26.02.1927
Neðri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (3426)

42. mál, milliþinganefndir fyrir tolla- og skattalöggjöf

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg verð að segja, að mjer virðist þessi þáltill. ekki nauðsynleg. Hún fer í þá átt, að skipuð sje nefnd til þess að íhuga tolla- og skattalöggjöf landsins. En það skortir alls ekki þekkingu á því, hvernig slík löggjöf eigi að vera. Í erlendum fræðibókum er auðvelt að sjá, hvaða fyrirkomulag í þessu efni er álitið rjettlátast. En meðan núverandi stjórn situr við völd, stendur hún í vegi fyrir því fyrirkomulagi, og hún mundi jafnt gera það, þótt málið væri rannsakað. Eina leiðin til að breyta þessari löggjöf er sú að steypa stjórninni. Þá væri hægt að fara þær leiðir, sem alment eru viðurkendar af frjálslyndum flokkum í nágrannalöndunum. Svona till. er ekki annað en uppgjöf í málinu, borin fram til þess að flokkurinn geti sagt við næstu kosningar: Þessi mál þarf ekki að ræða, þau eru í nefnd. Jeg er mótfallinn því, að málið sje svæft á þennan hátt.