11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Magnús Jónsson:

Þetta mál, sem hjer liggur nú fyrir til umræðu, er í sjálfu sjer ekki svo mikils virði að eyða um það mörgum orðum. Það er satt, sem sagt hefir verið, að það er gamall kunningi. Þessi hv. deild má muna þá vanvirðu, sem hún hafði af þessu máli í fyrra, þegar svo að segja öll deildin varð, aldrei þessu vant, sammála. Það kunni ekki góðri lukku að stýra. fremur en annars, þegar Heródes og Pílatus verða vinir á einum degi.

Það, sem gerir þetta mál þess virði, að taka til máls í því, er það, að það gefur gott tækifæri til að rifja upp ýmislegt í sambandi við það, ýmislegt, sem þetta happamál hefir komið af stað. Jeg lít svo á, að þeir atburðir, sem gerst hafa út af þessu áburðarmáli, sjeu þess eðlis, að Alþingi megi ekki láta þá afskiftalausa eða þegja við þeim. Mjer þótti því vænt um að heyra, að hv. 2. þm. N.-M. tók þar fast í strenginn, og fanst mjer þó ekki vera að neinu leyti um of. En alt, sem hann sagði um búnaðarfjelagsstjórnina og framferði hennar í þessu máli og afskifti búnaðarþings, var fullkomlega á rökum bygt og síst ofsagt. Jeg býst ekki við, að jeg bæti neitt um ræðu hv. þm. N.-M.; en jeg kann ekki við, að láta rödd hans hljóma hjer eina, þó að hann sje raddmaður hinn besti, eins og kunnugt er — því að það gæfi skakka hugmynd um málið. Það væri leitt, að mál, sem jafnmikið og verðskuldað hneyksli hefir vakið um alt land, væri ekki orðað nema af einum þingmanni.

Það verður að gæta að, hvað hjer er í húfi og hverjir eiga í hlut. Búnaðarfjelag Íslands er það fjelag hjer á landi, sem mest er haft við allra fjelaga í fjárframlögum og trúnaðarmálum öllum. Það fær á ári hverju til þarfa sinna mjög stóra fjárhæð, eftir okkar mælikvarða, og auk þess er mjög miklu fje ráðstafað eftir þess tillögum. Það hefir heilan hóp embættismanna, því er falin umsjón merkustu mála allra á landbúnaðar- og jarðræktarsviðinu. Lög þess eru fljettuð inn í landslög á þann hátt, að einsdæmi mun vera um „privat“-fjelag. Það hefir sitt eigið þing, virðulega samkomu — sjálft Alþingi tekur þátt í myndun stjórnar þess, og því er gefið svo mikið vald yfir öðrum aðalatvinnuvegi landsmanna sem mest má verða. Því er ekki sama, hvernig þeir, sem völd hafa í þessari stofnun, fara með þau. Stjórn þessa fjelags er ákaflega vandgert. Það er horft á, hvað þar fer fram, og heimtað, að alt sje þar gert með fullri einurð og rjettvísi.

Hvernig hefir nú verið um þetta fjelag síðasta árið eða vel það?

Þeir fáheyrðu viðburðir hafa gerst, að þetta mikla og mæta fjelag sýnist hafa verið gert að nokkurskonar leiksoppi. Skal jeg ekkert fara bak við tjöldin eða reyna að finna, hvaða hvatir hafa verið þar að verki. En í dagsljósinu gerist það, að smávægilegt viðskiftamál, umboð fyrir áburðarverksmiðju í Noregi, sem hefir selt hingað nokkur hundruð smálestir af kalksaltpjetri, er notað til þess að hefja heila styrjöld.

Jeg ætla ekki að fara hjer út í forsögu þessa máls. Jeg rakti hana hjer í fyrra á þingi, og þó að mín rödd væri þá kveðin niður með básúnuhljómi nefndar og stjórnar og undirspili ýmsra hv. þingmanna, þá hafa nú atvikin, hjer sem oftar, látið sannleikann koma í ljós og staðfest mína ræðu frá í fyrra, að jeg hygg í öllum atriðum. Búnaðarfjelagsstjórnin, sem þá var, hafði sýnt tómlæti og óafsakanlegt hirðuleysi, og á jeg sjerstaklega við formanninn. Hæstv. atvrh. hefir tekið í þann streng talsvert sterkar en jeg. Og nú ætlaði fjelagsstjórnin að fara að bæta upp vanrækslu sína, og tókst þá hvorki betur nje ver en það, að síðari villan var verri en sú fyrri. Því að það er gömul saga, að ein syndin býður annari heim. Landbúnaðarnefndir hjálpuðu því miður til að leggja smiðshöggið á þetta. Í stjórn búnaðarfjelagsins sýnast þá hafa verið valdir menn með það eitt fyrir augum, að framkvæma það verk, sem menn í blindri ofstæki vildu hafa fram — að reka Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra frá. Jeg legg með þessu engan dóm á þessa menn. Þeir geta verið og eru sjálfsagt mjög góðir menn á sínu sviði, og þó ólíkir; því að eins og kunnugt er um annan, þá er hann ekki búmaður nema í munninum, það er að segja, hann hefir skrifað mikið og talað um búskap, en ekki búið sjálfur — ræktar að vísu mest pólitískar fjólur í blaði einu, eða að minsta kosti var ósköpin öll talað um fjólur á einu tímabili — en hinn er alkunnur jarðræktarmaður, búforkur og víkingur að dugnaði í landbúnaði. En að þessir tveir menn voru valdir úr hópi annara duglegra manna og vel hæfra, var það vegna þess, að nú var þetta þokkalega verk, sem vinna átti? Því að öll jarðrækt, skepnuhöld og annað, sem fyrir Búnaðarfjelaginu lá, var nú orðið smátt hjá því, að losna við þennan búnaðarmálastjóra, sem til skamms tíma hafði setið á goðastalli og verið hafður til alls þess, sem mestur vandi þótti.

Það sem þú gerir, það gerðu fljótt, var sagt forðum. Þessi nýja stjórn ljet ekki á sjer standa. Jeg veit ekki, hvort liðin var meira en vika frá skipun þeirra, þegar búnaðarmálastjóra var sagt upp. Hann var nú ráðinn, að jeg hygg, með 6 mánaða uppsagnarfresti og miðað við áramót. Stóð vel á því að segja honum upp, því að þetta var nálægt miðju ári, eða síðast í maí. En slíkt mátti ekki líðast. Hann gat gert af sjer alt of mikinn óskunda fram til áramóta! Hann varð að fara strax upp á stundina. Kaup var honum þó borgað til áramóta, og er það fyrsta smáupphæðin, sem hrotið hefir út í vitleysu út af öllu þessu ráðlagi — og hefir stundum smærri upphæð verið talin eftir í þessari hv. deild. En maðurinn var í sínum rjetti að fá launin, og þá var ekki hægt neitt við þessu að gera.

Vitnisburðirnir, sem hann hefir fengið frá þeim tíma, hafa ekki verið allir fagrir. Þetta var voðamaður. Landbn. Nd. reið á vaðið með þennan munnsöfnuð. Stjórn búnaðarfjelagsins kom á eftir. Í skýrslu, sem hún birti sem einskonar greinargerð á því, sem hún hefir gert, var hún ákaflega harðorð til þessa manns. Hann hafði farið á bak við stjórnina. Jeg sýndi fram á það í fyrra, hvers vegna svo var, nefnilega, að hún sá ekkert og var ekkert annað en tómt bak. Hann hafði sýnt óheilindi og illa samvinnu, stungið brjefum undir stól og framið eitt og annað, sem gerði hann alóhæfan í stöðu sína. Jeg get þessa, og væri í raun og veru rjett að taka upp ýmsar klausur úr þessum sakargiftaskrám, til þess að sýna heilindin í fleðulátunum síðar.

Um málið urðu talsverðar blaðadeilur, og yfirleitt vakti það, eins og vonlegt var, mikla athygli. Menn biðu því með talsverðri óþreyju þeirrar hátíðlegu stundar, þegar búnaðarþing kæmi saman og skæri úr öllum þessum þrætum. Þegar í byrjun þings er settur hæstirjettur í málinu, rannsóknarnefnd. Hófst nú sá málarekstur með þeim viðeigandi hætti, að einn úr stjórn búnaðarfjelagsins neitaði að verða við þeim sjálfsögðu tilmælum að sitja hjá nefndarkosningunni. Jeg hefi heyrt, að búnaðarfjelagstjórnin hafi sjálf átt uppástunguna að þeim mönnum, sem setja skyldi í þessa nefnd. (TrÞ: Hún var kosin skriflega af öllum fulltrúum.) Hún gat hafa komið með uppástungur, þó að kosið væri skriflega. Jeg býst við, að það mundu margir málsaðilar oft óska, að þeir væru í þeim sporum, að velja sjálfir rannsóknardómara í sitt eigið mál. Þetta alt var fyrsta hneykslið í meðferð málsins. Annar aðilinn stingur sjálfur upp á nefndarmönnum og neitar að sitja hjá kosningunni. Hjer á þingi er mönnum bannað að greiða atkv. um hve litla fjárhæð sem er til sjálfs sín. Í öllum dómstólum er þess gætt vandlega, að ekki dæmi venslamenn málsaðila. En í þessari nefnd var svo sem ekki verið að forðast slíkt. Það er annað, sem hneykslar mig í meðferð málsins. Jeg er ekki að segja, að þetta, hafi komið hjer að sök, en þetta er æfagömul rjettarvenja, bygð á reynslu margra alda; og síst má gleyma slíkum varnarráðstöfunum, er um slíkt hitamál er að ræða, alt meira og minna mengað af flokkadrætti, deilum og illkvitni.

Svo bíður búnaðarþing, og altaf situr nefndin á rökstólum. Jeg og margir fleiri biðu óþreyjufullir eftir úrskurði nefndarinnar. Hvernig sem hann hefði orðið, þá mátti þó vænta þar ítarlegs álits um málið, þar sem öll gögn væru leidd í dagsljósið. Þar hefði t. d. átt að fást skorið úr því hneyksli, sem borið hefir verið upp á búnaðarmálastjóra, en aðrir neitað, að hann hafi stungið undir stól brjefum til Búnaðarfjelagsstjórnarinnar. Hún talaði, að mig minnir, um þrjú brjef frá Norsk Hydro og eitt frá Mjólkurfjelagi Reykjavíkur. En úr annari átt hefi jeg heyrt, að það sje aðeins eitt brjef frá Norsk Hydro, sem ekki kom fram; og þá er sú skýring næg, að brjefið hafi farist á leiðinni. Það getur altaf komið fyrir um eitt brjef. En það væri undarlegt, að heill kópur brjefa um eitt og sama mál mislærist. Jeg verð að segja, að þetta varðar æru þess, sem slíkum sökum er borinn, og er því stórmál, þó að það sje kanske ekki mjög stórt í sjálfu sjer. Yfirleitt er það fullkomlega rjett, sem hv. 2. þm. Rang. sagði um málið í fyrra út af dylgjum í nál. hv. landbn.: „Ef hann (Sig. Sig.) er sannur að sök, þá á hann að bæta fyrir, en ef hann er saklaus, á hann að fá að koma vörnum fyrir sig og fá uppreisn, og nefndin er þá skyld að veita honum hana.“ — Þetta átti jafnvel heima og ekki síður um þessa rannsóknarnefnd.

En hvað verður svo? Hvernig rækti nefndin þessa sjálfsögðu skyldu? Þannig, að hún ljet segja sjer að þegja. Hún lauk ekki störfum. Hún lagði ekki fram neitt álit. Hún kvað ekki upp neinn dóm. Allar grunsemdir, allar dylgjur, öll óvissa, allur þessi glypjulegi vefur, er ósnertur. Menn eiga aldrei að fá að vita um það. Engar sættir eða fleðulæti geta breitt yfir þær grunsemdir, sem vaktar hafa verið. Töluð orð verða ekki aftur tekin. Það þarf að falla dómsúrskurður í málinu. Menn eiga heimting á að fá að vita sannleiknum. Það eru ekki ábyrgðarlausir menn, sem settir eru í stjórn slíks fjelags sem Búnaðarfjelags Íslands. — Og svo vandlega var stungið upp í nefndarmennina, að þegar einhver ávæningur heyrðist í einu blaði hjer í bænum af því, að nefndin hefði komist að einhverri niðurstöðu um málið, þá er fregnin um þetta ódæði símuð á eftir nefndarmönnunum út á land og þeir síma aftur og bera harðlega á móti. Ef einhver einstakur maður í nefndinni hafi komist að einhverri niðurstöðu um málið, þá sje það hans sök og verði algerlega að koma niður á honum sjálfum! — Hvað segja menn um svona hæstarjett?

Þetta er heigulsháttur og ekkert annað. Formaður búnaðarfjelagsins byrjaði á þessari heigulsaðferð, er hann skaut frávikning búnaðarmálastjóra af sjer og á búnaðarþing. Hinir voru þó þeir drengir, að taka á sig ábyrgðina.

Þessi dæmalausa niðurstaða, eða hvað maður á að kalla það hjá rannsóknarnefndinni, hlýtur að skilja eftir ljótar grunsemdir ofan á alt annað. Fjelagsstjórnin stingur upp á mönnum og kýs þá sjálf. Undir venjulegum kringumstæðum mundu menn telja slíka nefnd vilhalla. Og þegar hún svo hlýðir því boði, að komast ekki að neinni niðurstöðu, þá staðfestir það þann grun. Þegar nú slík nefnd hefir ekkert svar við spurningunni, sem fyrir hana var lögð, þá bendir það óneitanlega ekki í þá átt, að málskjölin hafi verið heppileg fyrir málstað stjórnarinnar, eða nefndin hafi treyst sjer til að hvítþvo skjöld stjórnar búnaðarfjelagsins í þessu máli.

Þá er að minnast á það, sem stakk upp í nefndina, sem sje málalokin, sættargerðina miklu og alla þá grautargerð.

Það er auðvitað aldrei nema fallegt að vera sáttfús og kunna að rjetta fram hönd til vináttu og bræðralags, gleyma misgerðum og breiða yfir ávirðingar. En í opinberum málum má það oft og einatt ekki viðgangast, og margar stjórnir og stórir herrar hafa fallið á slíkum óheilindum. Það getur oft verið lakasta lausn málanna, og ekkert fallegt í því, nema á yfirborðinu. Það getur verið svikamylla, til þess að fela óheilindi og rangsleitni. Það getur verið samkomulag um að fela og leynast. Það getur verið ráð þess, er máttarmeiri er, til þess að hafa hinn góðan. Jeg skal ekkert um það segja, að neinu þessu hafi verið til að dreifa í þessu tilfelli. Jeg veit bara, að þessi lausn málsins var ákaflega ófullnægjandi og ber valdhöfunum í Búnaðarfjelagi Íslands mjög leiðan vitnisburð.

Háttv. 2. þm. N.-M. dró fram ýms atriði í þessu máli. Ekkert er getið um forsendur þessa Fróðafriðar, hvort búnaðarmálastjóri bað fyrirgefningar, eða hvort fjelagsstjórnin játaði syndir sínar. Einhverjar sakir hlutu þó að vera. Þar sem manni er vikið frá embætti, er annarhvor sekur, sá sem framkvæmir, eða sá sem fyrir verður, og sakir verða á einhvern hátt að fá sín málalok, fyrirgefning eða fullnægju. Annars slæðast þær til eilífðarnóns og valda spellum. Við verðum að heimta að fá að vita, hvað af sökunum var gert í þessu máli. Úr því við fáum ekki að vita, hvar sökin lá, þá heimtum við að fá þó að vita, hvernig alt var jafnað.

Og þá er það lausnin. Hún er eins ófullnægjandi og hægt er að hugsa sjer. Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri er, eftir að hafa verið settur af, settur inn í stöðu sína aftur og þó ekki settur í hana. Hann á að vera þar helmingur, hvort heldur stærri eða minni er ekki upplýst. Hann á að vera nokkurskonar utanríkisráðherra, en hinn, mótpáfinn, á að vera innanríkisráðherra. En þá er eitt mikilsvert spursmál í þessu sambandi, og það er, hvor þeirra hjónaleysanna á búnaðarfjelagsbúinu skuli nú hafa með höndum áburðarverslunina, þetta starf, sem varð S. S. til svo mikillar syndar. Ef hann á að hafa hana, þá getur hann sagt, að hann hafi svínbeygt þá, sem mestir eru í Búnaðarfjelagi Íslands, og þeir ættu ekki að geta framar litið upp á nokkurn mann. En ef hann á ekki að hafa hana, skilst mjer uppreisn sú, er hann hefir fengið, vera harla rýr og illa verð launanna, sem hann fær. — Jeg veit ekki vel, hvernig búnaðarfjelagsstjórnin ætlar að fara að skamta honum verkefnið, án þess að fella nokkurskonar úrskurð í málinu sjálfu. En svo er annað. Hefir búnaðarþing haft nokkra heimild til þess að gera þessa lausn á málinu? Eða hafa búnaðarþing og búnaðarfjelagsstjórn tekið hjer höndum saman um að fremja lögleysu? Samkvæmt 12. gr. fjelagslaganna á að skipa framkvæmdastjóra, er nefnist búnaðarmálastjóri. Hjer er bersýnilega talað svo sem hann sje einn. Það er engin heimild til að hafa þá tvo eða fleiri. Til þess hefði þurft að gera lagabreytingu. Þetta mætti kanske kalla formssök og hægt að klóra sig út úr því, ef ekki fylgdu aukin útgjöld. En nú þarf að borga mismun á búnaðarmálastjóralaunum og ráðunautslaunum árlega, út af þessu kjarkleysi, eða hvað það á að heita. Er búnaðarfjelagið alveg einrátt í þessu efni? Gæti það skipað alla sína starfsmenn í búnaðarmálastjórastöður, ef því dytti það í hug, og varið til þess fje? Jeg er ekki svo kunnugur, að jeg muni, hvort nokkurt leyfi ráðherra þarf til slíkra ráðstafana. En ef svo er, vonast jeg til, að hlutaðeigandi ráðh. í hæstv. stjórn, sem jeg ber svo mikið traust til, hafi tekið eða taki hjer í taumana. En jeg er hræddur um, að hann hafi ef til vill ekki úrskurðarvald um þetta. (Atvrh. MG: Eða kæri sig ekki um að skifta sjer af því). — Það var jeg þó að vona að hann kærði sig um, með því að hæstv. ráðh. á sæti í svo ágætri stjórn.

Alt var þetta framkvæmt á lokuðum fundi. Það er svo sem auðvitað, að alt þetta makk er eins og útblásinn líknabelgur, sem springur með hvelli, ef stungið er á með títuprjóni. Þeir hafa ekki kært sig um neina bersynduga inn í þetta samfjelag heilagra. Það má heyra það á lofsöng hv. formanns búnaðarfjelagsins í „Tímanum“. Enginn má vita upp á víst, hvernig þetta var. Það má ekki anda á víravirkið; þetta er svo nýtt og svo afskaplega fínt og veikt.

Öll þessi saga er svo ónotalega hneyksliskend. Það er sorglegt að sjá slíka stofnun sem Búnaðarfjelag Íslands lenda í þessum sviftivindum, þar sem fyrst er öllu umturnað, og svo má í hvorugan fótinn stíga, til þess að stiga ekki ofan á líkþornin á neinum, sem á málinu eru búnir að skemma sig. Búnaðarfjelagsstjórnin, eða þeir tveir, sem við mál þetta voru riðnir, geta nú ekkert sómastrik gert meira en það, að losa stöður sinar og vita, hvort ekki er hægt að bjarga fjelaginu. Þriðji maðurinn, sem var í stjórninni, er nú farinn. Fyrsta tækifærið sýnist hafa verið notað til þess að verða af með hann. Þyrfti að halda svo áfram.

Sigurður Sigurðsson hefir verið borinn þeim sökum, að hann verður að fá sinn dóm til sýknu eða sakfellingar, þ. e. a. s.: þau orð hafa verið um hann höfð og hann sjálfur gert þær kröfur. Hann segir í bók sinni um málið:

„Jeg geri þær kröfur, að það (búnaðarfjel.) rannsaki þær ákærur, sem bornar hafa verið fram af stjórn búnaðarfjelagsins gegn mjer. Þær eru ærumeiðandi, og þess vegna hefi jeg rjett til að æskja skýlausrar umsagnar og úrskurðar.“ — Þetta er alveg rjett; og hann staðfesti þessi ummæli sín á búnaðarþingi með því að greiða einn atkv. á móti þeirri ályktun, að nefndin skyldi engu áliti skila. Hann vildi fá úrskurð hennar.

Jeg hefi talað lengur en jeg ætlaði, En jeg hefi ljett á samviskunni. Jeg er ekki viss um, að jeg taki aftur til máls, þó að einhverju verði að mjer vikið, því að það, sem þarf í þessu máli, er ekki að karpa fram og aftur, heldur segja söguna eins og hún hefir gengið og framkvæma það, sem framkvæma þarf. Það má ekki vera síðasta orðið, að form. búnaðarfjelagsins hælist um í blaði sínu út af því, að nú sje alt búið og nú skuli andstæðingarnir leggja niður rófuna og þegja.