09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (3591)

128. mál, sparnaðarnefndir

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg verð að játa, að í þessari ræðu hv. flm. fekk jeg ekki miklar upplýsingar um það, hvaða starfsvið þessari nefnd er ætlað. Það kom ekki einu sinni fram, hvernig ætti að kjósa nefndina eða hver ætti að gera það. Till. bendir helst til þess, að hv. Ed. eigi að gera það, enda þótt það verði engan veginn sjeð með vissu. Jeg vildi gjarnan mega spyrja hv. flm. strax um þetta atriði. (JJ: Jeg svara því í næstu ræðu). Nú, hv. flm. er ekki búinn að hugsa málið enn þá. Ekki er undirbúningurinn of mikill. — Jeg mun þá fyrst um sinn gera ráð fyrir, að þessi hv. deild eigi að framkvæma kosninguna, því að mjer virðist, að till., sem aðeins fer gegnum aðra þingdeildina, geti ekki skuldbundið hina deildina eða sameinað þing.

Jeg heyrði, að hv. flm. gerði ráð fyrir, að 3 þingmenn yrðu kosnir í nefndina. Í till. er hvergi talað um þingmenn. (JJ: Það þurfa ekki frekar að vera þingmenn en aðrir). Hv. flm. tók fram, að 3 þingmenn mundu fást kauplaust. — Þetta atriði sýnir einnig flaustrið og vanhugsunina í till.

Það er af ýmsum ástæðum ákaflega nauðsynlegt að reyna að lækka útgjöld ríkissjóðs, og þá einkum rekstrarkostnað við fyrirtæki og stofnanir ríkisins. Þarna hvílir á ríkinu, eins og öðrum atvinnurekendum, sú krafa, að gæta þess, að innan hæfilegs tíma hafi allur tilkostnaður lækkað í samræmi við hækkað peningagengi. Á hinu hefi jeg enga trú, að með allskonar tilskákun á embættaskipun frá því, sem nú er hjer á landi, megi lækka útgjöld ríkissjóðs sem neinu nemur. Miklu líklegra tel jeg, að slíkt fálm yrði til þess að gera embættisfærsluna dýrari. Jeg skal t. d. nefna það, sem hv. flm. talaði um í sambandi við annað mál nýlega, að setja nýjan embættismann yfir landssímastjóra og póstmeistara. (JJ: Jeg hefi aldrei talað orð um það). Ójú. Hv. þm. er bara búinn að gleyma því; þetta var í umr. um sameining póststöðva og símstöðva. (JJ: Sú till, var í hv. Nd., og þar hefi jeg ekki málfrelsi). Það má vera, að þetta sje rjett hjá hv. þm. (JJ). En hafi það ekki verið hann sjálfur, hefir það verið einhver af hans allra nánustu fylgifiskum, sennilega hv. 1. þm. Ám. (MT).

Þegar menn kynna sjer útgjöld ríkissjóðs nákvæmlega, svo sem jeg hefi haft nokkurt tækifæri til, þá sjá þeir, að það eru ekki embættismannalaunin, sem mest draga til sín, heldur er það kostnaðurinn við hinar og þessar stofnanir, sem ríkissjóður hefir með höndum. Embættismenn eru áreiðanlega ekki mikið fleiri en minst verður komist af með; um póst og síma er mjer sjerstaklega kunnugt, að þar er mannahald sparað eins og frekast er unt. En með því að fara vel í gegnum hin margháttuðu útgjöld til hinna og þessara stofnana og starfrækslu, hygg jeg, að margt mætti lagfæra. En það starf er þess eðlis, að jeg geri ekki ráð fyrir, að þriggja manna nefnd, sem starfaði launalaust, gæti miklu áorkað. Það eina, sem dygði, væri að fá menn til „krítiskrar“ endurskoðunar, einn eða fleiri. Með því að fara í gegnum sundurliðaða reikninga stofnananna, ætti að mega benda þeim á ýmislegt, sem hægt væri að færa niður. Jeg óttast því, að till. hv. 1. landsk. (JJ) yrði til að svæfa framkvæmdir í þessu góða máli, sem jeg sje að hann hefir löngun til að styrkja. Jeg ætla ekki að setja mig neitt sjerstaklega á móti því, að þessi nefnd verði kosin. En jeg held, að rjett sje að segja það hreinskilnislega, að ekki muni gott að finna þá þrjá þm., sem án þóknunar geti snúið sjer svo að þessu starfi, að nokkur von sje um árangur.

Hv. flm. sagði, að menn væru uggandi um, að afkoma ríkissjóðs yrði þannig, að hann gæti ekki annað en haldið uppi embættisfærslunni og greitt vexti og afborganir af lánum sínum. En það er ekki svo langt að minnast. Það eru ekki nema þrjú ár síðan þetta ástand var í landinu, og hafði þá verið um hríð. Og jeg er alveg sammála hv. flm. um að óska, að þetta þurfi ekki að koma fyrir aftur.

Það gladdi mig að heyra hv. flm. segja, að spara mætti nokkuð af kennarastjettinni með betra fyrirkomulagi. En um sparnað á þessu sviði hafa einmitt verið fluttar tillögur af núverandi stjórn, eftir tillögum sparnaðarnefndar þeirrar, er skipuð var um árið og hv. flm. vildi gera lítið úr. Þessar tillögur voru um að bæta meiri vinnu á kennara, án þess að hækka laun þeirra. Hið háa Alþingi vildi ekki fallast á tillögumar, og skal jeg játa, að talsvert rjettlæti var þar í hugsun þess. Kennaralaunin eru ekki svo há, að vel sje hægt að heimta fyrir þau meiri vinnu en þegar er látin í tje.

Jeg skal segja hv. flm. það, ef hann hefir ekki veitt því athygli, að eitt af því, sem á síðustu árum hefir aukið mest föst útgjöld ríkissjóðs, eru hinar sívaxandi kröfur um aukna kenslu og aukin laun fyrir kenslu, sem hafa verið fram bornar bæði af þessum hv. þm. o. fl.

Þá sagði hv. flm. eitthvað á þá leið, að þeir, sem ekki vildu samþykkja till. hans, vildu láta alt sitja við það, sem nú er. Þetta er það, sem menn eiga að venjast frá hv. 1. landsk. Hann tekur eitthvert gott mál, ber fram um það frv. eða þáltill., vanhugsað eða illa orðað. Síðan hrópar hann, að þeir, sem á móti tillögunni sjeu, sjeu á móti málinu sjálfu. Svona eru t. d. tillögur hans og frv. um ræktun landsins, svo að eitthvað sje nefnt. Þessi tillaga hans er einnig svo úr garði gerð, að hann hefir engan rjett til að segja, að þeir sjeu á móti sparnaði í embættisfærslu, sem atkv. greiða á móti till.

Launum bankastjóra Íslandsbanka er algerlega óþarft að blanda hjer inn í umræður. Jeg skal þó geta þess, að laun þess bankastjóra, er valinn er af bankaráðinu, eru ákveðin með samningi, löngu áður en jeg fekk þar sæti.

Hv. flm. sýndi með sumum ummælum sínum, að honum er alls ekki ljóst. Í hverju liggur mestur kostnaður ríkissjóðs, auk embættislauna og húsaleigu fyrir opinberar stofnanir. Af því mun hafa stafað misskilningur hans, er hann kallaði það óhæfu og embættafjölgun að setja skipverja á varðskipum ríkisins á föst laun. En jeg er svo kunnugur þessum málum, að jeg get fullvissað hann um, að einmitt með því að hafa föst grunnlaun og dýrtíðaruppbót er miklu hægara að koma kostnaðinum niður, í samræmi við minkandi dýrtíð, heldur en ef launin eru aðeins eftir samkomulagi. Erfiðleikarnir liggja einmitt í því að fá lækkuð laun ýmislegs þjónustufólks hins opinbera í samræmi við laun embættis- og sýslunarmanna. Því er það gagngerður misskilningur að halda, að ríkissjóði sje hlíft við útgjöldum með því að taka hina og þessa starfsmanna flokka undan launalögum. Það er þvert á móti. Undanfarið hygg jeg, að ekki hafi verið gengið nærri nógu langt í því að setja launalög um starfsmenn ríkisins. Á öllum þeim sviðum, sem launalög taka ekki til, þarf að framkvæma nákvæma rannsókn, og jeg er engan veginn vonlaus um árangur af því. Forstjórar stofnananna hafa ekkert aðhald um að lækka kaup starfsmanna sinna í samræmi við minkandi dýrtíð, þegar þeir eru ekki skyldaðir til að fylgja reglum launalaganna. Jeg held, að vel sje athugandi, hvort ekki ætti að setja launareglur fyrir alt þetta starfsfólk, sem hliðstæðastar ákvæðum launalaganna.

Hv. flm. hjelt, að vandalaust yrði að fá menn til að starfa kauplaust; vísaði hann þar í Þingvallanefndina til samanburðar og sagði, að hún hefði haldið marga fundi. En það starf, sem hjer liggur fyrir, er mjög svo annars eðlis en að það verði unnið á nefndarfundum, nema að mjög litlu leyti. Það er rannsókn á reikningum hinna og þessara stofnana og högum, þeirra öllum. Þetta kostar ákaflega mikið starf. Jeg held, að það yrði best unnið með því að fá einn eða tvo reikningsglögga og hagsýna menn til að framkvæma það. Jeg sje vel, að fyrir hvaða landsstjórn sem er geta verið miklir örðugleikar á að framkvæma þetta. En helst yrði þó einhver árangur, ef landsstjórn, sem hefði vilja á að færa niður útgjöld, veldi til verksins einhverja starfsmenn, er góða þekkingu hefðu á málefninu og stjórnin bæri traust til. Jeg segi þetta alveg án tillits til þess hvort þessi stjórn eða einhver önnur ætti að standa fyrir valinu.

Þótt jeg hafi nú sitthvað við þetta að athuga, þá skal jeg þó ekki setja mig á móti nefndarkosningu hv. þm. Komist nefndin á laggirnar, mun það sýna sig, hvort sannara reynist, trú hans eða vantrú mín.