06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í C-deild Alþingistíðinda. (2770)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Hjeðinn Valdimarsson:

* Jeg hygg, að háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl) hafi fundist hann sitja á bæjarstjórnarfundi og væri farinn að pexa þar, því að ræða hans kom ekkert því máli við, sem nú er til umræðu. Hann var t. d. að tala um jörð, sem bærinn keypti, en þar var um engan forkaupsrjett að ræða; bærinn hafði ekki forkaupsrjett á henni.

Þar sem bærinn hefir forkaupsrjett á mörgum lóðum, þá skyldi maður ætla, eftir kenningu háttv. frsm. minni hl., að hann væri búinn að kaupa þær allar upp, en því fer fjarri.

Sú ástæða hjá háttv. 3. þm. Reykv. gegn þessari forkaupsrjettarheimild, að af henni gæti leitt allskonar undirróður, er harla ljettvæg. Slíkan undirróður má hafa jafnt hvort sem um forkaupsrjett er að ræða eða ekki. Um eignarnámsheimildina samkv. 63. gr. stjskr. er það að segja, að hún er góð, það sem hún nær, en hún á ekki við hjer. Jeg fæ því ekki annað sjeð en flest það, sem kom fram í ræðu háttv. 3. þm. Reykv., hafi frekar en hitt verið til þess að styrkja það, að forkaupsrjettarheimildin sje æskileg.

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.