29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla að skýra frá því, hvers vegna jeg get ekki verið þessu máli hlyntur. Jeg álít, að samgöngur á sjó sjeu lengra á veg komnar en samgöngur á landi. Mjer er það fullljóst, að afleiðingin af því að verja 250 þús. kr. árlega í þetta strandferðaskip verður sú, að þeim mun minni upphæð verður hægt að verja til samgöngubóta á landi. En það er eins mikil nauðsyn á því fyrir sveitirnar að koma afurðum sínum til kaupstaðar, eins og það er nauðsyn fyrir kauptúnin að hafa samgöngur við hinar stærri hafnir. Jeg get vel viðurkent, að það væri æskilegt að fá annað strandferðaskip, en jeg vil ekki kaupa það á kostnað vega, síma eða brúa. Það er of mikið ógert á þessum sviðum til þess að slík ráðstöfun sje rjettmæt.