22.03.1927
Efri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Frsm. meiri hl. (Jónas Kristjánsson):

Nefndinni hefir ekki komið saman um þetta frv. Meiri hluta hennar sýnist frv. ekki mikils virði. Hann álítur, að það geri ekki mikið gagn, en geti í sumum tilfellum gert ógagn, og leggur því til, að frv. verði felt.

Það er svo um flest þessi forkaupsrjettarlög, að þau eru gallagripir að meira eða minni leyti. Þau gera ekki það gagn, sem þeim er ætlað, og fara jafnvel stundum í öfuga átt við það, sem þau eiga að gera. Þess vegna er ljettast að gera sem minst til þess að bæta við slík lög. Hitt er sjálfsagt, að þar sem um fasteignir er að ræða, ættu það að vera óskráð lög, að synir nytu verka feðra sinna. En okkur í meiri hluta nefndarinnar þótti þetta frv. óþarft, af því að kaupstöðum og kauptúnuin er oft í lófa lagið að ná í jarðir í nágrannahreppi, ef þær á annað borð tru falar. En allri nefndinni kom saman um, að hverju kauptúni bæri nauðsyn til, að eignast land í nágrannahreppi til ræktunar og mjólkúrframleiðslu. Athugavert gæti frv. orðið, ef það yrði til þess að eyðileggja ábúð á sveitajörðum, þannig, að kauptúnin sölsuðu undir sig meiri hluta jarðanna í einum hreppi. Eftir frv., eins og það var í fyrstu, áttu kauptúnin að geta fengið hvaða jörð sem var í sveitunum, en nú hefir verið gerð sú tillaga, að forkaupsrjetturinn nái aðeins til þeirra jarða, sem að kaupstaðnum liggja. Þetta getur komið ójafnt niður, þar sem keyptar hafa verið undir kauptúnin góðar jarðir, en ábúendum og gjaldendum í þeim hreppi fækkar. Þarna getur orðið ójöfnuður, sem jeg hugsa ekki að flytjandi frv. hafi ætlast til að ætti sjer stað. Þetta getur orðið til þess, að jarðir nálægt kauptúnum hækki óeðlilega mikið í verði og landið komist í hærra verð en hægt er að gjalda rentu af. Þannig gætu þessi lög orðið völd að óeðlilegri og óheilbrigðri samkepni.

Jeg á heima í kauptúni, og þar vantar frekar land til ræktunar, en ekki mundi það koma að neinu liði þar, þó að þetta frv. gengi í gildi, af því að nágrannajarðirnar eru ekki falar. Jeg get sem sagt ekki sjeð neina kosti, sem niæla nieð, að frv. verði samþ., og vil jeg fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar leggja til, að það verði felt.