25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (3510)

114. mál, Landsbanki Íslands setji á fót útibú í Vestmannaeyjum

Jón Baldvinsson:

Það verður ekki annað sagt en að hæstv. ráðh. (JÞ) hafi tekið vel undir þessa till. hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Hann fann að vísu að orðalaginu, en jeg held það hafi ekki verið alvarlega meint; enda liggur í hlutarins eðli, að útibúinu verður ekki neitað, þótt það verði ekki stofnað fyr en 2. jan. 1928. Vestmannaeyingar munu sennilega taka því fegins hendi.

Andmæli hafa komið fram frá hv. þm. Snæf. (HSteins) og hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg skil vel, að það er dálítil gremja hjá hv. þm. Snæf. yfir að vera búinn að bíða eftir útibúinu svona mörg ár, sem þingið samþ. að skora á stjórnina að koma upp. En þrátt fyrir það væri kannske ekki ástæða til fyrir hann að leggja á móti þessari till. Það má sem sje búast við, ef sæmileg ár koma í Vestmannaeyjum, að svo geti farið, að útibúið fæddi sig sjálft, ef svo mætti að orði komast. Mjer er sagt, að útibú Íslandsbanka þar hafi mestmegnis síðustu ár lifað á sínum sparisjóði.

En það var hv. þm. Str. (TrÞ), sem lagði fastlega á móti þessari till. Hann taldi mjög óforsvaranlegt að samþ. hana; áleit, að eftir þeirri reynslu, sem fengin er af útibúum, sje það ekki glæsilegt fyrir Landsbankann að leggja út í nýja slíka stofnun. En hv. þm. (TrÞ), sem er endurskoðandi Landsbankans, veit það hverjum manni betur, að í raun og veru er það Landsbankinn, sem „finanserar“ Íslandsbanka sem stendur, og náttúrlega útibú hans líka; svo að það er ekki nema eðlilegt, að Landsbankinn noti sjálfur þessa peninga líka á þeim stöðum, þar sem útibú eru ekki enn þá komin upp frá honum, en er mikil þörf, eins og t. d. í Vestmannaeyjum.

Það er kunnugt, að hv. þm. Str. (TrÞ) vill aðallega beina peningastraumnum til sveitanna og ræktunarinnar. En það er sannast að segja, að landbúnaðurinn fer ekki varhluta af þeim fjárveitingum, sem Alþingi hefir yfir að ráða.

Það kom fram hjá hv. þm. Snæf. (HSteins), og óbeint í ræðu hv. þm. Vestm. (JJós), að honum (JJós) hefði ekki verið falið málið. Þar við er að athuga, að landskjörnir þm. eiga ítök í hverju kjördæmi. Alþýðuflokkurinn á ekki lítinn hóp kjósenda í Vestmannaeyjum, og jeg tel mig þingmann þeirra eins og annara og ber fram málefni, sem frá þeim kunna að koma, þrátt fyrir það, að Eyjarnar eiga sinn sjerstaka þingmann. Jeg veit, að hv. þm. tekur ekki sem neina móðgun, að við höfum flutt till. þessa. (JJós: Alls ekki. Fanst þingmanninum það koma fram í minni ræðu?). Nei; en jeg segi sem svo.

Hv. þm. Str. vildi jeg segja það, að þótt útibú Landsbankans hafi ekki gengið sem best, þá verður ekki hætt við að setja upp útibú. Og þarna er staður, sem hægt er að sanna með tölum, að hefir mikla framleiðslu, svo að það er miklu meiri ástæða til að hafa þar tvö útibú en sumstaðar annarsstaðar. Peningaverslunin er svo mikil og framleiðslan, að á sínum tíma voru sparisjóðsinnlög þar svo mikil, eins og jeg gat um, að þau gátu fætt bankann.

Jeg vænti því, að þrátt fyrir mótmæli hv. þm. Snæf. og hv. þm. Str. verði þessi till. samþ. og hæstv. stjórn geri sitt til þess að koma henni í framkvæmd sem fyrst.

Jeg hefi ekki talað við stjórn Landsbankans um þetta og veit ekki, hvort hv. meðflm. minn (HjV) hefir gert það. Jeg álít, að þessi mál eigi að ganga þessa boðleið, að vera borin fram í þinginu, og ríkisstjórnin eigi á eftir að semja við bankann. Það hefði verið skakt að fara fyrst til bankastjórnarinnar.