23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í C-deild Alþingistíðinda. (2889)

53. mál, strandferðaskip

Hjeðinn Valdimarsson:

Það var aðallega tvent, sem hæstv. atvrh. hafði fram að færa móti þessu frv., sem hjer liggur fyrir. Annað var það, að betra væri að haga samgöngunum þannig, að skipið kæmi frá útlöndum á smærri hafnirnar, heldur en að umskipa á stærri höfnum, vegna þess að umskipunin hefði svo mikinn kostnað í för með sjer á aðalhöfnunum. En jeg er alveg gagnstæðrar skoðunar. Það er hægt að haga því svo til, að flutningsgjaldið verði ódýrara, ef umskipað er, heldur en ef stóru skipin eru látin flækjast inn á hverja smáhöfn. Það sýnir sig frá fjelögum þeim, sem stunda gufuskipaferðir hjer við land, hvernig þetta tekur sig út. Ástæðan til þess, að farmgjaldstaxtar á íslensku hafnirnar eru hærri en þeir þyrftu að vera, og að útlendu fjelögin græða, er sú, að þau taka aðeins stærri hafnirnar, en Eimskipafjelagið verður líka að hafa þær minni. En ef það tæki nú upp sama ráð og hin fjelögin, að sigla aðallega á stóru hafnirnar, þá væri hægt að lækka farmgjöldin stórum, en hafa umskipun á stærstu höfnunum, svo sem Reykjavík, Akureyri, Seyðisfirði og jafnvel Ísafirði, ódýrari en hún er nú. Allir vita, að umskipun er mjög dýr hjer í Reykjavík, vegna þess að ekki er nóg hugsað um að hlynna að slíkum flutningi. T. d. eru ekki varningshúsin alveg niður við höfn, vörugjald óþarflega hátt, engin tollgeymsla fyrir slíkar vörur, sem þó er ráð gert fyrir í lögum o. s. frv. Það sýnir sig, að það væri betra fyrir Eimskipafjelagið að taka vörur fyrir „gegnumgangandi“ flutningsgjald, heldur en að flytja þær á smærri hafnirnar.

Þá var það annað atriði, sem hæstv. atvrh. mintist á. Hann sagði, að það væri meiri nauðsyn að flýta fyrir vegabótum en bæta og auka umferðina á sjónum. Það er viðurkent alstaðar, þar sem rætt er um samgöngumálin, að sjóleiðin sje hentugri fyrir þungavöruflutninga, og mun þetta ekki hvað síst gilda um land vort, sem er sævi girt, þar sem ekki eru hafnleysur. Það mundi kosta mikið fje og langan tíma, þangað til samanhangandi vegakferfi væri komið um landið alt, þannig, að flytja mætti landleiðina sömu þungavöru og nú er flutt á sjó. Jeg býst við, að næstu 10 ár kæmist þetta ekki svo í kring, að fullnægjandi þætti. Það er því augljóst, að sjóleiðin er hentugust fyrir okkur um alt Vesturland, Norðurland og Austurland. Það er hægt að koma við samgöngubótum á sjó með minni tilkostnaði og á skemri tíma en þeim, sem það mundi taka að koma á gagngerðum umbótum á vegunum, því að ósamanhangandi vegaspottar, dreifðir um allar sýslur, koma að tiltölulega litlu gagni.

Þá vil jeg minnast á þau orð hæstv. ráðh. (MG), að gefa Eimskipafjelaginu Esju og svo þar að auki allháan styrk, til þess að losna við strandferðirnar. Jeg varð nú alveg forviða á að heyra þessi orð hjá hæstv. atvrh., sem á að gæta hagsmuna þjóðarinnar og ríkissjóðs. Og hvað vinst við þetta? Sama fjelag mundi reka skipið, og jeg hygg, að því mundi ekki verða neitt betur stjórnað en nú er, af þessum sömu mönnum. En Eimskipafjelagið mundi þá varla taka að sjer þessar strandferðir, nema það yrði því alveg að skaðlausu. Ef fjelaginu væri gefið eitt eða fleiri skip, þá lækkaði kostnaður þess við strandferðirnar frá því, sem ríkissjóður hefir nú, eingöngu um árlega fyrningu skipsins. Það er bersýnilegt, að þótt fjelagið fengi Esju, mundi það samt heimta styrk eftir þörfum, til þess að verða ekki fyrir tapi. Því að eins gæti staðið á sama um slíka gjöf, að engin von væri til þess, að ríkissjóður hefði nokkurntíma annað en tap af þessum strandferðum, og fjelagið skuldbindi sig til að haga rekstrinum ávalt eftir fyrirskipun ríkisstjórnarinnar. En eftir því sem viðskiftin vaxa, má fastlega búast við því, að tapið minki. Það er næsta einkennilegt hatur, sem hæstv. ráðh. (MG) hefir á opinberum fyrirtækjum, er hann vill kasta stórfje úr ríkissjóði til þess að landið eigi ekki neitt.