29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg bjóst við því, að hv. þm. N.-Ísf. mundi þyrma deildinni við þessum „statistiska“ húslestri. Hann hefir lesið þennan sama lestur tvisvar sinnum áður og nú í þriðja sinn, og væri synd að segja, að hann komi nú í endurbættri útgáfu (JAJ: Aldrei er góð vísa of oft kveðin.) Það má gjarnan til sanns vegar færa. En jeg geri ekki ráð fyrir því, að þessi lestur hafi sannfært neinn hv. þdm., því að sannfærandi var hann síst af öllu. En hann sýnir aðeins, að þessum hv. þm. (JAJ) er illa við það, að bætt sje úr samgönguþörfinni á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv.

Jeg þykist þó hafa fengið eina skýringu á því, hvers vegna hv. þm. er á móti frv.; jeg hygg, að það stafi af því, að hans kjördæmi, sem hefir eftir atvikum góðar samgöngur og nýtur mikils styrks, muni missa eitthvað af þeim hlunnindum. Honum virðist líklega, að ef svo yrði breytt til, að hjer væru tvö strandferðaskip, þá mundi skerðast sú upphæð sem Ísafjarðarsýsla fær til samgöngubóta innanhjeraðs. Það mun vegna þeirrar hættu, að hann legst svo þunglega á móti frv. Jeg vil ekki gera honum þær getsakir, að hann geti ekki unnað öðrum hjeruðum slíkra samgangna, sem Ísafjarðarsýslur njóta.

Því hefir verið haldið fram af sumum þeim, sem í móti frv. mæla, að fyrst og fremst verði að hugsa um bættar samgöngur á landi, vegabætur og bílvegi aftur og fram um landið. Það muni bæta úr og bjarga samgönguþörfinni. En þetta er eitt hið fráleitasta og fákænlegasta, sem fram hefir komið í málinu. Við erum hjer á eylandi, sem er umflotið íslausum sæ, og hjer búa aðeins 100 þúsundir manna á strandlengju, sem er svo löng, að það tekur mánuð að fara í kring landleiðina. Það er stórkostlega einkennilegt, að nokkur skuli geta haldið fram þeirri kenningu, að við eigum að bíða með samgöngubætur á sjó, þangað til bílvegur sje kominn um allar bygðir, sem bersýnilega dregst marga mannsaldra. Það eru samgöngurnar á sjónum, sem við verðum fyrst og fremst að hugsa um, því að þær eru og verða þær einu samgöngur, sem þegar geta komið að gagni og viðráðanlegar eru á þessum tíma. Þær bæta þegar úr þörfum, að minsta kosti fyrir 80% af landsbúum.

Mjer þykir rjett að minna á það, að ekki er enn komið lengra strandferðamálunum, en gert var ráð fyrir á fyrsta löggjafarþinginu, árið 1874. Það var í fyrsta sinn, að jeg ætla, sem tillögur komu fram um kaup á strandferðaskipi. En það komst vitanlega ekki til framkvæmda fyr en löngu seinna, og við þetta eina skip situr enn í dag. En þingið 1913 sá þó lengra fram í tímann en ýmsir sjá nú. Það gerði ráðstöfun til þess að fá tvö strandferðaskip. Og vissulega hefði farið svo, að skipin hefðu orðið tvö, ef ekki hefði stríðsástandið aftrað því. Það er eftirtektarvert, að í allri þessari rekistefnu spá mótstöðumenn málsins því, að skipið muni innan skamms koma. Þeir veita þá aðeins viðnám í bili, vitandi það, að skipið er á næstu báru og hlýtur að koma. Jeg verð að segja, að mjer þykir talsvert varið í þessa viðurkenningu þeirra og finn, að þeir eru að gugna.

Hv. þm. N.-Ísf. vildi vefengja ágiskun mína um rekstrarhalla á þessu nýja skipi og Esju. Að vísu verður ekki fyrirfram með vissu sagt um rekstrarhallann, enda fer hann mjög eftir meðferð skipanna, en jeg leiddi að því góðar líkur við 2. umr., að rekstrarhalli Esju mundi minka. (JAJ: Hvaða líkur?). Jeg sýndi fram á, að reikningar Esju fyrir síðastliðið ár bæru með sjer, að 10 þús. kr. hefðu verið greiddar fyrir yfirvinnu á ýmsum höfnum, sem beint stöfuðu af vöruflutningunum. Þá benti jeg á, að Esja gæti komist af með 3–4 færri menn en hún hefði nú, ef hún væri laus við vöruflutninga, og að afgreiðslukostnaðurinn á höfnunum yrði um 12 þús. kr. minni, er vöruflutningum slepti. Það liggur í því, að afgreiðslumönnum er ætluð viss hundraðstala af farmgjöldunum. Það er auðelt að sjá, að þegar farmgjöldin nema 142 þúsundum, eftir frádrátt, þar nemur þetta töluverðri upphæð. (Gripið fram í). — Þar sem jeg þekki til, munu afgreiðslumennirnir fá alt að 5%, og auk þess jafnvel sumstaðar fast gjald. (JAJ: Á hvaða stöðum er það?). Jeg læt ekki hrekja mig með spurningum út frá efni, eða bið hæstv. forseta að þagga niður í þeim mönnum, sem ekki geta á sjer setið, meðan aðrir tala. — Jeg hefi sem sagt sýnt fram á, að yfirleitt verður margskonar sparnaður á rekstri skipsins, er það hættir pinklaflutningi. Sumstaðar mundu sparast bryggjugjöld, því að ef ekki væri nema um farþega að ræða, mundi skipið oftlega ekki tengja sig við bryggju. (JAJ: Hvað mikið af bryggjugjöldunum er greitt í Reykjavík?). Jeg hefi ekki kynt mjer það sjerstaklega.

Þá var hv. þm. (JAJ) að reyna að vefengja, að rjett væri tilgáta mín um verð nýja skipsins. Jeg þarf engu þar til að svara, en vil benda á nál., sem framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins skrifaði undir, á þskj. 60 frá síðasta þingi. Og til frekari tryggingar því, að rjett sje með farið, ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp brjef frá framkvæmdarstjóranum, frá síðasta þingi, út af fyrirspurn, sem flm. samskonar frv. og þessa lögðu fyrir hann. Þar segir svo: „Til frekari fullvissu símaði jeg út og spurðist fyrir um, hvað strandferðaskip eins og það, sem þjer óskuðuð, mundi kosta með einangruðu kælirúmi 2000 teningsfet að stærð. Svar viðvíkjandi þessu kom í gær, og var á þá leið, að skipið mundi kosta 400 þús. d. kr., eða 472 þús. ísl. kr., eftir núverandi gengi. Innanstokksmunir og ýms útbúnaður mundi kosta 15 þús. d. kr. eða 17700 ísl. kr., svo samtals mundi skipið kosta 489700 ísl. kr., eins og nú standa sakir.“

Þetta brjef frá framkvæmdarstjóranum sjálfum, ásamt nál., ætti að geta skorið úr allri þrætu um þetta efni. Jeg hefi ekki haldið öðru fram, hvorki um rekstrarhallann nje heldur byggingarkostnað hins nýja skips, en því, sem hann hefir bent á. (JAJ: Þetta er ekki alveg rjett.) (Forseti: Ekki samtal!).

Hv. þm. N.-Ísf. var að upplýsa sitthvað um rekstur skipa og byggingu, sem ekki hafði komið fram áður, skipa, sem hefðu verið miklu dýrari og erfiðari í rekstri en hjer er ráðgert. Slíkt kemur þessu máli ekkert við. Það má vera, að hann þekki betur en jeg til rekstrar togara, en það er ekki þar með sagt, að hlutlaus sje skýrslan hjá honum; mörg ummæli hans eru utan við það mál, sem hjer liggur fyrir, um kaup á farþega- og kæliskipi. Hv. þm. heldur því fram, að mörg hjeruð hafi ekki þörf fyrir bættar samgöngur og mundu því ekki hafa veruleg not af þessu skipi. En jeg verð að halda því fram eins og áður, að því nær hvert einasta hjerað á landinu hafi not af því, jafnvel þau, sem hann álítur, að engin not hefðu af því. T. d. vil jeg benda á, að Vestur-Skaftafellssýsla, sem hefir enga höfn, nema Vík í Mýrdal, mundi hafa talsverð not af þessu skipi, en ekki er von, að slíkur staður hafi gagn af ferðum Esju, eða skips, sem á að hraða ferðum vegna farþega og pósts. Skip, sem gætu gefið sjer betri tíma, mundu geta komið við í Vík, Árnessýsluhöfnunum og höfnum Austur-Skaftafellssýslu, t. d. Hornafirði, eins og líka víðar, þar sem nú eru strjálar viðkomur eða engar.

Hv. þm. hjelt því fram, að þó að aðgreindir væru póst- og vöruflutningar, mundi fara eins um ferðir Esju og nú, að ekki fengjust farþegar, nema milli næstu hafna við Reykjavík. En þegar Esja getur farið þriðjungi hraðar en hún gerir nú, þá er augljóst, að fleiri hyllast til að fara með skipinu. Maður, sem þyrfti t. d. að fara frá Hólmavík til Akureyrar, mundi síður hafna Esjuferð, ef svo bæri undir, að ferðinni lyki á 3 dögum í stað 4½ degi eins og nú er.

Aftur og aftur kemur hjer fram sama kenningin, um að flóabátarnir eigi að fylla þær eyður, sem eru í strandferðum okkar, og muni það vera bæði ódýrara og hagkvæmara en strandferðir stærri skipa. Jeg játa, að á vissum stöðum, t. d. þar sem stór hjeruð liggja að einhverjum flóa, getur verið haganlegt að hafa flóabátana, en það er ekki nema á tiltölulega fáum stöðum, og auk þess geri jeg ekki ráð fyrir, að þeir verði neitt ódýrari en gufuskip, ef nokkuð á að vera í þá varið. Jeg veit, að um Ísafjarðardjúp hefir verið slíkur flutningur á pósti og farþegum, en það nær ekki út fyrir hjeraðið að mun, og er ekki einu sinni fullnægjandi fyrir það, nema aðrar strandferðir bætist við. Hv. þm. (JAJ) hefir leyft sjer að rangfæra orð mín, bæði við 2. umr. og eins í dag. Hann segir, að jeg hafi lýst því yfir, að samgöngur væru góðar á sjó í mínu hjeraði. Þetta er hártogun. Jeg var að svara hv. þm. Barð. og sagði, að hafnirnar mörgu og góðu í Suður-Múlasýslu mundu tryggja þar sæmilegar samgöngur. En það er dálítið annað að hafa sögn í nútíð eða skildagatíð, eða þá ókominni tíð. — Því hefir verið haldið fram, bæði af hv. þm. N.-Ísf. og fleirum, að Eimskipafjelagið stæði betur að vígi en aðrir aðilar til þess að hafa strandferðirnar á hendi. Jeg skal ekki neita því, að það standi vel að vígi, en það er alt annað en hitt, að fjelagið vilji taka þær að sjer, með þeirri áhættu og kostnaði, sem því fylgir. Eimskipafjelagið er eign einstakra manna, sem auðvitað vilja bera eitthvað úr býtum; mundi fjelagið varla fá leyfi til þess hjá aðalfundinum að taka á sig ábyrgð og vanda af strandferðunum. Hitt er alt annað mál, að Eimskipafjelagið stendur vel að vígi til þess að líta eftir rekstrinum eins og það hefir gert. En það er auðveldara að semja við Eimskipafjelagið um reksturinn, þegar skipin eru fengin tvö. Slíkt fyrirkomulagsatriði verður ef til vill athugað síðar, en til þess er ekki kominn tími, og verður það aldrei gert, nema með miklu framlagi úr ríkissjóði.

Þótt jeg hafi skrifað ýmislegt fleira niður, ætla jeg ekki að tefja tímann með því að svara því. Sumu hefir áður verið svarað, og sumt eru endurtekningar, eða þá ummæli, sem ekki koma því máli við, sem hjer liggur fyrir. Þó vil jeg drepa á það, að í öllum þessum umr. hefir, þegar deilt hefir verið um rekstrarhallann á útgerðinni undanfarið og þeim væntanlega, altaf verið miðað við rekstrarhalla Esju síðasta ár. En þá var hann mestur, 207 þús. kr. Árið 1925 var hann 139 þús. kr. og 1924 184 þús. kr. Þetta hefi jeg að vísu nefnt við 2. umr., en þrátt fyrir það er sífelt haldið áfram að miða við þennan mesta halla. Það er eftirtektarvert við samanburðinn frá ári til árs, að fargjöld fara lækkandi, en farmgjöld standa í stað, þ. e. a. s., fólkið hættir smám saman að nota Esju, eftir því sem samgöngur aukast með útlendu skipunum. Þetta á og þarf að lagfæra. Jeg sje ekki annað ráð vænna til þess að hamla upp á móti útlendri samkepni en það, að koma Esju í hraðferðir. Jeg hefi spurt skipstjórann á Esju um það, hvað margir dagar mundu fara í hverja ferð, með póst og farþega, en án farms. Hann svaraði, að eflaust mætti fella þriðjung þess tíma niður, sem nú fari í hverja ferð, þótt viðkomur væru á 40–45 höfnum. Þetta þýðir með öðrum orðum, að Esja ætti, að minsta kosti allan bjartari hluta árs, að geta farið 3 ferðir á mánuði umhverfis landið með póst og farþega.