29.04.1927
Efri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3330)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Jónas Jónsson:

Jeg held, að það hafi verið alveg óþarft fyrir hv. 2. landsk. (IHB) að fara að rannsaka þetta mál. En það hefir þó orðið til gagns fyrir málefnið, því að það skýrist þá enn þá betur, að hjer er um alveg ófarsvaranlega framkomu að ræða frá yfirmanni mentaskólans í garð þessara námsmanna.

Jeg vil benda hv. 2. landsk. (IHB) á það, að ráðuneytið hefir leitað álits rektors mentaskólans um prófaðstöðu Akureyrarskóla, án þess að tilefni væri til að spyrja rektor um það, því að það var vitanlega þingsins og stjórnarinnar að taka ákvörðun um það, og rektor mentaskólans kom það alls ekkert við. Ráðuneytið leitaði til rektors, og brjef hans var hjer til meðferðar, og hygg jeg, að ómögulegt sje að bera á móti því, að í þessu brjefi kom fram megn kali til Akureyrarskólans og óverðskulduð vantrú á honum, enda varð það niðurstaðan, að rektor fór að ráðleggja þingi og stjórn, hvernig skyldi leysa úr málinu, sem sje með því að neita um leyfið, og þar ofan á bætist svo sú upplýsing frá hv. 2. landsk., sem stórspillir aðstöðu rektors, að það er ekki fyrir einu ári, heldur tveim árum farið til eins kennara, sem venjulega hefir tekið pilta til kenslu, og einmitt í þeirri grein, sem utanskólamenn telja sig venjulega hafa allra mesta þörf fyrir kenslu í. En að yfirmaður skólans sýnir þá búmensku að leita til kennarans ári áður, er vottur um rótgróinn kala, bæði til skólans og þessara pilta.

Jeg þykist vita, að þessi gamla beiðni rektors hafi verið gerð af óvinsamlegri tilfinningu. En jeg vænti, að sú opinbera „kritik“, sem þessi aðferð hefir orðið fyrir hjer á þingi, og við það, sem hv. 2. landsk. (IHB) sagði, því að það lá játning í orðum þm., verði til þess, að forstöðumaður mentaskólans og allir samherjar hans snúi nú við blaðinu og hætti að láta hleypidóma og fávisku ráða í þessu máli.