11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (2610)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg verð að játa, að jeg varð mjög undrandi, er hv. 2. þm. G.-K. kvaðst bera þetta frv. fram samkv. áskorun margra bifreiðaeigenda. Jeg hefi nú sjeð listann hjá honum og rengi hann ekki, en á honum virðist mjer bera mjög á mönnum, sem eiga „prívat“-bíla, en minna á þeim eigendum bifreiða, sem nota þær til manna- og vöruflutninga. Stærstu bifreiðafjelögin vantar alveg. Auk þess er mjer kunnugt um, að tillaga svipuð þessu var borin upp á fundi í Bifreiðarstjórafjelagi Íslands, þar sem eru fjölmargir bifreiðaeigendur, en þar var hún feld með öllum atkv. gegn 3, og einn af þessum þremur var bifreiðarstjóri hjá Kveldúlfi. (ÓTh: Það sýnir bara, hvað bifreiðastjórar Kveldúlfs eru vitrari en aðrir!) En aðalatriðið í þessu máli er það, hvort leggja skuli skatt á bensín í þessu skyni, og ef svo er, hvað sá tollur skuli þá vera hár. Tollurinn verður eftir frv. 8,35 á hverja bensíntunnu, ef reiknað er af nettóvigt, en 10 kr. 50 aur., ef reiknað er með umbúðum, eins og vörutollurinn samkv. gildandi lögum, og er það gífurlegur skattur. ca. 10–15% af útsöluverði bensínsins. Samkvæmt skýrslum voru flutt inn árið 1925 880 tonn af bensíni brúttó, en það gerir 5270 tunnur. Bensíntollurinn yrði þá samkvæmt þessu um 15 þús. krónur, af bensíninu nettó, en 55 þús. kr., ef reiknað er með umbúðum, en bifreiðaskatturinn sama ár var 25 þús. kr. eftir landsreikningi. Hjer er þá farið fram á að hækka bifreiðaskattinn um helming eða meira. Það er nú atriði út af fyrir sig, hvort eigi að hækka skatt á bifreiðum eða ekki, og finst mjer reyndar síst vera ástæða til þess að íþyngja þessum samgöngum með auknum skatti En þá er hitt atriðið, hvort rjett sje yfirleitt að leggja til þess toll á innflutt bensín. Með því að miða skattinn við hestorkur, er eftir gildandi lögum gerður sá munur, að mannflutningsbifreiðar gjalda hærri skatt, en vöruflutningsbifreiðar lægri, og er það rjettlátt, að ljetta undir með vöruflutningunum. Í öðru lagi eru eftir gildandi lögum þær bifreiðar, sem minst ganga, svokallaðir „lúxusbílar“, sem notaðir eru auðugum mönnum til skemtunar, látnir greiða fullan skatt. En samkvæmt þessu frv. má heita að þeir sleppi. Jeg sje enga ástæðu til þess að hlífa þeim mönnum, sem hafa efni á því að eiga bifreiðar sjer til gamans, þó að þeir láti þær standa inni kanske mikinn hluta ársins. Jeg álít að þeir geti borgað fullan skatt. Ef borinn er saman skatturinn, eins og hann er nú og eins og hann verður samkvæmt þessu frv., þá fimmfaldast skatturinn á vöruflutningabílum og hækkar að mun á fólksflutningsbílum og kemur harðast niður á þeim, sem í lengstum ferðum eiga, með öðrum orðum þeim, sem ganga út um Gullbringu- og Kjósarsýslu og til Suðurlandsundirlendisins. Það er því síður en svo, að hv. 2. þm. G.-K. sje með þessu að vinna í þágu kjósenda sinna, frekar en endranær.

Jeg verð að lýsa því yfir, að jeg er algerlega á móti þessu frv. og mun greiða atkvæði á móti því til 2. umr. Jeg vænti, að hv. þdm. sjái, að hjer er verið að íþyngja vöru- og fólksflutningum til hagsmuna þeim, sem „lúxus“- bifreiðar eiga, nota þær sjer til skemtunar og færastir eru að borga.