26.04.1927
Efri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í C-deild Alþingistíðinda. (2757)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 5. landsk. (JBald) viðurkendi í rauninni með ummælum sínum þá höfuðaðfinslu mína, að ákvæði frv. til að heimila kaupstöðum og kauptúnum forkaupsrjett væru of víðtæk. Hann viðurkendi það, með því að vísa í athugasemdirnar við frv., að ekki væri ætlast til, að eins langt verði gengið og lögin heimila. En þegar farið verður að lifa eftir frv., er jeg hræddur um, að svo fari, að ekki muni allir eftir þessari athugasemd hv. 5. landsk. En þessi ummæli hans sýna, að hann finnur, að hann hefir gengið of langt. Hv. þm. vísar til forkaupsrjettar sveitafjelaga á jörðum. En ummæli hans sýna, að hann þekkir ekki þau lög, sem um þann forkaupsrjett fjalla. Fyrsta forkaupsrjett hefir altaf ábúandi, og ef eigandi vill selja nákomnum ættingjum, hefir hreppurinn ekki forkaupsrjett. Forkaupsrjettur sveitarfjelaga á jörðum er settur inn í því ákveðna augnamiði að gera sveitarfjelögum mögulegt að fyrirbyggja, að jarðirnar kæmust í hendur manna, sem ekki gætu notað þær í samræmi við hagsmuni sveitarfjelagsins. Sá forkaupsrjettur er því þrengri.

Að jeg hafi skýrt rangt frá, vísa jeg heim til hv. þm. (JBald). Það má auðvitað segja, eins og hann gerði, að það sje fáviska og fáfræði að vita ekki hvað gerist t. d. hjá bæjarstjórn Reykjavíkur. En ef hv. þm. vildi fara út í bæ og spyrja greinda borgara, hvað mikið þeir viti af því, sem gerist í bæjarstjórninni, þá mundi hann áreiðanlega fá þau svör, að þeir vissu mjög lítið. Það, sem gerist hjá bæjarstjórninni, kemur ekki til almennings, neina það, sem blöðunum þykir svo frjettnæmt, að þau segja frá því. Þær frásagnir muna menn svo 1–2 daga, eins og aðrar blaðafrjettir. Þetta er það almenna. Það á nú að vera svo eftir löggjöfinni um allar kvaðir á fasteignum, að það á ekki að velta neitt á þekkingu eða fróðleik þeirra manna, sem kaupa eða selja fasteignirnar. Um alt slíkt eiga menn að geta fengið að vita á einum stað. þinglestur á kvöðum, sem er vel færður inn í veðmálabækur, kemur í veg fyrir stórtjón í þessu efni. Því ætti að tryggja hann með sjálfum lögunum.