kemur í ljós hjá hæstv. stjórn. Svo forn er hún í hugsunarhætti. — Um 1874 sáu menn, að það gat komið fyrir, að halda þyrfti reglulegt þing á hverju ári. En 50 árum síðar er hæstv. forsrh. sannfærður um, að okkur væri betra um næstu áratugi að hafa reglulegt þing aðeins annaðhvert ár. Hann er eldri í hugsunarhætti en menn, sem voru uppi fyrir hálfri öld. Hann er hálfri öld á eftir tímanum. Og þrátt fyrir allar þær íhaldsöldur, sem yfir löndin skella, þá veit jeg ekki til, að nokkursstaðar hafi risið upp svo rammur íhaldsandi.

Jeg þykist nú sjá fram á, hvernig máli þessu verður til lykta ráðið, og ætla því ekki að fjölyrða mikið um það. Einn ágalla enn skilst mjer nú, að frv. þetta hafi, er gerir það hæpið að afgreiða það frá þinginu. Það eru ákvæðin í 11. gr., þar sem sagt er, að umboð landskjörinna þm. og varamanna skuli falla niður við næstu almennar kosningar eftir 1930. Það væri ekkert athugavert við þetta, ef það hefði ekki verið augljóst af orðum hæstv. forsrh. í gær, að meiningin með þessu væri sú, að umboð þeirra landskjörinna þm., sem eftir núgildandi lögum eiga að fara frá 1930, ætti að gilda einu ári lengur, ef almennar kosningar fara ekki fram áður. Með öðrum orðum, með þessu ákvæði er framlengt kjörtímabil helmings hinna landskjörnu þm. Það er verið með þessu að taka kosningarrjettinn af þjóðinni. Þingið sjálft tekur í sínar hendur valdið til þess að gefa þm. umboð, ef þetta er rjett skilið. Og jeg gat ekki skilið hæstv. forsrh. öðruvísi. Helmingur hinna landskjörnu þm., eða þeir, sem kosnir voru 1922, eiga, eins og kunnugt er, að fara frá 1930, og þá eiga kosningar að fara fram. En með þessu ákvæði koma þeir til með að sitja á þinginu 1931, sem haldið verður að öllum líkindum í febrúar, en kosningar fara ekki fram fyr en um sumarið. Jeg sagðist hafa skilið hæstv. forsrh. þannig, og jeg hefi talað við ýmsa háttv. þm., sem allir sögðust hafa skilið þetta á þann eina veg. En það er auðvitað mögulegt, að kosning fari fram eins og lög standa til, í júlí eða ágúst 1930, og yrðu þá kosnir 3 landsk. þm. til næsta þings, en legðu svo niður umboð sitt við almennar kosningar 1931. Þetta þykist jeg vita, að hæstv. forsrh. muni skýra, og kemur það þá til frekari athugunar.

Út af því, sem talað hefir verið um það, hvenær næstu kosningar eigi að fara fram, og af því að jeg hefi heyrt því fleygt, að kjósa eigi 2. júlí í sumar, þá vildi jeg gjarnan heyra, hvernig stjórnin getur varið það gagnvart landsmönnum og sjerstaklega þeim, sem í útkjálkasveitum búa, að hún lætur kosningar fara fram með svo stuttum fyrirvara. Framboðin eiga að vera komin 4 vikum fyrir kjördag, en ef hann er 2. júlí, þá verða framboðin að koma fyrst í júní. Nú er 18. maí, en þingi verður slitið á morgun. En um það leyti, sem frjettin um, að kjósa eigi 2. júlí, er komin út um alt land, þá er jeg hræddur um, að það verði orðinn nokkuð lítill fresturinn fyrir þá menn, sem ef til vill hafa í huga að leita eftir þingmensku. Jeg hygg, að almennar kosningar hafi aldrei farið fram með jafnlitlum fyrirvara og þetta.

Jeg skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu. En jeg held fast við þá skoðun, að það sje svo fjarri því, að nokkuð sje unnið við þessa breytingu á stjórnarskránni, að þar viti alt aftur á bak. Jeg er líka sannfærður um það, að engan sparnað muni af þessu leiða. Jeg gerði grein fyrir því við 3. umr., að sparnaðurinn við þinghald annaðhvert ár mundi margfaldlega jetast upp í óhentugri fjárlögum og hærri fjáraukalögum. — Og þetta, sem hæstv. forsrh. tók fram um útgjaldaaukandi löggjöf, fer eftir því, hvort heppilegra er að láta valdið til að ákveða útgjöldin vera í höndum þingsins eða stjórnar þeirrar, er situr í það og það sinnið. En jeg fyrir mitt leyti mótmæli því, að þetta vald sje flutt frá þinginu til stjórnarinnar.