01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

44. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Jakob Möller):

Jeg ætla ekki að tala öllu meira við háttv. þm. Barð. (HK), því að þess gerist ekki þörf. Aðeins vil jeg mótmæla því, að jeg hafi verið að áfellast hinar gömlu góðu konur, sem áður gegndu ólærðar ljósmæðrastörfum (HK: Það lá í orðunum). Jeg viðurkenni, að þær hafi margar hverjar staðið vel í sinni stöðu, eftir þeim kröfum, sem þá voru gerðar. Það, sem jeg sagði, var, að jeg teldi ilt að hverfa aftur til hins fyrra ástands, eins og það var yfirleitt áður en hinar lærðu ljósmæður komu til sögunnar.

Um það, hversu mörg læknishjeruð eru læknislaus hjer á landi, þá vil jeg taka það fram, að mjer er ekki kunnugt, að það sje eitt einasta, því að jeg tel ekki, þó að óskipað sje í eitt eða tvö hjeruð, sem umsækjendur eru um, og því aðeins nokkra daga um að ræða, þangað til í þau verður skipaður læknir. Jeg man vel, að það var lengi erfiðast að fá lækni í Reykhólahjerað, en hann er þó kominn þangað nú. Það getur þó ekki komið til mála neinn samanburður á óveittum læknishjeruðum og yfirsetukvennaumdæmum.