23.02.1927
Efri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í C-deild Alþingistíðinda. (3120)

35. mál, einkasala á saltfisk

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 2. þm. S.-M. beindi fyrirspurn til atvrh. um árangur af starfi fiskifulltrúans á Spáni, og gat hann þess, að ef ekki fengist fullnægjandi svar nú, mundi hann bera fram þessa fyrirspurn seinna, á þann hátt, sem þingsköp mæla fyrir. Hv. þm. (IP) gat sjeð, að atvrh. er ekki viðstaddur. (IP: Jeg tók það fram). Hv. þm. gat þá ekki búist við að fá neitt svar, enda er það yfirleitt svo, að þingmenn mega ekki gera ráð fyrir, að stjórnin sje viðbúin að gefa skýrslur undireins og fyrirspurnir koma. Það þarf mjög oft að leita upplýsinga hjá mönnum og stofnunum utan stjórnarráðsins.