06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

11. mál, útrýming fjárkláða

Magnús Torfason:

Jeg hefi altaf litið svo á, að það sje ekki mikill menningarvottur, nje beri mikinn vott um framsókn bænda, að þeir skuli ekki vilja útrýma fjárkláðanum, einkum þegar þess er gætt, að þrifabaðanir eru hreinn og beinn gróðahnykkur fyrir bændur. Jeg mælti með þrifaböðunum og síðan með kláðaböðunum við bændur í Rangárvallasýslu, meðan jeg var þar sýslumaður, og eins við Ísfirðinga, ekki þó af því, að jeg álíti, að hægt sje með einu áhlaupi að drepa seinasta kláðamaurinn á Íslandi, heldur hefi jeg viljað, að það kæmist inn í meðvitund þjóðarinnar, að nauðsynlegt sje að kosta alls kapps um að útrýma fjárkláðanum.

Þegar jeg var í Ísafjarðarsýslu, var þar mjög lítið um fjárkláða. Hann var þar aðeins á einum eða tveimur bæjum inni í Djúpinu, og aðfenginn. En smátt og smátt hefir hann verið að stinga sjer niður, en þó hefir borið minna á útbreiðslu hans síðan bændur fóru að sjá, að þrifabaðanir borga sig.

Þegar jeg kom í Árnessýslu, mátti hún heita útsteypt í kláða, og stjórnin gerði sjerstakar ráðstafanir til þess að kveða niður þennan vágest. Árnesingar hlýddu og gerðu sjer far um að drepa kláðann, og það hefir tekist svo vel, að nú finst varla kláðakind í sýslunni. Þetta geta allar sýslur gert, ef þær hafa vilja á. En hinsvegar lít jeg svo á, að útrýmingarböðun sje ekki tímabær fyr en þeirri hugsun hefir verið komið inn hjá bændum, að þrifabaðanir eigi að fara fram og sjeu til bóta. Jeg er viss um, að færi útrýmingarböðun fram nú, eins og ástatt er, mundi skjótt að henni lokinni sækja í sama horfið, að bændur mundu slá slöku við áframhaldið, nema þar sem böðunarviljinn er orðinn almennur. Því álít jeg ekki rjett að fara að valdbjóða nú, eins og sakir standa, útrýmingarböðun um land alt, heldur eigi aldan að koma neðan að, frá bændunum sjálfum. En það ætti að sjálfsögðu að vera verkefni Búnaðarfjelags Íslands að stuðla að því, að böðunarhugsunarhátturinn komist inn hjá bændum landsins. Þá fyrst, er það er orðið, er kominn tími til að fyrirskipun kæmi frá hærri stöðum.

Hinsvegar sje jeg ekkert á móti, að stjórnin fengi vald til að fyrirskipa herhlaup gegn kláðanum, þar sem hann er sjerstaklega magnaður, t. d. í vissum sýslum. Væri slíkt áhlaup gert og bæri árangur, mundi það sannfæra bændur annarsstaðar um, hvert gagn þeir gæti haft og hve langt mætti komast með því að sinna þessu máli rækilega og fylgja því fast eftir.

Eitt er það, sem þarf að undirbúa áður en allsherjar útrýmingarböðun verði valdboðin, og það eru sundlaugar, þannig fyrirkomið, að hver bær á landinu geti átt auðveldan aðgang að. Annars er líka margs fleira að gæta. T. d. hefði ekki verið neitt vit í að leggja út í útrýmingarböðun í vetur með þeim hrakningsheyjum, er nú eru um land alt. Stjórninni verður að vera í vald sett, hvenær hún lætur slíka böðun fram fara, ef ætlast er til, að hún sæti færi, er nóg hey eru og góð fyrir hendi, því að fjeð þarf betri aðhlynning þá en ella. Það er hinsvegar víst, að fjenaður mundi ekki vera vel undan genginn í vor af heyjunum frá síðastliðnu sumri, ef ekki hefði verið svo góður vetur sem raun er á orðin, það sem af er.

Málið er að mínu áliti enn á því stigi, að það getur ekki talist nægilega undirbúið til þess að farið sje að kosta mörgum tugum þúsunda til böðunar. Þótt kostnaðurinn lendi mikið á ríkissjóði verður hann þó ekki síður tilfinnanlegur fyrir bændur. Og menn verða að gæta að ástandinu í landinu og hag bænda. Hann er ekki svo glæsilegur, að ástæða sje til að leggja á þá þann skatt sem útrýmingarböðunin mundi verða.