08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (3401)

102. mál, rannsókn á hafnarbótum og vörnum gegn snjóflóðum

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg þarf ekki að orðlengja um mál þetta, því að í greinargerðinni á þskj. 257 eru færðar fram þær ástæður, er jeg get látið nægja. Jeg veit að sönnu, að farið hefir fram rannsókn á því, á hvern hátt hægt sje að koma í veg fyrir snjóflóð á þessum stað, en hún var svo ónákvæm, að jeg get ekki talið hana fullnægjandi. Það kom þangað verkfræðingur og gerði mjög litlar athuganir, og á öðrum stað en þar, sem snjóflóðahættan er mest. Till. hans mun hafa verið sú, að flytja húsin af hættusvæðinu. Ekki þurfti nú að rannsaka neitt til að gera slíka till. Það mátti gera hana án allrar athugunar.

Á þeim stað, þar sem snjóflóðahættan er mest, er besta uppsátrið í Hnífsdal, og verður þar ekki komist af án þess að nota það. Þarna eru líka tvö stórhýsi, auk fiskihúsa, og ef útvegur í Hnífsdal á að haldast við, verða smærri bátar að hafa uppsátur einmitt á þessum stað.