01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

44. mál, yfirsetukvennalög

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla ekki að lengja umræðurnar mikið, aðeins segja mína skoðun. Því hefir verið haldið fram, að það hafi ekki verið neinar verulegar launabætur fyrir ljósmæðrastjettina sem þeim var greitt í fyrra. En jeg býst við, að það stafi meðal annars af því, að sýslunefndir hafi alment litið svo á, að þeim bæri ekki skylda til að greiða dýrtíðaruppbót af þeim hluta launanna, sem greiddur er úr sýslusjóði. Vil jeg því skjóta því til nefndar þeirrar, sem fær málið til meðferðar, hvort ekki mundi rjett að gera sýslunefndum það að skyldu, að greiða dýrtíðaruppbót af sínum hluta, eins og ríkissjóði.

Það má vel vera, að ljósmæðrastjettinni sje vanborgað að einhverju leyti, en það er síst rjettur mælikvarði fyrir því, hve mörg yfirsetukvennaumdæmi eru óveitt nú, og má í því sambandi benda á, að allmörg læknishjeruð hafa lengi verið óveitt og eru óveitt enn, enda þótt launin verði að teljast há.

Jeg býst fastlega við, að háttv. flm. viti, að hin almenna óánægja, sem talað er um í greinargerð frv., er fram komin á þann hátt, að það er framkvæmdanefnd hjer í Reykjavík, sem skrifar ljósmæðrum úti á landi og leitar álits þeirra, og brýnir jafnframt fyrir þeim að gera þessar kröfur. Jafnframt er farið fram á umboð til þess að segja stöðunum lausum, gangi Alþingi ekki að kröfunum. Það er því ekki málaleitun hinna óánægðu út á landi, sem hjer er um að ræða.

Það sem mjer þykir lakast í þessu máli er það, að ljósmæðranemendur verða að hafa töluverðan kostnað af dvöl sinni hjer. Það er nefnilega afturför frá því, sem áður var, því jeg man ekki betur en að áður væri námið þeim kostnaðarlaust. Til þess að bæta þeim þetta upp, mundi jeg fús að ljá mitt liðsinni.

Annars get jeg tekið undir með hæstv. forsrh. (JÞ), að það virðist lítið samræmi í því, að fara að taka þessi laun út úr og hækka þau, einmitt þegar öll önnur laun lækka, auk þess sem launalög þessarar stjettar eru sett fyrir aðeins fáum árum. Athugi maður þau ákvæði þessa frv., er við koma eftirlaunum, þá er bersýnilegt, að þau eru miklu betri, með tilliti til launaupphæðarinnar, en aðrir embættismenn mega eiga von á.

Annars held jeg, að það sje ekki rjett hjá hv. flm. (JakM), að það sje mikil óánægja út um land út af launum yfirsetukvenna. Því væri svo, hefðu áreiðanlega fleiri en 6 sýslumenn landsins svarað fyrirspurnunum. En það liggur beint við, að draga þá ályktun af því, að ekki vanti yfirsetukonur nema í þessar sex sýslur, og þó að litlu leyti.

Jeg mun svo á þessu stigi málsins ekki rísa frekar á móti því. Og tel jeg rjett, að það sje athugað í nefnd. Væri þá vel, að nefndin athugaði, hvort ekki væri hægt að kippa því í gamla horfið, að því leyti, að nemendur fengju kostnaðinn af dvöl sinni við námið endurgreiddan, eins og áður var. Ef svo yrði, hygg jeg, að leiða myndi til betra samkomulags.