29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hafði ekki gert ráð fyrir því, að þurfa að taka til máls um þetta frv. En hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) fann ástæðu til þess, að láta það koma í þingtíðindunum, að jeg hefði brosað, eins og annar hv. þm. gat þess um daginn út af öðru máli, að jeg hefði kinkað kolli. Jeg vil aðeins taka það fram, út af orðum hv. þm. (ÁJ), þeim, sem hann beindi til Framsóknarflokksins, sem bændaflokks, í sambandi við þessa skiftingu, að hjer er alls ekki um það að ræða, að fjölga þm. Þetta hjerað er að mestu leyti sjávarkjördæmi, en vitanlega mundu áhrif af skiftingunni fyrst og fremst verða þau, að bændur í kjördæminu mundu njóta sín miklu betur, ef Hafnarfjörður væri algerlega sniðinn frá. Þeir hafa nú ekki nema 15–20% af atkvæðamagni, en hefðu eftir skiftinguna yfir 30%. Það er af þessum ástæðum mjög skynsamlegt, einmitt frá sjónarmiði bænda, að fylgja skiftingunni.