22.03.1927
Efri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Háttv. 1. þm G.-K. (BK) taldi aðalgallann á frv. þessu, að samkvæmt því væri ekki hægt að taka jarðirnar lögnámi. þessu er því að svara, að í stjórnarskránni er ákvæði um þetta, og því óþarfi að setja það hjer. En hvað sem þessu líður, sje jeg ekki annað en stíga megi rjett spor í rjetta átt, þó aldrei nema að það sje ekki stigið til fulls. Þá vildi hann sýna fram á, að þessi forkaupsrjettur gæti orðið til þess, að lækka jarðirnar óeðlilega í verði. En þetta er alveg gagnslaus mótbára. Þessir strámenn hans geta alveg eins hækkað jarðirnar, þó forkaupsrjetturinn sje ekki. Þetta er því bara fjarstæða ein.

Þá vildi hann líka halda því fram, að forkaupsrjettur þessi væri alveg þýðingarlaus, en við það vil jeg ekki kannast. Og hræddur er jeg um, að flestir leiguliðar myndu telja sjer það rjettindamissi, ef forkaupsrjettur yrði numinn úr lögum, því að það eru hlunnindi, sem þeir vilja ekki missa.

Jeg get vel kannast við, að þau tilfelli, sem háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh) var að tala um, geta komið fyrir. En hættan stafar ekki af þessu frv., þó að lögum verði. Hún er eins mikil eftir núgildandi lögum. Því hvað er því kannske til fyrirstöðu, ef jeg næ kaupum á einni jörð, að jeg noti hana þá fyrir afrjett? Jeg þekki það ekki. Annars vil jeg taka það skýrt fram, að komi til þess, að öryggisráðstafanir verði settar gegn þessari hættu, þá þurfi þær að vera sem viðtækastar og ná til sem flestra tilfella, t. d. að heimila hlutaðeigandi hreppsfjelagi og bæjarfjelagi að skifta byrðum á milli sín, ef þeim sýnist svo. Þetta getur gengið vel, að minsta kosti veit jeg dæmi þess. Kauptún eitt á Austurlandi keypti jörð í næstliggjandi hreppi, til beitar og slægna. Varð það svo samkomulag milli hlutaðeigandi hreppa, að jörðin skyldi lögð undir kauptúnið, og byrðum þeim, sem á jörðinni hvíldu, var skift á milli hreppanna. Um þetta þarf að setja fastar reglur, því að við eigum tkki nógu skýr lög, sem segja, að þetta skuli gert; þau heimila aðeins, að þetta megi gera.

Ef brtt. mín verður samþykt, þá nær þessi forkaupsrjettur aldrei nema til næstu jarða við kauptúnið. En eftir núgildandi lögum er t. d. ekkert því til fyrirstöðu, að Neshreppur í Norðfirði kaupi insta bæ í sveitinni, Fannadal, og noti hann svo fyrir afrjett handa sauðfje, en ekki fólki. Annars held jeg, að erfitt mundi að leggja hömlur á það, að hlutaðeigandi kaupstaðir nái eignarrjetti á jörðum í nágrannahreppi. Að þær verði svo notaðar til að setja þangað menn, sem eru um það að verða þurfamenn, hefi jeg enga trú á, því að jeg held, að öllum bæjar- og sveitastjórnum sje það fyllilega ljóst, að í jörðunum er fólgið meira verðmæti en að setja þangað menn, sem útlit er fyrir, að verði þurfamenn.

Mjer skaust yfir það í fyrri ræðu minni, að önnur ástæðan fyrir því, að nauðsyn ber til, að kauptún og kaupstaðir fái nágrannajarðir sínar keyptar, er sú, að með því er íbúunum sjeð fyrir meiri vinnu, meira starfi. Og eins og kunnugt er, gefur fátt meira menningargildi en holt og heilbrigt starf.