28.02.1927
Neðri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

49. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Jón Sigurðsson:

Hv. flm. óskaði eftir því, að andmæli kæmu fram við þessa umr. málsins, svo landbn. ætti kost á að heyra þau og athuga þau. Það er ekki nema sjálfsagt og skylt, að verða við þeim tilmælum.

Í ástæðunum fyrir þessu frv. er það tekið fram, að með því sje ráðin bót á ýmsum stærstu agnúunum, sem á gildandi lögum sjeu. Jeg skal kannast við það, að reynt er að ráða bót á nokkrum annmörkum, sjerstaklega annmörkum, sem vart verður við í nágrenni Reykjavíkur. En um leið og nokkrum einstökum mönnum er veitt rjettarbót, þá eru hundruð eða jafnvel þúsundir manna, sem gerður er mikill órjettur.

Fyrsta atriðið, er jeg vil minnast á, er í 2. gr. frv., þar sem færður er út rjettur ekkju til ábúðar að manninum látnum, þannig, að börn og fósturbörn njóta hans líka. En þegar nánar er að gætt, þá er rjettur barnanna ekkert betur trygður en áður, því að ekkjan nýtur ekki ábúðarrjettarins, nema um lífstíðarábúð sje að ræða. Með þessu er því jarðeigendum gefið undir fótinn með að byggja ekki jarðir sínar til lífstíðar, heldur kanske til eins eða tveggja ára. En þetta hefir auðvitað ekki verið tilgangur hv. flm., og jeg tel ekki æskilegt, að slíkt verði gert.

Þá er annað atriði, sem jeg vil víkja að, en það er, að samþykki viðkomandi sveitarstjórnar þurfi til þess að selja eða flytja burt hey af jörðu, sem er í sjálfsábúð. Hjer virðist vera farið inn á æði hála braut. Það er borið fyrir, að þetta sje gert til þess að jörðin njóti nytjanna. En með sama hætti mætti banna bændum að selja kindur sínar, kýr eða hross, því að hvaða gagn er að heyjunum, ef ekki eru til skepnur til þess að setja á þau? Sveitastjórnirnar eiga með þessum hætti að verða yfirfjárráðendur bænda. Hv. flm. sagði, að þetta mundi ekki skaða einstaka menn, sem selja. En það er nú vitanlegt, að víða er nú rígur og sveitardráttur, og hugsanlegt er, að það gæti orðið til synjunar um sölu, bóndanum til stórtjóns, ef hann ef til vill gæti ekki þess vegna sint hagkvæmu tilboði. Mjer sýnist hjer stefnt inn á mjög varhugaverða braut, með því að svifta menn umráðum eigna sinna, og get jeg ekki greitt slíku atkvæði.

Þá er loks í 1. gr. svo um mælt, að leiguliða skuli heimilt að gera votheysgryfju og áburðarhús á leigujörð sinni og skuli hann fá fult endurgjald fyrir, er hann flytur af jörðinni. Hvergi sjest, að hann þurfi að fá samþykki jarðeigana til þessa, enda bersýnilegt, að honum er ekki ætlað að hafa hönd í bagga með þessu. — Leiguliði getur bygt fjós fyrir 20 kýr, þótt túnið fóðraði aðeins 10 og jörðin væri að allra dómi aðallega fallin til sauðfjárræktar, án þess eigandi, eftir frv., geti nokkuð að gert; hann á bara að þegja og borga brúsann. Þó ábúandi hafi bygt áburðarhús fyrir 30 árum og fari síðan, þá á hann að fá fult endurgjald fyrir, að frádreginni fyrningu. En þegar um steinhús er að ræða, þá er fyrning lítil. Það er talið, að túnasljettur borgi sig á 10 árum. Jeg hefi ekki kynt mjer um áburðarhús, en jeg býst við, að þau borgi töluvert upp í verð sitt við notkun. Með öðrum orðum: hjer er beinlínis gengið á rjett jarðeiganda. Hann er skyldaður til að greiða nokkurn hluta verðs, sem leiguliði er þegar búinn að taka í sinn vasa. Mjer finst, að taka ætti tillit til þess, hve lengi hlutaðeigandi hefir notað jarðabótina. Jeg skal líka benda á, að þetta getur komið mjög meinlega við. Það er ekki fátítt, að ekkjur, sem eiga mörg börn, verða að bregða búi um stundarsakir, af því að þær hafa ekki efni á að búa, en vilja hinsvegar ekki farga jörðinni, vegna barnanna. Í öðru lagi reyna fjárráðamenn barna oft að halda í jarðirnar, barnanna vegna. En á þessar ekkjur og börn eru með þessu frv. lagðar kvaðir, sem óvíst er um, hvort þau fái undir risið, ef gálauslega er með farið. Það gæti vel farið svo, að selja þyrfti jörðina til þess að uppfylla kröfur leiguliða.

Það mætti margt fleira um smærri atriði þessa frv. segja. En af því að þetta er 1. umr., þá hirði jeg ekki um það nú. Það er magt í því, sem þarf verulegrar lagfæringar við. Jeg get getið þess í sambandi við 4. gr., að það er alls ekki tekið fram, að þessar byggingar sjeu í samræmi við þarfir jarðarinnar. Jarðeigandi verður að gera svo vel og borga, þó að þær sjeu enganveginn samrýmanlegar stærð eða gæðum jarðarinnar. Leiguliða getur t. d. dottið í hug að reka á jörðinni stærðar kúabú og bygt áburðarhús með tilliti til þess, þótt jörðin sje miklu betur fallin til sauðfjárræktar. En eigi að síður verður jarðeigandi að kaupa þessa byggingu fullu verði.