06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í D-deild Alþingistíðinda. (3730)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. fyrirspyrjandi spyr. eftir hvaða heimildum yfirsíldarmatsstarfið á Seyðisfirði hafi verið sameinað yfirsíldarmatsstarfinu á Akureyri síðastliðið sumar. Heimildin liggur í þeirri viðurkendu reglu, að stjórnin er ekki skyld til að skipa menn strax í embætti, er einhver fellur frá, heldur má setja mann í embættið til bráðabirgða. Auk þess vil jeg benda á, að á þingi 1924 var samþ. þál. um að skora á landsstjórnina að veita ekki þau embætti, sem hægt væri að komast af án eða sameina öðrum. Þetta var ærið nóg til að rjettlæta ráðstöfunina, en þó er aðalástæðan enn ótalin. Hún var sú, að s. l. 10 ár hafði verið flutt út svo lítið af síld frá Austfjörðum, að það virtist tilgangslaust að hafa þar matsmann á fullum launum. Til þess að sýna fram á þetta, skal jeg gefa yfirlit yfir útflutta síld þaðan á árunum 1917–1926

Útflutt af Austfj.

Alls af landinu.

1917

658 tn.

um 89,6 þús.

1918

423 —

— 14,8 —

1919

486 —

— 208 —

1920

½ —

— 183 —

1921

1422 —

— 129 —

1922

470 —

— 242,5 —

1923

321 —

— 248 —

1924

364 —

— 136,5 —

1925

1404 —

— 245,6 —

1926

9684 —

— 152,8 —

Þetta yfirlit vona jeg að sýni, að það hefir verið lítill búhnykkur að hafa sjerstakan yfirmatsmann á Austfjörðum. 1920 hefir það t. d. kostað 3520 kr. að meta þá ½ tunnu af síld, sem út var flutt. En þó að ekki sje tekið þetta dæmi, heldur aðeins meðaltal áranna, sem jeg nefndi, sjest, að miklu minna kemur inn í tolli og útflutningsgjaldi af síldinni en nemur yfirmatskostnaðinum einum. Þegar þess vegna sá matsmaður, sem skipaður hafði verið, dó s. l. sumar, ákvað landsstjórnin að skipa engan mann í hans stað í bili, en þá vildi svo til, að óvenjumikið síldarhlaup kom að Austfjörðum. Þetta gat stjórnin auðvitað ekki vitað, er hún ákvað að veita ekki embættið. Jeg veit ekki, hvað hún hefði gert, ef hún hefði vitað þetta fyrir, en jeg hugsa þó, að hún hefði beðið og sjeð, hvort framhald yrði á þessu. Það nær ekki nokkurri átt að hafa mann á 2–3 þús. kr. launum til að annast yfirmat á 3–400 tn. af síld. Það vona jeg að allir sjái. Alþingi ætti því að vera stjórninni þakklátt fyrir að veita embættið ekki. Þessi matsmaður hefir sama sem ekkert að gera. Og þó að það kunni að vera rjett, að metið sje á mörgum stöðum, kannske því nær hverjum bæ, er auðsætt, að yfirmatsmaðurinn getur ekki haft eftirlit með söltun á allri þeirri síld. Hann getur ekki verið alstaðar og verður að treysta undirmatsmönnum sínum.

Þá spyr hv. fyrirspyrjandi, hve lengi þessi ráðstöfun eigi að standa. Um það er enn ekkert hægt að fullyrða, en jeg skal geta þess, að yfirsíldarmatsmaðurinn á Akureyri gegnir starfinu fyrir ekki neitt, nema auðvitað er honum greiddur ferðakostnaður.

Þetta svar vona jeg að hv. fyrirspyrjandi láti sjer nægja. Jeg veit, að hann er svo sanngjarn, að hann sjer að ekki er hægt að hafa sjerstakan mann til að meta þessar örfáu tunnur. En verði framhald á því, að eins mikil síld veiðist á Austfjörðum eins og í sumar sem leið, skal það tekið til athugunar, hvort ekki væri rjett að skipa mann í starfið á ný.