17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

5. mál, iðja og iðnaður

Jón Baldvinsson:

Mjer skilst, að eftir brtt. hæstv. ráðh. (JÞ) geti bæjarstjórnir löggilt menn til þess að standa fyrir byggingum, sem ekki eru til þess hæfir. Það geta orðið alt önnur ákvæði í samþyktum bæjarstjórna en í lögunum, og þetta miðar raunar í þá átt að lítilsvirða lögin. Að þessu leyti finst mjer 18. gr. verða allvarhugaverð með breytingu hæstv. ráðh.

Mínum brtt. hefir verið tekið heldur kuldalega, þó að öllum þyki gjöldin að vísu of há í frv. stjórnarinnar. Það er eins og menn haldi, að frv. hljóti að vera ákaflega skynsamlegt, af því það er frá stjórninni. En því fer fjarri, að svo sje. Allir hljóta að sjá, hve órjettlátt er að hafa þessi gjöld svona há. Það eru ýms plögg, sem hið opinbera veitir gildi með áritun yfirvalda, og gjöld fyrir slíkt eru venjulega lág, enda er hjer ekki um annað en formsatriði að ræða.

Hæstv. ráðh. (JÞ) vísaði mjer í frv. út af aðfinslum mínum við 6. brtt. hans. En jeg sje ekki betur en að sú till. sje hreinn og beinn viðauki við greinina. Ákvæði um þetta atriði er hvergi í frv.

Jeg vil enn vekja athygli á brtt. minni við 14. gr., að fjelagarjettindi í sveinafjelagi verði látin jafngilda sveinsbrjefi. Í útlöndum er slík viðurkenning jafnan látin nægja.