12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2455)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) vildi láta líta svo út, að þegar útgerðarmenn vildu vel mæla til sjómanna, þá væri eins og rýtingur væri rekinn í hjarta þeirra manna, sem stæðu fyrir fjelagsskap sjómanna. Það eru líklega þessi vinsamlegu ummæli, sem háttv. þm. (ÓTh) og háttv. 3. þm. Reykv. (Jól) hafa haft nú, sem m. a. er átt við. Það er líklegt, að þeir búist við því, að vinir sjómanna álíti, að þeir hafi verið að tala máli þeirra hjer í deildinni, þegar þeir hafa haldið því fram, að sjómenn óski einkis frekar en þess, að hinn óheyrilegi vinnutími þeirra verði ekki styttur um 2 tíma. En það var það, sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hjelt fram í ræðu sinni.

Hv. þm. (ÓTh) gat þess þá, að það mundi segja sig sjálft, hvor okkar hefði meira vit á þessu máli, hann, útgerðarmaðurinn, eða jeg, sem hefði fengist við tóbaksverslun. En mjer er ekki kunnugt um, að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hafi nokkurntíma verið sjómaður. Mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi nokkurntíma á sjó komið, nema til þess að skemta sjer, og jafnvel aðeins í eitt eða tvö sinn á togara, utan hafnar, og skemt sjer þar með skipstjóranum. Þess vegna getur sú þekking, sem hv. þm. (ÓTh) hefir um allan aðbúnað á togurum, ekki verið nema af mjög skornum skamti, af reikningshaldi skipanna. En það er heldur ekki svo, að fyrir aukavinnu þar sje sjerstaklega greitt, svo að hv. þm. getur ekkert vitað um hana af reikningum skipanna, og því síður nokkuð um það, hvort hásetar eru þreyttir eða óþreyttir, þegar þeir hafa aflokið störfum sínum. Hv. þm. (ÓTh) veit þess vegna ekkert um þetta, nema eftir annara sögusögn, og sýnir þetta greinilega stjettaskiftinguna í útgerðinni, að útgerðarmaður skuli vera svo nauða ókunnugur högum sjómanna eins og raun ber vitni um, en þó jafneindreginn gegn endurbótum á kjörum þeirra.

Þá fór hv. þm. (ÓTh) að tala um, að kaupið mundi vera meira en 2–3 þús. krónur. Eftir samningum er kaupgjaldið einar 200 krónur á mánuði auk lifrarpeninga. En það er líklegt, að í góðu ári, þegar flotinn gengur altaf, að það verði nokkuð meira, með lifrarpeningum. En hve mörg árin er það? Jeg hygg, að flest árin sje það svo, að menn, sem vilja stunda þessa atvinnu, fái ekki meira kaup yfir árið en kanske rúmlega 2000 krónur með lifrarpeningum. Og þegar margir mánuðir ganga úr, hvað tekur þá við? Þeir verða að bíða eftir skipunum, vita ekki hvenær þau fara út og geta þess vegna ekki aðhafst neitt annað. Þess vegna er það, að árstekjur þessara manna verða lágar, og er það hrein blekking, að vilja telja mönnum trú um, að árslaun þeirra sjeu eins og flotinn gangi alt árið.

Þá var það heldur ekki rjett, sem hv. þm. (ÓTh) hafði eftir mjer. Jeg sagði ekki, að mennirnir ynnu 2/3 hluta af árinu, jeg talaði um 2/3 af vinnutímanum, og það hygg jeg að komi út, jafnvel þó að teknar væru tölur úr nál. hv. minni hl.

Þá sagði hv. þm. (ÓTh), að þegar hægt væri að fylla skipið á 5–6 dögum, og svo færu 10–12 dagar í það, þá væri það auðsætt, að hásetarnir myndu ekki hafa mikla vinnu. Jeg hygg nú, að hv. þm. (ÓTh) viti, að það berst mismunandi mikið að af fiski, og eins skiftir miklu um veður fyrir veiðina, en það er svo í reyndinni, að mennirnir eru látnir standa jafnt og þjett, hvernig sem veður er, meðan veitt er, svo að hvíldin verður ekki meiri en þessir lögákveðnu 6 tímar, og svefninn þá eftir því 4–5 tímar. En það segir sig sjálft, að það er ekki ljett verk fyrir sjómenn að vinna á þilfari í vondu veðri, þó að ekki sjeu uppgrip af fiski.

Jeg ætla ekki að fara út í það, sem hv. þm. (ÓTh) sagði um síldveiðarnar, því að vökulögin ná ekki til þeirra, nje heldur frv. þetta. En jeg vil, út af því, sem hv. þm. (ÓTh) talaði um ísfiskveiðarnar, benda á það, að þótt hægt sje að fylla skipið á 4–5 dögum, þegar mokfiski er, þá gengur það þó sjaldnast svo, heldur verða menn að standa þar, sýknt og heilagt, nema sinn hvíldartíma, 6 tíma á sólarhring, í 12–14 daga. En mannslíkamanum er svo háttað, að hvíldartíminn verður að koma nokkurnveginn jafnt, að minsta kosti er það svo, að menn geta ekki unnið mjög langan tíma í einu án þess að fá næga hvíld, svo að millilandasiglingarnar koma ekki að haldi þar, þó að þá fái hásetar nægan svefn.

Jeg ætla ekki að fara í neinar deilur um það, hvort útgerðin muni bera sig eða ekki. Aðalástæðan í nál. hv. minni hl. er, að útgerðin standi svo höllum fæti, að hún gæti ekki staðist aukna hvíld háseta, nema á móti kæmi kauplækkun hjá þeim, svo að þarna stendur þetta svart á hvítu, og þarf ekki um það að þrátta. Það er líka víst, bæði af reynslu, og eins sannað með rannsóknum í öðrum löndum, að það er hægt að láta atvinnuveg bera sig vel peningalega í bili, með því að slíta út á stuttum tíma mannsaflinu, ef hann getur altaf fengið nýja starfskrafta. Þetta hefir líka óspart verið gert hjer, því að þegar hásetarnir hafa varið sínum bestu árum á togurunum og eru farnir að slitna, þá eru þeir látnir fara og nýir menn teknir í þeirra stað. Þýðir ekki á móti því að bera, því næg sönnun þess eru skipshafnaskrárnar, sem sýna, að yfirgnæfandi þorri háseta eru ungir menn, undir 30 ára aldri, og varla sjest þar maður yfir 45 ára aldur. En þar sem nú eru um 20 ár síðan íslenskar togaraveiðar hófust, sjest það, að eldri hásetarnir eru horfnir í land, vegna þess að þeir hafa slitið sjer út fyrir útgerðarmennina.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) talaði svo um þetta frv., að ef það yrði samþykt, þá ætti að koma ódugnaður og sjerplægni í staðinn fyrir það, að nú ríkti dugnaður og ósjerplægni. Það er, með öðrum orðum, að ef ætti að heimila mönnum að fá 8 tíma hvíld í sólarhring, eða um 6 tíma svefn, þá væri það sama sem að í hásætið stigi leti og ómenska. Jeg ætla ekki að fara að mótmæla þessu, því að þess þarf ekki. Það mótmælir sjer sjálft. En jeg ætla að lýsa það rótarlegan uppspuna frá hv. 3. þm. Reykv. (Jól), að jeg fái nokkra peninga fyrir að bera þetta frv. fram, eða hafi nokkurntíma þegið einn einasta eyri af verklýðsfjelögunum fyrir störf mín í þeirra þágu, enda aldrei vænst þess. En það gaf hv. þm. (JÓl) í skyn, þegar hann sagði frá í þessu rambandi, að fávísir menn hefðu gert sjer það að atvinnuvegi, að vera forgöngumenn sjómanna og fengið 6–7 þúsund krónur fyrir á ári. Og eins er það tilhæfulaus rógburður, að Sjómannafjelag Reykjavíkur hafi verið stofnað af mönnum, sem ekki voru hæfir til að vera á sjó sökum ódugnaðar, og hafi þess vegna gerst æsingamenn í landi. Það er til stofnskrá, sem sýnir, að stofnendur fjelagsins voru úrvalsmennirnir á fiskiflota okkar á þeim tíma.

En þessi orð háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl) sýna það, hvernig hv. þm. launar sjómönnum langa vinnu þeirra fyrir hann, sem hann hefir auðgast á.

Háttv. þm. (JÓl) gat þess, að það væri aðeins unnið fyrir þessa stjett manna, en ekkert fyrir verkamennina á eyrinni. En jeg veit ekki betur en að hjer hafi verið borið fram nokkuð svipað frv. fyrir eyrarmennina, gert til þess að takmarka þá nætur- og helgidagavinnu, sem tíðkast hefir við höfnina hjer í Reykjavík og í Hafnarfirði, en hv. þm. (JÓl) barðist á móti því með oddi og egg.

Hitt er ekki nema eðlilegt, að við, sem erum jafnaðarmenn og viljum rjetta hluta þeirra, sem verst eru settir í þjóðfjelaginu, notum hvert tækifæri, hvort heldur það er í bæjarstjórn eða á Alþingi, til þess að bera fram frumvörp, sem miða til hagsbóta fyrir þessar stjettir manna.

Háttv. þm. (JÓl) vildi halda því fram, að löggjafarvaldið ætti ekki að blanda sjer inn í þessi mál. En það er hinn mesti misskilningur. Ég til þess að sýna það nægir að benda til annara þjóða. Þær hafa margar sett lög um lágmark hvíldar- og svefntíma, fyrst fyrir börn og kvenfólk, og síðan fyrir fullorðna karlmenn. Að skipverjar af 10 skipum úr fiskiflota okkar hafi verið á móti því, að fá þessar breytingar á vökulögunum, lýsi jeg tilhæfulaus ósannindi og heimta, að hv. þm. (Jól) komi með sannanir fyrir því (ÁJ: Er nú hv. 4. þm. Reykv. (HjV) farinn að heimta sannanir?) — þar sem nöfn nærfelt allra hásetanna eru á áskorun til þingsins um 8 tíma hvíld, og annaðhvort hlytu þeir þá að hafa undirritað nöfn sín á móti sannfæringu sinni, eða þau að vera fölsuð. Þá sagði hann ennfremur, að ennþá væri unnið í sveitum, án þess að vinnutíminn væri takmarkaður, og væri vinna þar oft síst betri en á togurunum. Um sveitavinnu yfirleitt skal jeg ekkert fjölyrða. Það mun flestum kunnugt, að 18 tíma vinna samfleytt, svo vikum skiftir, þekkist ekki þar, og hefi jeg því enga ástæðu til að bera samskonar frv. fram um löghelgaða 8 tíma hvíld við sveitavinnu. En væru vinnubrögðin eins í sveitum, mundi jeg auðvitað bera fram samskonar frv., til að vernda heilsu þeirra manna, sem þar vinna.

Að síðustu vil jeg benda hv. þdm. á, að ástæður þær, sem þessir tveir hv. þm., hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) notuðu gegn máli þessu, voru undantekningarlaust tilhæfulaus ósannindi og blekkingar, og sýnir það best, hvernig málstaður þeirra er.