12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg hafði í fyrstu hugsað mjer að láta mjer nægja að vísa til nál. minni hl. um afstöðu hans til frv. þess, sem hjer liggur fyrir. En eftir ræðu hv. frsm. meiri hl. (HjV) vildi jeg þó leyfa mjer að segja örfá orð.

Hv. frsm. (HjV) hóf mál sitt með því að benda á það, að framfarir síðustu áratuga á landi hjer væru aðallega togaraútgerðinni að þakka. Jeg tek algerlega undir með hv. þm. (HjV) um þetta, en jeg vil um leið leggja áherslu á það, að því varlegar ber oss að fara með þetta fjöregg þjóðarinnar. En eins og nú standa sakir, þá stendur útgerðin svo höllum fæti, að það er varhugavert að leggja á bana þær kvaðir, sem frv. þetta felur í sjer. Það væri því aðeins forsvaranlegt að samþykkja frv. þetta, að verulegar líkur væru fyrir því, að hásetarnir afköstuðu meira á sama tíma en þeir nú gera við þessa aukningu hvíldartímans — en hv. frsm. (HjV) hefir ekki reynt að leiða nein rök að því — eða þá hinsvegar, að sjómenn greiði hvíldaraukann með lækkun kaupsins, en það veit jeg að þeir munu ófáanlegir til.

Það hafa ekki verið færðar sönnur á það, að aukning hvíldartímans sje nauðsynleg. Þó að komið hafi fram óskir frá sjómönnum um aukningu hvíldartímans, þá er jeg of kunnugur slíkum óskum til að jeg taki þær sem nokkra sönnun, því það er sitt hvað, að hásetar neiti ekki að skrifa undir áskorun, sem formaður Sjómannafjelagsins hefir samið og rjett þeim til undirskriftar, og svo hitt, hvort slíkar áskoranir eru hásetum brennandi áhuga- eða nauðsynjamál.

Hv. frsm. (HjV) spurði, hvort við minni hl. ætluðumst til, að hann kæmi hingað í hv. deild með hóp útslitinna sjómanna og sýndi þá hjer. Jeg þekki sjómenn eins vel og hv. þm. (HjV), og jeg hefi ekki sjeð þessa veikluðu og útslitnu menn, sem hann talar um.

Þá sagði hann, að menn væru reknir af skipunum, þegar þeir væru orðnir veiklaðir. Þetta er ósatt. Jeg er viðriðinn fjelag, sem gert hefir út frá því fyrst að togaraveiðar hófust hjer á landi, og jeg veit ekki til þess, að nokkur maður hafi verið rekinn af skipum þess fjelags nje neins annars fjelags, þegar hann var tekinn að lýjast. En hinsvegar veit jeg til þess, að nokkrir menn, sem voru á togurum fjelagsins í byrjun, eru þar enn þá, og eru eins færir til allrar vinnu á skipunum og yngri mennirnir.

Það er rjett hjá hv. frsm., að reynslan hefir kveðið upp þann dóm um 6 stunda hvíldina, að hún hefir reynst mjög vel, en það er engin sönnun fyrir nauðsyn 8 stunda hvíldarinnar.

Það er mesti misskilningur hjá hv. frsm. (HjV), ef hann heldur, að sjómenn þurfi 2 tíma til þess að þvo sjer og eta. Heldur hann máske, að sjómennirnir raki sig og þvoi sjer vandlega og fari í sparifötin áður en þeir matast? Nei, þeir þvo sjer í einum hvelli, eta í skyndi og henda sjer svo út af og sofna. Það er auðheyrt, að hv. þm. (HjV) skortir kunnugleik á þessu máli og að hann hefir allar upplýsingar frá öðrum, enda hefir farið fyrir honum eins og altaf vill verða, er svo stendur á, að hann fer rangt með margt.

Það er rjett hjá hv. frsm. (HjV) að yrði þessi hvíldarauki að lögum, þá mundi þurfa að bæta 2 mönnum við á hvern togara, en það mundi með núverandi kaupgjaldi nema 5–6 þús. kr. í árlegan kostnaðarauka fyrir útgerðina á skip hvert, auk þess sem hlutur háseta mundi skiftast í fleiri staði.

Hv. frsm. (HjV) gat þess, að það mætti undarlegt heita, að andstaðan gegn þessum aukna hvíldartíma kæmi frá úgerðarmönnum. Mjer þykir eðlilegt, að andstaðan komi frá þeim, sem best þekkja til. En það er ekki af því, að útgerðarmenn geti ekki unt okkar ágætu sjómönnum hvíldar, að þeir eru á móti þessu. Jeg hefi engan heyrt efast um, að sjómennirnir okkar sjeu fyrirmynd að dugnaði og atorku, en þeir taka líka meiri laun en aðrar vinnandi stjettir í landinu. Þegar um það er að ræða, að löggjafarvaldið leggi frekari byrðar á útgerðina, má ekki gleyma hinni afarörðugu aðstöðu þessa atvinnuvegar. Það er öllum vitanlegt, að verð á besta fiski er nú í kring um 100 krónur, en var fyrir stríð liðugar 90 krónur. Þá var kaupgjald sjómanna 70–75 krónur, en nú er það lægst 210 krónur. Þá var verð á kolum og salti 20 krónur, en nú 50 krónur. (TrÞ: Gengið! Gengið!). Þegar útgerðin stendur jafnhöllum fæti og hún gerir nú, ber sjerstaklega að gæta varúðar í því, að leggja á hana nýja bagga. Þetta er ekki af neinum illvilja gagnvart sjómönnunum, heldur er það vörn þeirra, sem best þekkja til, fyrir útgerðina í heild sinni.

Jeg ætla ekki að fara að hrekja hverja smávillu, sem fram kom í ræðu hv. frsm. (HjV). Aðeins vil jeg benda á, að hann viðurkennir, að það komi fyrir á vertíðinni, að skip sje fylt á 5–6 dögum. Jafnframt segir hann, að venjan sje sú, að það taki 10–12 daga að fylla skipið, en heldur því þó fram, að allan þann tíma sjeu mennirnir látnir vinna, eins og lög standa mest til. En þar sem hv. frsm. viðurkennir, að hægt sje að inna verkið af hendi á 5–6 dögum, án þess að skerða 6 tíma hvíldina, er hitt bert, að hann fer rangt með, er hann fullyrðir, að sjómenn sjeu altaf önnum kafnir þessa 10–12 daga, sem venjulega ganga til þess að vinna þetta sama verk.

Það er enn nýr vottur um litla þekkingu hv. frsm. (HjV) á hugarfari sjómannanna, þegar hann heldur því fram, að þeir mundu allir vilja ganga af skipunum og fá sjer aðra vinnu, ef það væri mögulegt. Þetta er dæmalaus fjarstæða. Jeg er sannfærður um, að sjómennirnir una yfirleitt betur hag sínum en aðrar vinnandi stjettir, þó að þeir þurfi oft að vinna meira.