07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3355)

127. mál, ríkisrekstur útvarps

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla aðeins að gefa svolitlar upplýsingar um aðgerðir á útvarpstækjunum. Það er svo, að ekki er fyrir almenning að gera við þau. Það er oft, sem fagmaður getur gert við tæki á svipstundu, þótt ólærður maður í þessari grein geti það alls ekki, hversu langan tíma sem hann hefir. Mjer er ekki fyllilega kunnugt um, hvort tækin hjer eru góð, en jeg veit það, að í öðrum löndum koma fram samskonar kvartanir og hjer. Það er einmitt einn kosturinn við að hafa útvarpið í sambandi við landssímann, að þá er mun hægara að fá gert við þau. Þá getur stöðvarstjóri á hverjum stað kent mönnum að gera við algengustu bilanir.

Viðvíkjandi því, að sumstaðar á landinu heyrist ekkert, þá skal jeg viðurkenna, að stöðin er of lítil. En það er sama, hvað stóra stöð við fáum, það verða samt altaf svonefndir „dauðir blettir“ hjer og þar, þar sem ekkert heyrist. Í Osló til dæmis er mjög stór „broadcasting“-stöð, en á stað, sem er 10 mílur frá Osló, heyrist ekkert, þó að alt í kring megi heyra og jafnvel mörg hundruð mílna í burtu. Það er ekki hægt að komast af með eina stöð, ef á að heyrast um alt land.

Í Osló í fyrra var jeg boðinn af British North-Westem Electric að hlusta á þeirra eigin stöð. En þegar jeg kom, heyrðist ekkert. Eigendurnir sögðu, að þetta stafaði af truflunum í borginni og kæmi fyrir svo að segja í viku hverri. „Við vitum ekki, hvernig við eigum að fyrirbyggja það“, sögðu þeir, „við getum að vísu styrkt hljóðið eins og við viljum, en þá margföldum við um leið hávaðann í loftinu“.

Þetta vildi jeg aðeins taka fram, til að sýna, að þó að stundum sjeu mistök á, er það ekki altaf stöðinni að kenna. Jeg vil vekja athygli á því, að loftskeytastöðin hjer truflar afskaplega, einkum gamla stöðin. Gerð hennar er orðin úrelt, og er ómögulegt að heyra neitt í útvarpinu, þegar hún er notuð.