08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru örfá atriði út af ræðu hv. frsm. (MJ) og ræðu hæstv. ráðh. (MG).

Hv. frsm. (MJ) nefndi dæmi um það, að fyr á árum og undir öðrum kringumstæðum hefði verið veitt heimild fyrir stjórnina að gera hliðstæða hluti. Þetta er vitanlega alveg rjett. En það, sem veldur því, að jeg er varfærnari nú en áður, er blátt áfram fjárhagsástæðurnar. Þær eru verri og öll aðstaða nú en nokkurn tíma í okkar minni. Því verðum við nú að gjalda mikinn varhuga við að veita slíka heimild.

Annars hefði jeg ekki staðið upp, ef hæstv. ráðh. (MG) hefði ekki sagt það beinlínis í sinni ræðu, nú, þegar við erum að undirbúa og ganga frá fjárlögunum, að verið gæti, að lagt yrði út í þetta bákn 1928. Mjer fanst þetta hálfpartinn vera storkun til okkar allra í fjvn. Hann ætlaði svo sem, hæstv. ráðh., að fara með tugi og hundruð þúsunda eins og hann vildi, hvað sem við segðum. En þegar jeg mintist gamalla tíma, þá kom mjer það alls ekki á óvart, þó hann langaði til að synda í dálitlum peningum.

Ef það er virkilega alvara hjá hv. frsm. (MJ) og hæstv. ráðh. (MG), að inn í frv. megi setja ákvæði um, að ekki skuli hafist handa fyr en fje er veitt á fjárlögum, þá er það ekki rjett, sem hv. frsm. (MJ) sagði, að málið tefjist inn eitt ár.

Hæstv. ráðh. (MG) dró dár að því, að jeg teldi mig með málinu, því að hann kvað mig ekkert vilja fyrir það gera. Jeg legg þann sama mælikvarða á þetta og önnur opinber mál, sem jeg hefi afskifti af. Það eru ákaflega margir hlutir, sem jeg tel mjög æskilegt að gera. En jeg rjetti ekki upp hendina með því að gera alla þá æskilegu hluti, sem kosta fje. Jeg verð að gera greinarmun á þeim og taka tillit til þess, hvað hægt er að gera vegna fjárhags ríkissjóðs. Þess vegna var það algerlega rjettmætt, að taka til samanburðar það starf, sem jeg sem fjárveitingarnefndarmaður verð að vinna nú á hverjum degi. Við verðum altaf að draga merkjalínuna milli þess, hvað hægt er að gera, og hins, hvað ekki er hægt að gera, af því marga, sem er þarft. Og sem sagt hefi jeg í því starfi þurft oft að setja merkjalínuna fyrir ofan svo fjöldamargt sanngjarnt og nauðsynlegt. Og þetta mál, verð jeg að segja, lendir með mörgum öðrum fyrir neðan þá merkjalínu.

Svo var hæstv. ráðh. (MG) að gera að gamni sínu, að mjer þætti gott að bera hæstv. forsrh. (JÞ) fyrir þessari skoðun minni, að alt eigi að koma inn í fjárlög og þau ættu að sýna rjetta mynd af framkvæmdum ríkissjóðs. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að mjer hefði ekki þótt eins mikið varið í það, sem hæstv. forsrh. (JÞ) sagði í gær. Alveg satt. Jeg álít það, sem fram gengur af munni hæstv. ráðh. venjulega, alls ekki gott og blessað; en jeg álít það geti hent, að rjettmæli hrjóti af vörum hans. Og í hvert skifti sem það kemur fyrir, skal jeg verða manna fyrstur til að halda því á lofti. (JAJ: O, ekki altaf!). Jeg vil heldur ekki fortaka, að slíkt geti hent hæstv. dómsmrh. (MG), sem nú er orðinn. Og jeg skal verða manna fúsastur til að viðurkenna það, ef það skyldi koma fyrir. En um báða held jeg það gildi, að það sjeu yfirleitt undantekningar.