08.03.1927
Efri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2293)

77. mál, útflutningsgjald

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hjer á að skerða tekjur ríkissjóðs, og það ekki óverulega. Skattur sá, sem hjer er um að ræða, hefir verið 100–200 þús. kr. á ári eftir kringumstæðum, og ef þeirri upphæð er kipt burtu, þá er það ekki lítil skerðing á tekjum ríkissjóðs. Eftir því sem ástandið er nú, þá held jeg, að það sje hvorki rjett nje forsvaranlegt að rýra tekjur ríkissjóðs meira en orðið er. Jeg get ekki viðurkent þá ástæðu, sem hv. flm. (JJ) færði fyrir þessari skerðingu, sem sje þá, að skattaívilnun sú, sem samþykt var á síðasta þingi, hafi eingöngu verið sjávarútveginum til góðs, en landbúnaðurinn hafi orðið afskiftur. Það, að meiri hl. skattaívilnananna fjell í skaut sjávarútveginum, er eðlileg afleiðing af því, að sá atvinnuvegur bar og ber enn margfaldar byrðar á við landbúnaðinn. Þegar linað er á skatti, þá verður auðvitað að lina á þeim, sem skattinn eiga að greiða. En landbúnaðurinn fjekk að jeg hygg þá tilslökun, sem hann átti sanngirniskröfu á, eftir því, hve langt skattívilnunin náði.

Annars vil jeg geta þess, að frv. þetta er þannig úr garði gert, að það er óhugsandi að samþykkja það eins og það liggur hjer fyrir. Með þessum tveimur breytingum verða lögin óskapnaður, er brtt. eru lesnar inn í þau. En ef þetta frv. er tekið eins og hv. flm. hugsar það, þá er meiningin sú, að alt útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum falli niður. En eins og hv. flm. sjálfur tók fram, varð það að samkomulagi, þegar lög um ræktunarsjóðinn voru sett, að leggja viðbótargjald á þær, til þess að afla ræktunarsjóðnum tekna. Það verð jeg að skoða sem samning milli löggjafarvaldsins og ræktunarsjóðsins, sem jeg álít, að ekki sje hægt að hagga við, ræktunarsjóðnum til tjóns. Hitt gæti komið til mála, að þetta gjald yrði greitt í annari mynd en nú er, ef þess væri alment óskað, en fram á slíkt er ekki farið í þessu frv.

Jeg skal enga tillögu gera um það, hvort þessu máli verði vísað til nefndar eða 2. umr. Með atkvæði mínu mun jeg sýna afstöðu mína til þess. En jeg vil leggja áherslu á það, að hvorki vegna ræktunarsjóðs nje ríkissjóðs er forsvaranlegt að samþykkja þetta frv.