13.05.1927
Sameinað þing: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í D-deild Alþingistíðinda. (3694)

52. mál, byggingar- og landnámssjóður

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Fyrri hluti till. þessarar snertir skattamálin, og till. í heild sinni á að vera einn liður í þeirri löggjöf, sem á síðari árum hefir valdið því, að útgjöld ríkissjóðs hafa farið stöðugt hækkandi.

Jeg tel mjer skylt að minnast á þá hlið málsins, vegna þess að till. á að fara til milliþinganefndar í landbúnaðarmálum, sem svo á, eftir till., að semja viðauka við skattalöggjöf landsins. En það er tæplega gerandi, því að verkssviðin eru svo ólík, og þar sem þessir 3 menn verða valdir í nefndina með tilliti til þess, að þeir sjeu færir um að endurskoða landbúnaðarlöggjöf landsins, þá má ekki búast við því, að þeir verði eins færir um að stinga upp á breytingum á skattalöggjöfinni.

Sú leið, sem hv. flm. (JJ) benti á, að farin skyldi til tekjuöflunar, er ómöguleg. Jeg vil minna á það, að gjöldin á þeim fjárlögum, sem nú hafa verið afgreidd, eru um l0½ milj. kr., og er jeg yfirleitt viss um, að landsmönnum muni finnast sú upphæð í djarfasta lagi há, og munu ef til vill margir jafnvel vera hræddir um, að hún sje of há, eftir því sem gjaldþol landsmanna nú er. Af þessum 10½ milj. kr. er rjett um 9 milj., er fara til eiginlegra starfræksluútgjalda allskonar við þjóðfjelagsstarfsemina og ríkisfyrirtæki, og svo til þess að greiða vexti og afborganir af skuldum. En liðlega 1½ milj. kr. hefir þingið aftur sjeð sjer fært að ráðstafa til eiginlegra framfarafyrirtækja, það er að segja til nýrra framkvæmda á ýmsum sviðum. Jeg er hræddur um, að það sje varhugavert að halda á næstu árum hratt áfram í því að bæta við löggjöf, sem hefir í för með sjer aukin árleg útgjöld fyrir ríkissjóð, heldur sje rjettara að sjá fyrst, hvort gjaldþol þjóðarinnar leyfir meira en það, að við höldum útgjöldunum afmörkuðum á grundvelli núverandi löggjafar. Jeg vil minna á það, að það er ógætilegt að bera saman á hverju einstöku sviði, hvað aðrar þjóðir hafa leyft sjer að gera, og svo hvað við getum gert. Það er ekki örugt, vegna þess, að við erum fátæk þjóð og af því að hæstu útgjaldaliðirnir eru til verklegra framkvæmda á þeim sviðum, sem aðrar þjóðir eru fyrir löngu búnar að leysa af hendi. Jeg vil t. d. nefna vega- og brúagerðir, þar sem við erum yfirleitt einni öld á eftir hinum Norðurlandaríkjunum, sem eru búin að inna af hendi öll nývirki á þessum sviðum, svo að útgjöldin til slíks eru aðeins til lítilla umbóta, til þess að fylgjast með kröfum tímans og til lítilfjörlegra aukninga á vegakerfinu. En við erum enn með fyrsta þriðjung eða að minsta kosti á fyrri helmingi þeirra framkvæmda, sem gera þarf, til þess að landið megi heita byggilegt og von sje um, að afkoma manna geti batnað. Það er varhugavert að vera að gera nýja útgjaldalöggjöf, sem hefir það í för með sjer, að við neyðumst til þess að draga úr framkvæmdahraðanum, þar sem við erum lengst á eftir.

Það er því rjett hugsun hjá hv. 1. landsk. (JJ), að um leið og brotið er upp á máli, sem gera má ráð fyrir að hafi til muna aukin árleg útgjöld í för með sjer úr ríkissjóði, þá þarf líka að útvega ríkissjóði nýjar tekjur. En hv. flm. mistekst, er hann fer að sýna milliþinganefndinni, hvernig hún eigi að afla þessara tekna. Það er auðfundið á öllu, að það stafar af því, að hann hefir ekki kynt sjer skattalöggjöfina og ekki gert þann samanburð við tilsvarandi löggjöf annara þjóða, sem óhjákvæmilegur var, úr því að hann miðar uppástungur sínar beinlínis við skattreglur annarar þjóðar.

Hv. flm. (JJ) sagði, að við værum mestu tollkóngar heimsins og að samanburðurinn á beinu og óbeinu sköttunum sýndi, að við tækjum mest af okkar tekjum með tollum, en ekki með beinum sköttum. En að því leyti sem þetta er rjett, þá verður að gera sjer grein fyrir því, af hverju það stafar. Er það af því, að beinu skattarnir sjeu lægri á hverjum einstaklingi hjer en annarsstaðar, þ. e. að skattstiginn sje lægri? Það verður ekki komist hjá að svara þessu, ef athuga á uppástungu þá, er hv. þm. ber fram við skattamálin. En hún er sú, að leggja gróðaskatt á skattskyldar eignir og tekjur, eignir, er nemi 50 þús. kr. og þar yfir, og tekjur, er nemi 15 þús. kr. og þar yfir. En hann tekur þó fram, hv. flm. (JJ), að eignar-, tekju- og gróðaskatturinn megi ekki samtals vera hærri en hliðstæðir skattar á Englandi.

Við skulum nú bera saman þá skatta, sem við höfum, og tilsvarandi skatta á Englandi, að meðtöldum gróðaskattinum (supertax), sem þar er greiddur. Jeg hefi gert þennan samanburð eins og skattarnir voru á Englandi fjárhagsárið 1925–26. Jeg skal geta þess, að skattarnir þar breytast eftir ákvæðum í hvers árs fjárlögum, en þó munu þeir nú vera óbreyttir frá því sem þeir voru þetta tiltekna tímabil. Jeg tek hjer til hægðarauka ákveðið dæmi, og það eru hjón með 2 börn, því að það er frádráttur á Englandi, eins og hjer, að því er snertir börn og fjölskyldu, þó eftir dálítið öðrum reglum en hjer. Ennfremur verð jeg að geta þess, að löggjöfin í þessu efni er ekki eins í báðum löndunum, því að í Englandi er enginn sjerstakur eignarskattur, en tekjuskattsstiginn er aftur hærri fyrir tekjur af eign en fyrir tekjur af atvinnu. Hjá okkur er eignarskatturinn svo lítill, vegna þess að hjer er yfirleitt um litlar eignir að ræða, að tekjuskatturinn verður alveg yfirgnæfandi. Jeg tek því til samanburðar hjón með tvö börn, þar sem allar tekjurnar eru atvinnutekjur.

Þá kemur það fram, að af upp að 70–80 þús. kr. tekjum er skattur á Englandi, að meðtöldum gróðaskatti eða „supertax“, lægri en tekjuskattur hjer. Þessu til skýringar vil jeg leyfa mjer að nefna örfáar tölur.

Af 1000 sterlingspundum, eða ca. 22 þús. kr., greiðir Englendingurinn 1825 kr., en Íslendingurinn 1921 kr. Af 2000 sterlingspundum er skatturinn á Englandi 5920 kr., en á Íslandi 6497 kr. Af 3000 sterlingspundum á Englandi 11300 kr., en á Íslandi 11697 kr. — Þá fyrst, þegar tekjurnar eru orðnar 4000 sterlingspund eða þar yfir, greiðir Englendingurinn örlítið hærri skatt, að meðtöldum „supertax“, eða 17332 kr., en Íslendingurinn 17137 kr. Munurinn er aðeins tæpar 200 kr., og þar við má bæta því, að það er enginn gjaldandi til á Íslandi, sem hefir svo miklar tekjur, svo að það yrði heldur magurt tillag til byggingar- og landnámssjóðsins, sem þannig fengist, eftir uppástungu hv. 1. landsk. Út í fjelagaskattinn ætla jeg ekki að fara, en þaðan er ekki mikilla tekna að vænta, svo framarlega sem við höldum sama skattstiga sem nú er.

Hjer við bætist, að á Englandi er ekki nema þessi eini tekjuskattur, en hjer höfum við líka annan, alveg hliðstæðan, beinan skatt, sem sje sveitarútsvörin, sem yfirleitt eru, að minsta kosti hjer í Reykjavík, hærri en tekju- og eignarskatturinn til ríkisins. Það er heldur ekki að undra, þar sem það nemur helmingi meiru, sem þarf að jafna niður til bæjarþarfa, en það, sem greiðist til ríkissjóðs úr bænum. Það liggur því nærri að segja, að gjaldendur í Reykjavík beri skatt, sem er tvisvar til þrisvar sinnum hærri, tiltölulega, en gjaldendur með sömu tekjum á Englandi þurfa að borga. Það getur verið, að Englendingar borgi til bæjarþarfa eitthvað hærri fasteignaskatt en við. Jeg hefi hjer aðeins farið út í samanburð á tekju- og eignarskattinum, eins og till. gefur tilefni til.

Jeg vona, að þetta nægi til þess að sýna, að ef við erum mestu tollkóngarnir, þá er það ekki af því, að okkar lög um beinu skattana sjeu neitt mildari en annarsstaðar. En hjer er af svo litlum tekjum að gjalda, að við getum ekki náð af þeim eins miklum sköttum eins og aðrar þjóðir geta með svipuðum eða lægri skattstiga. En þær tekjur, sem við fáum með tekju- og eignarskattinum, eru einmitt góður mælikvarði á það, hvað við erum miklu fátækari en hinar eldgömlu menningarþjóðir, eins og Englendingar, og það þarf engan að furða.

Jeg sje ekki, að ástæða sje til að setja milliþinganefnd til þess að sníða bætur á skattalöggjöf vora, eftir jafnfjarstæðri fyrirsögn eins og 1. liður till. hv. 1. landsk. er, og get því ekki greitt mitt atkv. með því. Eins og hv. þm. tók fram, fellur allur grundvöllurinn undan þessari hugmynd hans, ef ekki er hægt að finna nýjar tekjur handa sjóðnum.

Jeg ætla svo ekki að fara út í hina 2 liðina, en get búist við, að þeir verði athugaðir af þeim, sem þar eiga frekar hlut að máli.