05.05.1927
Efri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2481)

69. mál, hvalveiðar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Háttv. 2. þm. S.-M. taldi frv. þetta ekki nægilega trygt sem sjerleyfislögjöf, en jeg sje ekki, í hverju það liggur. Enda benti hann ekki á neitt atriði, sem vantaði til þess, sem ekki var heldur von, því að í frv. eru ákvæði um, að kveða megi á um fjölda veiðiskipa o. fl. Ennfremur stendur í 3. gr. frv., að ráðherra geti sett frekari skilyrði, eftir því sem ástæða þykir til. Ráðherra hefir því alveg frjálsar hendur um það, að setja þau skilyrði í sjerleyfið, sem hann telur þurfa. Er því ekki ástæða til að vera á móti frv. fyrir þá sök, að ekki sje tryggilega frá því gengið, hvað sjerleyfið snertir.

Háttv. 5. landsk. (JBald) mintist á ýmislegt, og þar á meðal þetta gamla, með fiski- og síldargöngur í sambandi við hvalafriðunina, sem svo mjög var um rætt, þegar mál þetta var til umræðu á þinginu 1925. Mótmælaalda reis gegn því, sem bygð var á þessu. Annars veit jeg ekki, hvort svo beri að líta á, að þeir, sem að þeim mótmælum stóðu þá, hafi skift um skoðun, því að engin andmæli hafa komið frá þeim nú gegn þessu frv. Annars deilir menn á um þetta; þannig telja margir, sem við fiskirannsóknir fást, að hvalirnir hafi engin áhrif á fiskigöngurnar; samt er ekki hægt að halda því fram, að sú skoðun sje ríkjandi hjá sjómönnum.

Þá benti háttv. 5. landsk. á tekjur ríkissjóðs samkvæmt frv. þessu, og gerði frekar lítið úr þeim. En jeg get fullvissað háttv. þm. um, að tekjurnar verða mun meiri en hann gerði ráð fyrir. Það er ekki gert ráð fyrir, að þeir, sem fá sjerleyfið, verði lausir við opinber gjöld. Auk þess verður gjald af útfluttum afurðum ekki svo lítið. Þá finst mjer ekki eins lítið gerandi úr því, að fá góðan og ódýran mat, eins og mjer virðist háttv. 5. landsk. vilja gera. Jeg tel það atriði svo mikilsvert, að það sje fullkomlega þess vert, að breyta löggjöfinni fyrir það eitt. Því að það er ekki svo lítils virði, ef hægt er að fá góðan og ódýran mat fyrir nærliggjandi hjeruð stöðvunum. Annars er það ekki þetta, sem vakir fyrir þessum háttv. þm., heldur hitt, að hann er hræddur um, að útlendingar fái þetta sjerleyfi. Það má vel vera, að fá þurfi erlent fje til þess að koma þessu á stað, að minsta kosti að einhverju leyti. En er ekki allur atvinnurekstur til framleiðslu tekjur fyrir ríkissjóð? Jeg veit ekki betur; þess vegna finst mjer síst vera ástæða til fyrir þennan háttv. þm. að vera á móti þessu, hann, sem ber hag alþýðunnar svo mjög fyrir brjósti. Jeg fyrir mitt leyti fylgi þessu, af því að jeg tel það muni verða til góðs fyrir þjóðina. Jeg held, að það sje engin ástæða til, hvorki fyrir háttv. 5. landsk. eða mig, að fara að leggja alþjóðabandalaginu orð í munn. Jeg verð að telja það heldur langt til seilst.

Að endingu vil jeg taka það fram, að jeg sje engan sjerstakan manndóm í því, að láta útlendinga drepa hvalina umhverfis landið, án þess að landsmenn hafi nokkurn hag af því sjálfir. Jeg held því, að stjórnin ætti að nota þetta tækifæri, ef frv. verður að lögum, og gefa út tryggilegt sjerleyfi.