20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2567)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg átti ósvarað nokkrum atriðum úr ræðu hv. frsm. (IHB), er umr. var slitið síðast.

Viðvíkjandi till. hv. meiri hl. um að vísa málinu frá, og fá fyrst heildartillögur um húsmæðrafræðsluna í landinu, þá hygg jeg, að það sje of snemt og ekki heppilegt. Það má öllum vera ljóst, að án þess að stjórnin sje löstuð — og á jeg þar ekki beinlínis við þessa hæstv. stjórn — að hún er ekki fær um að gera þetta. Það er ekki kunnugt, að í stjórnarráðinu sje neinn maður, sem hafi fengist við uppeldismál, því síður, að þeir hafi vit á þeim eða hafi kynt sjer þau. Stjórnin yrði því að fá menn út um bæ sjer til aðstoðar, og er það ekki útilokað. En það er þó engin trygging fyrir því, að þær ráðleggingar, er hún fær, sjeu heppilegar. Miklu væri nær að láta kvenfjelögin gera tillögur um þetta, því að þau munu frekast hafa skilning á því, hvar skórinn kreppir að. (IHB: Samanber: margir kokkar brenna grautinn við ). — Ef hv. frsm. finst, að jeg hafi gert kvenþjóðinni of hátt undir höfði, þá bið jeg fyrirgefningar á því. Samt treysti jeg nú kvenþjóðinni betur en stjórninni í þessu máli. En síðan jeg fór að skifta mjer af þessum málum hjer á þingi, hefir mjer stundum fundist skorta mjög skilning á þeim, og hv. 2. landsk. væri ekki eins harðsnúin fyrir hönd kvenþjóðarinnar og búast hefði mátt við.

Það er of snemt að gera heildarlög um húsmæðrafræðsluna í landinu. Nú er kominn fram á ýmsum stöðum náttúrlegur gróður í þessu efni í hinum ýmsu hjeruðum. Og jeg vil benda hv. frsm. (IHB) á, hvort ekki sjeu miklar líkur til þess, að gróður sá, er þannig vex upp víðsvegar um land, muni hollari fyrir konur, heldur en fyrirfram tilbúið skipulag ókunnugra skrifstofumanna í Reykjavík.

Staðarfellsskólinn er nú að byrja, og hann á að geta orðið ódýr í rekstri, er fram í sækir; hann ætti að geta starfað með 4000 króna styrk og haft 12–14 nemendur. Þetta kalla jeg ódýrt, þegar það er borið saman við Reykjavíkurskólana, að jeg ekki tali um háskólann, þar sem hver lærisveinn kostar landið stundum þúsundir króna.

Um Blönduósskólann er líkt að segja. Honum hefir verið breytt mikið á seinni árum. Skólanefndin hefir látið stækka og endurbæta húsið, og nú held jeg að komin sje miðstöð í það. Þessi skóli er að komast í ágætt horf. Hann vantar ekki neitt nema samgöngur. Jeg heyri sagt, að stúlkur þar verði nú að bíða mánaðartíma að loknu prófi til þess að komast þaðan. Skýt jeg þessu til þeirra, sem eru á móti auknum strandferðum, og spyr þá, hvort það sje sæmilegt, að láta Blönduós hafa svo slæmar samgöngur á sjó.

Ef við höldum nú lengra austur á bóginn, þá hafa nokkrar eyfirskar konur hugsað sjer að fá lítinn styrk til þess að halda uppi kenslu í garðyrkju og hússtjórn o. fl. fyrir 6–7 stúlkur. Svo er deildin við Laugaskólann, er jeg tel að sleppi ódýrt með 11 þús. kr. stofnkostnaði. Rekstrarkostnaður verður þar minni heldur en á Staðarfelli, vegna heita vatnsins.

Nú vil jeg spyrja hv. frsm. (IHB), hvaða líkur sjeu til þess, að stjórnarráðið eða Hafnarmentaðar embættismannakonur í Reykjavík, er lítið eða ekkert þekkja til út um land, muni geta metið þessa þróun og hvað best er fyrir fólkið út um land og rekstur skólanna. Það er ekki lítill kostnaður fyrir stúlkur norðan af Langanesi að sækja 4 mánaða námskeið í hússtjórnarfræði hingað til Reykjavíkur. En jeg gæti vel trúað því, að þeir, sem stjórnin — og á jeg þar ekki beint við núverandi stjórn — leitaði ráða til, mundi koma með svo fjarstæðar tillögur í málinu, að fólk vildi hvorki heyra þær nje sjá.

Hv. frsm. þótti það ekki hlýlega mælt hjá mjer til kvenna á Akureyri, út af skeyti þeirra, að jeg gat þess til, að öfund hefði knúið þær áfram, en ekki áhugi. En því hafa þær þá sofið andvaralaust síðan 1917. (IHB: Þær hafa unnið að öðru!). Þótt konur á Akureyri hafi gert mikið fyrir spítalamálið, þá væri það þó skamt komið nú, ef þær hefðu eigi notið annara að. Eitt fjelag á Akureyri, kaupfjelagið, gaf t. d. 10 þús. kr. til hælisins og ungmennafjelagið gaf eitthvað talsvert líka. Og það mun fyrst hafa komið skriður á það mál, er karlmenn fóru að skifta sjer af því. Það er að minsta kosti víst, að til er stór kvennaskólasjóður og gamalt loforð frá sýslunefnd Eyfirðinga um að leggja fram fje til þess skóla. En konurnar gátu ekki komið sjer saman, en niðurstaðan varð sú, að kaupstaðarkonurnar höfðu sitt fram. En svo settust þær á málið, þangað til nú við 2. umr. fjárlaganna, þegar gert er ráð fyrir því, að nábúahjeraðið fái styrk til húsmæðraskóla — þá vakna þessar góðu konur og fá þm. sinn (BL) til þess að bera fram till. um að fá fje til skólans, en með þeim hætti, að það dræpi þróun samskonar máls í nábúahjeraðinu. Jeg sje ekki betur en að þessi tilraun verðskuldi enga samúð eða virðingu, heldur hið gagnstæða. Það væri ekki kominn sá skriður á þessi mál annarsstaðar á landinu, ef karlmennirnir hefðu litið til þeirra öðrum eins öfundar- og illgirnisaugum eins og þessar konur á Akureyri, eftir framkomu fulltrúa þeirra að dæma í húsmæðrafræðslumáli S.-Þingeyinga. Og jeg spái því, að ef á að sækja húsmæðrafræðslumálið eins og það er sótt af hv. þm. Ak. (BL), þá geti liðið mörg ár þangað til viðunandi skipulag er fengið.

Því, sem hv. frsm. (IHB) sagði um frú Sigrúnu Blöndal, hefir hv. 2. þm. S.-M. svarað, og eins samanburðinum á þeim tveim stöðum, sem tilnefndir hafa verið, Eiðum og Hallormsstað. En það er skiljanlegt, að hv. frsm. (IHB) sýni þá vanþekkingu, að vilja halda Eiðum fram, því að hún hefir víst ekki komið þangað og sjeð húsin þar. En það er nú svo, að ekki er hægt að byggja hús á Eiðum neina að spilla þar stórum núverandi skólahúsi með því að byggja fyrir sólarhlið þess. En óþarfi virðist það í sveitinni, að vera að spara sólskinið vegna landþrengsla. Þegar húsameistari ríkisins var að ráðgera hina nýju byggingu, vildi hann hafa hana lausa við hitt húsið, en vegna þess að alt þurfti að spara sem mest, varð það úr, að bygt var við endann á gamla húsinu — og því snýr öll byggingin þar öfugt, eins og Jón hrak. Mig langar því ekki til, að þarna sje bygt þriðja húsið við, í trássi við sólskinið.