24.02.1927
Neðri deild: 14. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2271)

36. mál, bann gegn næturvinnu

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg veit ekki, hversu margar „privat“-samræður hv. 2. þm. G-K. (ÓTh) ætlar sjer að draga hjer inn í umræður. Álitur hann það eflaust bæði þinglegt og drengilegt. Því að hv. þm. hefir ekki getað heyrt mig segja neitt þvílíkt, sem hann hafði eftir, í samninganefnd, sakir þess, að þar hefir hann aldrei verið, þegar jeg hefi verið í samninganefnd, en við höfum aðeins átt tal um þessi mál á heimili mínu. En hitt er vitanlegt, og þarf engan speking til að sjá, að meðan menn eru fátækir og næturvinna er betur borguð en dagvinna, hljóta margir menn að vilja heldur vinna hana, enda þótt heilsa þeirra kunni að spillast við það. Því fremur neyðast þeir til að gera það, sem oft er ekki aðra vinnu að fá.

Það er hárrjett, að „Dagsbrún“ gæti gert samþykt um að vinna ekki næturvinnu. En þótt það lægi að ýmsu leyti nærri, þá álítur fjelagið ekki rjett að stofna til deilu um það atriði, sem að rjettu er löggjafaratriði. Því síður vill fjelagið gera þetta nú, sem alveg nýlega er til lykta leidd kaupdeila.

Ef hv. þdm. óska eftir að fá áskriftalista frá verkamönnum, ættu ekki að verða vandræði að útvega þá, t. d. meðan málið væri í nefnd. Jeg efa ekki, að á fám dögum mætti fá mörg hundruð nöfn. Og þó að hægt sje að slá því fram, að þessir listar sjeu „pantaðir“, geri jeg ráð fyrir, að erfitt yrði að sanna, að nokkur hefði skrifað nauðugur undir.

Jeg vildi benda hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) á, að það er í fullri óþökk kjósenda hans, sem hann berst á móti þessu frv. Hafnfirskir verkamenn hafa einmitt ótvírætt látið í ljós vilja sinn til þess, að slík lög verði sett, og eru þar alveg sammála reykvískum verkamönnum.

Ástæðurnar, sem bornar eru fram gegn frv., eru nauðalítils virði. Það sjest best, að hægt er að komast hjá næturvinnu í aprílmánuði útgerðarinnar vegna, á því, að sumar vertíðir hafa útgerðarmenn alls enga næturvinnu látið vinna. Í sanminganefndum hafa þeir altaf haft góð orð um, að næturvinna yrði lítil á næstu vertíð, og engin vandkvæði talið á að láta hana hverfa, með örfáum undantekningum, ef kauplækkun kæmi á njóti. En þegar til kemur. láta þeir skipstjórana hafa alla sína hentisemi um það. Hefir það stundum komið fyrir, eftir að unnið hefir verið alla nóttina, að skipstjórar hafa verið í landi allan daginn og ekki lagt út fyr en undir kvöld.

Loks vil jeg endurtaka þá ósk mína, að hv. deild hleypi frv. a. m. k. til 2. umr.