10.03.1927
Efri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

75. mál, ölvun embættismanna, skipstjóra o.fl

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Mjer finst rjett að segja um þetta frv., að það gengur alt of langt í því, að gera borgarana misjafna fyrir lögunum. Allir eiga að vera jafnir fyrir þeim, en þegar gerður er mismunur eftir því einu, að maðurinn er í þjónustu hins opinbera, þá er of langt gengið til þess að gera menn misjafna fyrir lögunum í frjálsu landi. Þessi almenna skifting eftir því, hjá hvaða atvinnurekanda mennirnir starfa, hvort þeir starfa hjá einstökum atvinnurekanda eða eru í þjónustu hins opinbera, og þau sjerákvæði, sem hjer er farið fram á að setja, eru þess eðlis, að þau virðast frekar vera til þess gerð, að kasta skugga á þann fjölmenna hóp þjóðfjelagsins, sem hv. flm. (JJ) finst sjerstök ástæða til þess að tína hjer upp. En jeg get alls ekki kannast við, að opinberir starfsmenn og sýslunarmenn eigi skilið, að löggjafarvaldið fari þannig að taka þá út úr.